c

Pistlar:

29. apríl 2019 kl. 10:24

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Töfraheimur líkamans og hjartans

Gleðilegt sumar! Það er svo skemmtilegt að sjá fuglana fylla himininn og heyra aftur líf í móanum. Ég er búin að njóta þeirra forréttinda að vera í jógaferð í sveitinni eftir páska. Það er ákaflega upplyftandi og endurnærandi að vera í samfélagi með öðrum sem eru líka að næra andann og finna fyrir lífinu í hjartanu.

Við lifum flesta daga í samfélagi þar sem allt gengur út á að hugsa og skipuleggja og komast niður listann af verkefnum. Þetta getur orðið til þess að við fjarlægjumst líkamann og gleymum hvernig það er að finna og hvíla í núinu.
 
Eftir góðan jógatíma eða nærandi stund í náttúrunni þá erum við vel tengd líkamanum og munum hvernig það er að njóta andartaksins. Það má segja að þetta sé eins og að fara á milli tveggja heima. Í þeim heimi sem samfélagið kallar okkur inn í, eigum við það til að gleyma því hvað skiptir okkur máli í lífinu. Þetta er heimur hugtaka og hugsana. Dvölin þar er oft hvorki nærandi né gefandi. En við komum heilmiklu í verk.
 
Þegar við náum að hvíla í andartakinu og njóta þá byrjum við að tengja við líkamann og hlusta á hvað er að gerast innra með okkur. Við hlustum betur á hvað það er sem við þurfum og eigum líka oft kærleiksríkari samskipti við okkar nánustu.
 
Ég finn það hjá mér að ef ég vil gefa því meira rými að njóta og vera þá þarf ég að velja það meðvitað því samfélagið hvetur mig ekki til þess. Ég þarf að gefa mér tíma til að standa upp frá því sem ég er að gera og hlusta eftir því hvað ég þarf.
 
Heimur líkamans og andartaksins kennir mér að hlusta á innsæið og njóta leiðsagnar kennarans innra með mér. Hann kennir mér að skapa og sleppa takinu á fullkomnunarpúkanum. Að sleppa takinu á spennu sem ég held í í líkamanum og í huganum. Líkaminn er svo ótrúlega spennandi staður að hvíla í. Hann býr yfir svo mörgum leyndardómum og ævintýralegum ókönnuðum löndum. 

Ég býð þér að koma og kanna þinn ævintýraheim. Að njóta og finna það sem líkaminn þinn vill segja þér. Nú eru að byrja ný námskeið hjá okkur í Andataki. Allir velkomnir!

Guðrún Darshan jógakennari, markþjálfi og hómópati
Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira