c

Pistlar:

29. desember 2016 kl. 11:25

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Bergmann stælir Branson

Það líður að áramótum og líkt og ég hef gert reglulega frá árinu 1990, sest ég niður og set mér markmið fyrir komandi ár. Með því móta ég útlínur að þeirri mynd sem ég vil að árið taki og vinn svo í að fylla út í hana. Stundum hafa markmiðin mín öll gengið eftir, stundum ekki. Stundum taka þau allt aðra stefnu en ég hafði í upphafi sett, en þá segi ég alltaf: “Ef ekki þetta þá eitthvað enn betra!” og held í þá átt sem lífið virðist vera að beina mér og enda þá oftar en ekki á enn betri stað. Þess vegna þarf, á því tímabili sem markmiðalistinn nær yfir, að skoða hann reglulega og gera breytingar á honum ef með þarf.

ÁSKORANIR ÞETTA ÁRIÐ
Ég fæ alltaf fréttabréf frá Virgin, fyrirtækjasamsteypu Sir Richard Branson, og las nú rétt fyrir jólin póst frá honum sem veitti mér innblástur. Við erum jafngömul og á síðasta ári setti hann sér 65 áskoranir, en bætti reyndar einni við í lokin, til að hafa þær 66 eins og hann varð á árinu. Mér fannst þetta frábær hugmynd og því set ég mér ekki markmið fyrir næsta ár, heldur útbý ég mér lista með 66 áskorunum fyrir árið 2017 – og kann að bæta þeirri 67. við í lokin.

Þetta er auðvitað á vissan hátt markmiðalistinn minn, en samt aðeins meira ögrandi og á sennilega eftir að ýta mér út fyrir þægindasvæði mitt enn eina ferðina, en það er auðvitað það skemmtilegasta við hann. Áskoranirnar eru ýmis konar. Sumar smáar og auðveldar, aðrar stærri og gera meiri kröfu til mín, bæði líkamlega og andlega. Sumar eru tímasettar, aðrar ekki. Ég er hrikalega spennt yfir listanum mínum og hvet þig til að velta aðeins vöngum yfir því hvernig þinn listi myndi líta út – og jafnvel skrifa áskoranirnar niður.                                                                                                 

SKREF FYRIR SKREF
Ég sagði vinkonu minni frá listanum og hún spurði hvernig ég gerði hann, hvort ég setti bara niður eina línu eða hvort ég skýrði hvernig ég ætla mér að vinna að hverri áskorun. Svarið er að ég skrifa bara niður 66 áskoranir. Svo mun ég í upphafi hvers mánaðar skoða listann minn og skoða hvaða áskorunum er hægt að vinna að í hverjum mánuði. Svo er bara að bretta upp ermar og hefjast handa.

Ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildu henni þá endilega með öðrum.

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira