c

Pistlar:

22. febrúar 2017 kl. 18:10

Guðrún Bergmann (gudrunbergmann.blog.is)

Ertu með bólgur og liðverki?

Tæplega 8.000 manns hafa lesið þessa grein á vefsíðunni minni, svo ég ákvað að deila henni hér á Smartlandinu líka. Þar sem margir þjást af ýmis konar bólgum í líkamanum, er gott að skoða aðeins hvort þær séu bráðabólgur sem líða hratt hjá eða séu orðnar krónískar.

Bólgur í líkamanum myndast vegna flókinna ónæmisviðbragða, en bólgum má skipta í tvo flokka. Bráðabólgur sem eru fyrstu viðbrögð líkamans við utanaðkomandi innrás eða áfalli sem líkaminn verður fyrir, eins og þegar við skerum okkur eða brjótum bein, fáum vísus, bakteríur eða sjúkdóma sem ónæmiskerfið okkar bregst við með bólgum meðan verið er að vinna bug á meininu.

Bólgur verða svo krónískar (langvinnar) þegar bólguástandið verður stöðugt. Í sumum tilvikum er ástandið vart merkjanlegt í áraraðir. En skyndilega koma svo einkennin í ljós, oftast vegna þess að bólgurnar hafa leitt til einhverra misalvarlegra sjúkdóma. Og þá hefst leitin að því hvernig vinna má bug á þessu bólguástandi.

Vísindamenn eru almennt sammála um að krónískar bólgur séu grunnorsök flestra sjúkdóma. Með því að draga úr bólgum í líkamanum erum við því að koma í veg fyrir heilsufarsvandamál eins og hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki og krabbamein.

5 MERKI UM KRÓNÍSKAR BÓLGUR
En hvernig vitum við hvort bólgurnar séu krónískar? Það er ágætt að reyna að meta það með því að skoða eftirfarandi lista:

1 - SÁRSAUKI
Krónískar bólgur valda oftast miklum sársauka. Stundum eru bólgurnar vart merkjanlegar með sársaukafullum bólguköstum annað slagið. Svo geta bólgurnar verið mjög miklar og leitt af sér stöðugan sársauka í liðum og vöðvum um allan líkamann.

2 - STREITUÁLAG
Þegar bólgur geisa í líkamanum eru öll kerfi hans undir streituálagi. Þetta álag er til staðar jafnvel þótt þú gerir þér ekki grein fyrir bólgunum. Þegar bólgur geisa sendir svæðið frá sér efnasambönd sem valda líkamanum miklu streituálagi. Slíkt langtíma streituálag getur með tímanum leitt til alvarlegra sjúkdóma.

3 - ÞREYTA
Bólgnir og sársaukafullir liðir og vöðvar, auk veikara ónæmiskerfis, leiða til þreytu og orkuleysi. Ef þér líður eins og þú getir ekki (eða viljir ekki) fara á fætur á morgnana, eru allar líkur á að þú sért með minni- eða meiriháttar bólgur í líkamanum.

4 - SJÚKDÓMAR Í MELTINGARVEGI
Þar sem ónæmiskerfi okkar er að svo miklu leyti tengt smáþörmum og ristli - og vegna þess að maturinn sem við borðum fer í gegnum meltingarveg okkar, kemur það ekki á óvart að neysla á bólgumyndandi fæðu og stöðugar bólgur valdi usla í meltingarvegi okkar. Einkenni eins og glútenóþol og iðraólga (IBS=irritable bowel syndrome) eru ákall líkamans um hjálp við að draga úr bólgunum. Margir taka inn lyf sem eiga að vera bólgueyðandi eins og íbúfen og voltaren, en þessi lyf valda því að þarmaveggir líkamans skaðast og verða "lekir", svo þótt þau slái á einkennin um tíma, valda þau í raun meiri skaða og viðhalda og auka á bólgurnar. SJÁ HÉR!

5 - KVIÐFITA
Framsettur kviður er meira en óásjáleg byrði sem við reynum að dylja undir fötunum okkar. Fitufrumur eru ekki óvirkar frumur. Þær framleiða bólgumyndandi efni sem dreifa sér um líkamann. Þessi efni ráðast á hjarta- og æðakerfið. Ýmsar rannsóknir sýna að kviðfita er versta tegund fitu á líkamanum vegna þess hversu virk hún er í að viðhalda bólgusjúkdómum. Einn af eiginleikum Rhodiola eða burnirótar er að draga úr kviðfitu. SJÁ HÉR!

MATARÆÐIÐ SKIPTIR LYKILMÁLI
Þegar mataræði er metið út frá áhrifum þess á bólgur, eru ýmsar fæðutegundir sem beinlínis valda bólgum og aðrar sem draga úr þeim. Því skiptir máli að vita hvaða fæðutegundir þarf að forðast – og síðan komast að raun um hvaða fæðutegundir geta hjálpað okkur að draga úr bólgum í líkamanum. Þss vegna hafa námskeið mín um HREINT MATARÆÐI haft svo afgerandi áhrif á líðan fólks með bólgusjúkdóma og breytt henni til hins betra.

Ég kem til með að fjalla um mat sem þarf að forðast til að draga úr bóglum í næstu grein – en ef þér fannst þessi grein áhugaverð, deildi henni þá endilega með öðrum.

Heimildir: The Autoimmune Disorder, Donna Jackson Nakazawa & Dr. Douglas Kerr

Guðrún Bergmann

Guðrún Bergmann

Guðrún er einn af frumkvöðlum ýmis konar sjálfsræktarnámskeiða, sem hún hefur haldið í rúm 26 ár. Undanfarin tvö ár hefur hún beint sjónum sínum að heilsunni með námskeiðunum HREINT MATARÆÐI. Annars hafa námskeið hennar spannað vítt svið, en þó alltaf með fókus á hvernig bæta má andlega og líkamlega líðan, ná meiri árangri í starfi og njóta aukinna lífsgæða. Nýjasta bók Guðrúnar er matreiðslubókin HREINT Í MATINN, en það er sextánda bók hennar. Að auki hefur hún þýtt fjölda bóka.

Meira