c

Pistlar:

21. maí 2016 kl. 18:39

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Himalaya-saltböð eru heilandi

himalayan-salt.jpgVatn hefur verið notað gegn meiðslum og til lækninga í nokkrar aldir, svo vitað sé. Rómverjar og Forn-Grikkir notuð vatnslækningar meðan veldi þeirra var í blóma og löng hefði er fyrir vatnslækningum bæði í Kína og Japan, auk þess sem vatn hefur gegnt mikilvægu hlutverki í lækningum hjá indíánum í Norður-Ameríku. Fyrir nokkrum árum var ég á ferðalagi á Skye eyju við Skotland og fann þar heilunarlind, ferskvatn sem sprettur fram undan fjallshlíð og myndar dálítið stöðuvatn. Í upplýsingum um hana segir að hún hafi verið notuð sem heilunarlind allt frá tímum víkinganna, sem voru þarna á ferð fyrir ellefu til tólf hundruð árum síðan, þannig að vatn var ekki bara notað til heilunar í suðurhluta Evrópu.

Bandaríski læknirinn Dr. Mercola, sem hefur í mörg ár unnið með náttúrulegar leiðir til að koma jafnvægi á líkamsstarfsemina, segir að Himalaya-saltið komi jafnvægi á vatnsbúskap líkamans; stuðli að góðu pH gildi (sýrustigi) í frumunum, sérstaklega í heilafrumunum; stuðli að jafnvægi á blóðsykri og dragi úr öldrunarmerkjum líkamans; stuðli að aukinni orkuleiðni í frumum líkamans; bæti upptöku fæðu í gegnum þarmana; stuðli að betri heilsu öndunarfæranna; styrki starfsemi í kinn- og ennisholum; komi í veg fyrir vöðvakrampa; styrki bein líkamans; komi jafnvægi á svefn; auki kyngetuna; stuðli að betri heilsu æðakerfisins – og með vatni sé það nauðsynlegt til að koma jafnvægi á blóðþrýstinginn.

STEINEFNABÖÐ
Ég hef í mörg ár skrifað greinar um magnesíum og mikilvægi þess að taka það inn daglega sem bætiefni. Það má hinsvegar líka taka magnesíum inn í gegnum húðina með því að fara í magnesíum böð.

  • Blandaðu 2 bollum af Epsom-salti (magensíum flögum) út í vel heitt baðvatn.
  • Ef þú vilt gera baðvatnið enn betra fyrir líkamann, bættu þá ½ bolla af matarsóda út í það.
  • Hafðu vatnið 37-38° heitt og liggðu í því í svona 30 mínútur. Haltu jöfnum hita á vatninu á meðan þú liggur í því, með því að bæta heitu vatni í baðið af og til.
  • Til að auka örvun skynfæranna og heilunaráhrif þeirra má bæta 1-3 dropum af lavender ilmkjarnaolíu eða annarri uppáhaldsolíu út í baðvatnið.

HIMALAYA-SALTBÖÐ
Salt og salt er ekki það sama, en salt er líkamanum nauðsynlegt. Ef þú vilt að hann starfi vel þarftu á heildrænu salti að halda, með náttúrulegum elementum. Borðsalt eins og við þekkjum það á ekkert sameiginlegt með náttúrulegu salti. Í Himalaya-salti er að finna 84 af þeim 92 steinefnum og málmum sem í líkamanum eru, þar á meðal kalk, magnesíum, kalíum, kopar og járn.

Bað með Himalaya-salti er best að útbúa svona:

  • Til að fá sem mest út úr baðinu skiptir máli að saltstyrkurinn sé réttur, en hann þarf að vera jafnmikill og hann er í vökvum líkamans, til að rafvakarnir í því leiði til osmósu sem tryggir salt- og vökvavægi í líkamanum. Fullt baðkar tekur svona 100-120 lítra af vatni og því þarf að setja 1,2 kíló af Himalaya salti út í það. Ekki bæta neinu öðru í vatnið.
  • Vatnið ætti að vera nákvæmlega 37°C heitt. Hitinn í vatninu helst jafn vegna þess að eðlisfræðileg samsetning saltsins er sterk og veldur því að sameindir þess hreyfa sig í jöfnum hrynjanda.
  • Liggðu í baðvatninu í 20-30 mínútur.
  • Ekki skola þig undir sturtu eftir baðið; þurrkaðu þér bara með handklæði.
  • Hvíldu þig í 30 mínútur eftir baðið eða farðu í baðið rétt fyrir háttinn og njóttu góðs nætursvefns á eftir.

Húðin er útskilnaðarlíffæri sem meðal annars endurspeglar ástand meltingarfæranna. Þegar þú ferð í saltbað hjálpa steinefnin í saltinu húðinni á þér með rafleiðni að koma jafnvægi á orkuflæði líkamans. Saltböð koma einnig jafnvægi á vatnsmagn í líkamanum, á svefninn, á sýrustig í heilafrumunum, á blóðsykur og draga úr öldrunareinkennum og vöðvakrampa.

Heimildir: Úr bókinni UNG Á ÖLLUM ALDRI

Neytendaupplýsingar: Gróft himalaya-salt fæst yfirleitt í heilsuvöruverslunum og í heilsuvörurekkum stórmarkaða.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira