c

Pistlar:

2. febrúar 2018 kl. 19:03

Hildur Jakobína Gísladóttir (hildurjakobina.blog.is)

Lífstíðar uppsögn vegna kynferðisofbeldis?

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að margar konur hafa upplifað kynferðislega áreitni og kynbundið ofbeldi á vinnustöðum. Menn eru þar án efa engin undantekning nema síður en svo  en hafa ekki enn komið fram með sínar sögur í kjölfar #metoo byltingu kvenna. Vonandi kemur þó að því.

Þeir sem verða fyrir slíku ofbeldi á vinnustað og má þar þá líka nefna einelti sem eitt form af ofbeldi á vinnustað, veigra sér við að tilkynna slíkt með formlegum hætti, m.a. af hræðslu við hvað bíður þeirra í kjölfarið. Það er í sjálfu sér alveg skiljanlegt þó svo að það sé ekki í lagi. „Stigmað“ í þjóðfélaginu hefur ýtt undir að fólk þorir ekki að koma fram. Af minni reynslu er það líka hræðsla við að ekki sé til nægjanleg kunnátta innan vinnustaðarins til að taka á slíkum málum. En það eru aðrir þættir sem hafa líka alvarlegar afleiðingar. Það er þegar einstaklingur segir upp t.d. vegna ósæmilegrar hegðunar yfirmanns síns. Sá hinn sami fær ekki meðmæli frá þeim aðila eðli málsins samkvæmt og er jafnvel í þeirri stöðu að vera upp á þann aðila komin varðandi meðmæli. Svo kemur að því að farið sé í ráðningarviðtal vegna annars starfs og þá koma þessar klassísku spurningar:

  • Af hverju hættir þú á síðasta vinnustað?
  • Af hverju er engin meðmælandi skráður á síðasta vinnustað?
  • Af herju varstu svona stutt á þessum vinnustað?

Nú vandast málið fyrir þolandann sem reynir að halda áfram sínu lífi eftir erfiða reynslu af vinnnumarkaðnum. Hvað á hann að segja í viðtalinu? Á hann að segja ég lenti í kynferðislegri áreitni af hálfu yfirmanns míns? Hvernig myndi það hljóma í atvinnuviðtali? Myndi það ekki koma honum illa? Sama á við um einelti. Hvað myndu þeir sem taka viðtölin segja við svari eins og „ Ég var lagður í einelti“? Hvaða skýringar getur viðkomandi gefið til að hljóma ekki eins og „ trouble maker“.  Hugsanlega eru þeir sem taka viðtölin að spá í að þetta sé eitthvað skrýtið og oft er því þá snúið upp á viðkomandi eins og hann sé óalandi og óferjandi í samskiptum.  Hann á sér enga vörn og upplifir að ofbeldið haldi áfram.

Flestir sem lenda í svona málum eru í viðkvæmri stöðu. Hins vegar eru margir útlendingar í enn meiri áhættuhópi varðandi brot í starfi. Þetta á sérstaklega við um margar konur af erlendum uppruna sem fá ekki fræðslu og þekkja ekki réttindi sín. Við þurfum því að efla þjónustu og fræðslu um réttindi og skyldur til fólks af erlendu bergi brotnu í því fjölmenningarsamfélagi sem Ísland er orðið.

Að auki þurfa ráðingarskrifstofur að bregðast við hvernig þeir ætla að nálgast þá sem hafa hrökklast úr vinnu vegna ofbeldis á vinnustað. #metoo er komið upp á yfirborðið og af því þurfum við að læra og þroskast.

 Hildur Jakobína Gísladóttir, sérfræðingur hjá Officium ráðgjöf ehf og forstöðumaður Vinnumálastofnunar á Suðurnesjum.

Hildur Jakobína Gísladóttir

Hildur Jakobína Gísladóttir

Vinnusálfræðingur og eigandi ráðgjafafyrirtækisins Officium ráðgjöf ehf. Hildur er með grunnmenntun í sálfræði, MBA gráðu frá Háskólanum í Reykjavík, stjórnendamarkþjálfi(Executive Coach) frá opna Háskolanum, Leadership Management International stjórnendaþjálfi og mastersgráðu í Vinnusálfræði frá London Metropolitan University,

Meira