c

Pistlar:

2. janúar 2019 kl. 13:43

Guðrún Arnalds - Darshan (gudrundarshan.blog.is)

Vökvaðu draumana þína

_DSF8870 copyNýtt ár 2019 er framundan með ný ævintýri og ný verkefni að takast á við. Ný tækifæri og ný fyrirheit. Ég settist niður á gamlárskvöld með fjölskyldunni minni og við skoðuðum hvað okkur fannst standa upp úr fyrir nýliðið ár og hvað við vildum hafa að leiðarljósi fyrir komandi ár.

Ég ákvað að hafa hjartað mitt að leiðarljósi á þessu komandi ári. Að gefa mér tíma til að hlusta á hjartað þegar ég er of hörð við sjálfa mig. Áður en ég svara án þess að hugsa og segi eitthvað sem ég sé eftir seinna. Að sýna sjálfri mér samkennd og hlýju og þá um leið get ég átt upplyftandi samskipti við aðra í kringum mig.

Talnaspeki ársins 2019 fjallar um mikilvægi þess að vera skapandi og að sjá möguleikana og tækifærin í kringum okkur. Að brosa í gegnum erfiðleikana og velja það hvernig við bregðumst við þeim aðstæðum sem lífið færir okkur. Og í stað þess að bíða eftir að hutirnir gerist, að koma okkur að verki, láta draumana rætast og skapa frið í verki - innra með okkur sjálfum og í heiminum í kringum okkur. Að hlusta djúpt og heyra leiðsögnina innra með okkur sjálfum.

Mér hættir stundum til að fresta draumunum mínum af því ég er hrædd um að mistakast. Eða mér finnst draumurinn of stór eða of venjulegur. Eða af því ég gef mér ekki tíma til þess. En ég veit líka að það er ekkert annað sem til þarf en að byrja, eitt skref í einu, eitt ófullkomið skref í einu. Að það er undir mér komið að eitthvað gerist í málunum og að það sem ég gef athygli vex og dafnar.

Það að elska sjálfa mig þýðir líka að ég geri mitt til að fyrirbyggja að ég festist í viðjum vanans. Samkennd með sjálfri mér kallar á líka á staðfestu. Að gefast ekki upp þó að á móti blási. Að halda áfram að vökva draumana mína í gegnum súrt og sætt.

"Lifðu með ásetning að leiðarljósi. Farðu út að mörkunum. Hlustaðu djúpt. Ræktaðu heilsuna. Leiktu þér af öllu hjarta. Hlæðu. Veldu án eftirsjár. Heiðraðu vini þína. Haltu áfram að læra. Gerðu það sem þú elskar. Lifðu fyrir þetta líf." Mary Ann Radmacher.

Námskeiðið "Vökvaðu draumana þína 2019" er stutt námskeið í byrjun árs þar sem við hlustum inn á við og skoðum hvað skiptir okkur máli og hvernig við ætlum að gefa því rými. Nánar um námskeiðið: Vökvaðu draumana þína

Guðrún Darshan - jógakennari, hómópati og markþjálfi

Andartak - jóga- og heilsustöð

gudrun@andartak.is

Guðrún Arnalds - Darshan

Guðrún Arnalds - Darshan

Guðrún Arnalds - Darshan starfar sem hómópati, lífsmarkþjálfi (life coach) og jógakennari og rekur jóga- og heilsustöðina Andartak.

www.andartak.is

Meira