c

Pistlar:

2. apríl 2016 kl. 16:15

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Að taka þátt eða sitja hjá

Mér finnst alltaf jafn merkilegt að fylgjast með fólki og sjá að hvaða marki það tekur þátt í því sem er að gerast í kringum það hverju sinni. Sumir velja að vera alltaf með í öllu sem í boði er, á meðan aðrir velja að sitja hjá og horfa á aðra taka þátt. Að mínu mati er hið síðarnefnda svolítið eins og að velja að sitja á varamannabekknum, fekar en vera þátttakandi í leiknum sem er lífið sjálft.

Þetta fannst mér kristallast mjög á hótelinu sem ég dvaldi á um páskana á Kanaríeyjum. Ég var þar á ferð með fjölskyldu yngri sonar míns. Hann á tvær dætur, sem vildu pottþétt vera með í öllu sem í boði var, einkum sú eldri. Hún vildi vera í lauginn að synda og leika sér. Svo tók hún sér  pásu til að mæta í föndur og andlitsmálningu, taka þátt í bingói síðdegis og mini diskói á kvöldin. Þá voru dansaðir skemmtilegir og leikrænir dansar sem börn frá öllum löndum gátu tekið þátt í. Það heyrði til undantekningar ef öll börn í salnum voru ekki með. Sú yngri horfði bara á í eitt eða tvö kvöld og svo vildi hún líka taka þátt, þótt hún sé bara tæplega 16 mánaða. Hún er of lítil til að skilja að fylgja ætti einhverjum leiðbeiningum, en það skipti hana engu máli.

Þegar mini diskóinu lauk tók við lifandi tónlist fyrir þá fullorðnu. Í þá tíu daga sem ég dvaldi á hótelinu sá ég einungis einu sinni fullorðið fólk fara út á dansgólfið að dansa. Hinir sátu bara í sætunum sínum, horfðu á gólfið, hlustuðu á tónlistina og gerðu ekkert. Þeir klöppuðu ekki einu sinni í takt, eða dilluðu sér í sætunum. Út frá þessu komu pælingar mínar um það hversu margir taki þátt í lífi og leik sem í boði er og hversu margir eru bara áhorfendur og taka helst aldrei þátt.

Ég velti því fyrir mér hvort þeir síðarnefndu séu ekki að missa af einhverju? Og svo kemur auðvitað pælingin um það í hvorum hópnum þú sem þetta lest ert? Ertu þátttakandi eða áhorfandi?

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira