c

Pistlar:

24. nóvember 2022 kl. 12:23

Guðrún Arnalds - Darshan (gudrundarshan.blog.is)

Þakklæti bætir lífið

Í dag er þakkargjörðardagur haldinn hátíðlegur í Bandaríkjunum. Þakklæti er sú dyggð sem hefur einna mest áhrif á hamingju okkar. Þakklæti hjálpar okkur að upplifa jákvæðar tilfinningar, lifa við betri heilsu, takast betur á við streitu og byggja upp sterkari sambönd. Hugmyndin um dag til heiðurs þakklæti er því mjög vel viðeigandi. 

Undanfarin ár hefur þakklæti mikið verið rannsakað og áhrif þess á lífshamingjuna. Rannsóknir sýna að þeir sem finna fyrir þakklæti eiga auðveldara með að takast á við álag, búa yfir ríkara sviði jákvæðra tilfinninga og eiga auðveldara með að ná markmiðum sínum. Vísindamenn hafa fundið beina tengingu á milli þakklætis og góðrar heilsu. Að tjá þakklæti er því einföld og aðgengileg leið til að bæta líðan okkar. 

Með þakklæti erum við að meta það góða sem við höfum í lífinu. Þegar við þökkum fyrir verðum við meðvituð um að við erum hluti af stærri heild. Hvort sem það er tenging við annað fólk, við náttúruna eða við æðri máttarvöld.

Við getum upplifað þakklæti í tengslum við fortíðina með því að rifja upp góðar minningar og þakka fyrir það liðna. Við getum líka þakkað fyrir það sem er hér og nú. Sem minnir okkur á að taka ekki neinu sem sjálfsögðum hlut. Og við getum þakkað fyrir framtíðina. Og þannig dregið fram viðhorf bjartsýni og jafnvel vitund um að við getum skapað okkar eigin framtíð.

Góð leið til að uppskera jákvæð áhrif þakklætis er að halda þakklætisdagbók eða lista yfir það sem þú þakkar fyrir daglega. Í einni rannsókn kom fram að þeir sem héldu þakklætisdagbók upplifðu meiri hamingju í lífinu. Þeir stunduðu meiri líkamsrækt og þurftu sjaldnar að leita til læknis.

Þegar við höldum þakklætisdagbók er aðalatriðið að geta fundið eitthvað til þess að þakka fyrir á hverjum degi. Jafnvel þegar dagurinn hefur verið erfiður. Stundum er það meira augljóst hvað við höfum til að þakka fyrir og aðra daga getum við þurft að leita aðeins meira og finna lítil atriði sem okkur myndi annars yfirsjást. 

Við í minni fjölskyldu tökum stundum hring við kvöldverðarborðið og tölum um það sem við erum þakklát fyrir þann daginn. Það er líka hægt að gera þetta við morgunverðarborðið og tala um tilhlökkunarefni dagsins. Og svo mætti líka taka stund þegar við erum komin upp í rúm, eða með börnunum okkar um leið og við bjóðum góða nótt. 

Þakklæti er eiginleiki sem við getum byrjað að rækta í okkur sjálfum hvar og hvenær sem er. Hvað hefur þú til að þakka fyrir hér og nú? 

Guðrún Arnalds - jógakennari, markþjálfi og leiðbeinandi í Fókusing - aðferð til að hlusta á líkamann og sína innri veröld

Andartak jóga- og heilsustöð

andartak@andartak.is

Guðrún Arnalds - Darshan

Guðrún Arnalds - Darshan

Guðrún Arnalds - Darshan starfar sem hómópati, lífsmarkþjálfi (life coach) og jógakennari og rekur jóga- og heilsustöðina Andartak.

www.andartak.is

Meira