c

Pistlar:

8. september 2021 kl. 11:15

Guðrún Arnalds - Darshan (gudrundarshan.blog.is)

Litrík seigla

Þegar haustar er nóg að gera við að koma öllu í skorður og finna taktinn upp á nýtt. Ég þarf að hafa mig alla við að að setja tímanum mörk og ætla mér ekki of mikið. Að ýta til hliðar og forgangsraða. Ég tala við verkefnin og segi þeim að þau þurfi að bíða aðeins lengur og minni sjálfa mig á að ég er eitthvað meira og stærra en hugsanirnar mínar og verkefnin sem bíða. Ef ofvirkur hugurinn nær að stilla mér upp við vegg að nóttu til þá getur verið erfitt að halda honum í skefjum. En líka þá á ég mínar leiðir. Öndunaræfingar eru til dæmis að mínu mati ómissandi ferðafélagi í lífinu. Regluleg jógaiðkun er mín besta bólusetning gegn álagi.

Sumarið er fyrir mér tími til að safna fegurð og fjöllum í sinnið. Eins og íkornarnir safna hnetum og fræjum í sitt forðabúr og björninn borðar vel yfir sumarið svo hann geti lagst í hýði yfir veturinn. Ég bý mér til forða af friðsæld og náttúru, af sól og hita (ef heppnin er með mér), af ljúfum og nærandi minningum. Af þeim skilningi sem ég öðlaðist við það að stíga út úr borgarhraðanum og inn í takt náttúrunnar. Skilningi á lífi mínu, á fólki í kring um mig, á því hvað skiptir mig máli, hvernig ég vil forgangsraða, hvað það er sem ég þarf mest á að halda í lífinu og hverju ég vil sleppa. Þessi brunnur er eins konar áttaviti sem beinir mér í rétta átt þegar vetrarþokan verður sem þykkust.

Eitt af því sem ég hef hugleitt í sumar er hvernig ég tekst á við streitu. Eins og allir aðrir verð ég að horfast í augu við þá staðreynd að hraði og streita í heiminum eru frekar að aukast heldur en hitt. Ef ég ætla að lifa innihaldsríku lífi þá þarf ég að vera stærri en álagið. Stærri og bjartari, vitrari og seigari, með sköpunargleðina á lofti. Litrík seigla. Seigla er fyrir mér ákveðið viðhorf. Að taka lífinu án þess að dæma, án þess að kvarta. Seigla er kyrrð. Kyrr hugur sem staldrar við þegar þarf og horfir aftur á málið. Sem forgangsraðar vel og er ekki fastur í of djúpu fari. Það að festast í djúpu fari er að vera með venjur sem eru ómeðvitaðar og þjóna mér ekki. Stöðugur hugur sem tekur ekki hlutina of persónulega. Seigla er að vera stór. Hún kallar eftir sjálfsmildi. Að ég sé vinsamleg við mig. Að ég búist við að ég hafi það sem til þarf. Litrík seigla er full af gleði og sköpunarkrafti. Ég setti mér það markmið inn í veturinn að koma mér upp litríkri seiglu.

Guðrún Darshan, jógakennari, markþjálfi og hómópati

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

 

Guðrún Arnalds - Darshan

Guðrún Arnalds - Darshan

Guðrún Arnalds - Darshan starfar sem hómópati, lífsmarkþjálfi (life coach) og jógakennari og rekur jóga- og heilsustöðina Andartak.

www.andartak.is

Meira