c

Pistlar:

14. ágúst 2014 kl. 14:24

Guðrún Arnalds - Darshan (gudrundarshan.blog.is)

Ertu að setja sjálfa-n þig í fyrsta sæti?

dagmar_2_1243745.pngAð setja sjálfa-n sig í fyrsta sæti þýðir ekki að gleyma öllum hinum. Ef við munum eftir að sinna okkur sjálfum og gefum okkur stundir til að endurnærast þá erum við meira í stakk búin til þess að gefa af okkur. Það að gefa af okkur er það sem gefur okkur lífsfyllingu og gleði - og gleðinni fylgir frelsi. Frelsi til að vera við sjálf.

Nú fara skólarnir að hefjast og þá kemst allt í sitt fasta form. Stundum eigum við það til að leyfa annríkinu að gleypa okkur og gleymum hvað það er mikilvægt að eiga líka stundir með okkur sjálfum.

Sumarið skartar enn sínu fegursta og leitast við að gefa okkur innblástur af bjartsýni og gleði. Á meðan við undirbúum okkur í huganum fyrir komu haustsins getur verið ágætt að velta því upp hvernig okkur hefur  gengið hingað til að flétta saman gleði og skyldustörf. Og hvort það sé ekki kominn tími til að setja sjálfa-n sig í fyrsta sæti:-)

Sumarið gefur okkur stundum tækifæri til þess að hlaða batteríin. Og þá ef til vill að finna hvað það er sem skiptir okkur máli í lífinu.  Oft eigum við það þó til að gera of miklar væntingar í sumarfríinu og ætla okkur að gera of mikið. Sem getur jafnvel leitt til þess að við verðum þunglynd og pirruð.

Það er svo mikilvægt að læra að hlusta á okkur sjálf og finna hvað það er sem við þurfum og þráum. Til þess þurfum við stundum að einfalda líf okkar og læra leiðir til að anda og hlusta inn á við. Jóga og hugleiðsla eru afbragðs leiðir til að kenna okkur þetta. 

Jóga er fyrir alla. Það geta allir notið þess að stunda jóga – sama í hvernig líkamsformi þeir eru og engin þörf á að vera sérstaklega liðugur. Markmið jóga meðal annars er að koma á innra jafnvægi og vellíðan í líkamann svo við getum betur gefið okkur af heilu hjarta í allt sem við erum að gera. Rannsóknir sýna að þeir sem stunda jóga reglulega eiga auðveldara með að ná markmiðum sínum og að njóta þess sem lífið hefur upp á að bjóða.

Nú er jóga- og heilsustöðin Andartak að opna aftur eftir sumafrí og allir velkomnir að kíkja við. 

Guðrún Darshan - Andartak jóga- og heilsustöð / gudrun@andartak.is

Guðrún Arnalds - Darshan

Guðrún Arnalds - Darshan

Guðrún Arnalds - Darshan starfar sem hómópati, lífsmarkþjálfi (life coach) og jógakennari og rekur jóga- og heilsustöðina Andartak.

www.andartak.is

Meira