c

Pistlar:

27. apríl 2020 kl. 21:17

Guðrún Arnalds (gudrundarshan.blog.is)

Þögn hjartans


Ég glími við hugann minn alla daga. Hann er stundum eins og sólargeisli sem lýsir upp alla mína dimmustu kima. En það er bara stundum. Þess á milli er hann alls konar. Stundum rásar hann um allar trissur og engin leið að hemja hann. Þá á ég erfitt með að halda athyglinni við eitthvað eitt. Þá er ég líka stundum fljót að sjá það neikvæða í lífinu. Og hætti að njóta þess að vera með því sem er. Hætti að vera til staðar og er með hugann annars staðar. Samt er þetta annars staðar ekki til. Svo hvar er hugurinn þá? Í framtíðinni, að hafa áhyggjur af einhverju. Eða hann er að bregðast við einhverju sem hann heldur að sé mikilvægara en líðandi stund. Hann er alla vega ekki með mér.
 
Hugurinn er skrýtið fyrirbæri. Hann er öflugasta tækið sem við eigum til og getur fært okkur velsæld og hamingju. Hann getur líka orðið eins og villidýr í ham sem við ráðum engan veginn við. Til þess að ráða við hugann hefur mér fundist gagnlegt að læra að horfa á hugann. Virða hann fyrir mér án þess að gleyma mér alltaf í innihaldi hugans. 
 
Við sem lifum í hinum vestræna heimi höfum tilhneigingu til þess að vera alltaf með hugann virkan. Það má segja að við séum með einhvers konar fíkn í hugsanir. Við erum búin að gleyma því hvernig það var að lifa án orða. Þess vegna finnst okkur notalegt að vera nálægt dýrum og litlum börnum. Þau búa yfir þessum eiginleika að vera tengd líkamanum og verund án orða, án hugsana. Þegar við göngum í náttúrunni eða vinnum í garðinum okkar þá fáum við tækifæri til að ganga inn í þennan innsta kjarna, þennan helgidóm í okkur sjálfum, án orða.
 
Jógaiðkun og hugleiðsla hjálpa mér að komast nær kjarnanum. Uppsprettuna sem nærir mig, færir mér lífsgleði og tilgang. Ég styrki hæfileikann til að vera til staðar fyrir sjálfa mig og aðra. Dagleg hugleiðsla er minn besti vinur. Ég myndi ekki vilja vera án hennar. 

Guðrún Darshan jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds

Guðrún Arnalds starfar sem jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld. Hún rekur jóga- og heilsustöðina Andartak. Hún hefur starfað við heildræna heilsu í 30 ár og kennt jóga í 20 ár og hefur viðað að sér þekkingu og reynslu á þessum sviðum og á öðru því sem snýr að þroskaferðalagi manneskjunnar. 

www.andartak.is

Meira