c

Pistlar:

1. nóvember 2008 kl. 20:42

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Nú þarf ég að láta rigna upp í nefið á mér

Þann Einhverfa bráðvantaði liti í dag, svo ég gerði mér ferð inn í tvær verslanir Eymundssonar í Kringlunni. Langaði að nota tækifærið og sjá bókina mína í því umhverfi sem hún þarf að byrja í, til að komast í sitt rétta umhverfi, þ.e. inn á heimilin í landinu. 

Það má segja að þessi ferð hafi verið ágætis ''reality check'' fyrir mig. Í fyrri búðinni var bókin ekki einu sinni sjáanleg. Og ég hafði mig ekki í að spyrja um hana. Í seinni búðinni lágu nokkur eintök af ''Sá Einhverfi og við hin'' á borði, ásamt bókum frá því í fyrra. Nýjar bækur lágu á borði nær dyrunum og við dyrnar var heill gámur af nýjustu bók Arnalds Indriðasonar. Sennilega eina bókin sem ekki þarfnast auglýsingar. Og þó... sennilega þarfnast allir auglýsinga. Jafnvel Arnaldur.

En ég kom sjálfri mér á óvart þegar ég fann að það hálffauk í mig inni í fyrri búðinni. Í Fréttablaðinu í morgun er heilsíðu auglýsing með bókum frá Sögu útgáfu (m.a. bók Þráins Bertels, Óttars Norðfjörð og minni). Undir auglýsingunni stendur Eymundsson, bóksali frá 1872. Ég held þetta sé ókeypis auglýsing fyrir það ágæta fyrirtæki. Mér finnst lágmark að þeir skelli fram í búðina hjá sér, bókum sem eru auglýstar undir þeirra nafni.

Og ég var ekkert sérstaklega ánægð að sjá bókina innan um bækur frá því í fyrra. Samt sagði ég ekki neitt.

Ef ég hef haldið í einhver andartök að ég gæti gengið inn á ritvöllinn ásamt öllum hinum höfundunum og gert mér vonir um að selja slatta af eintökum af bókinni, án þess að vekja á mér einhverja sérstaka athygli... þá læknaðist ég af þeirri firru í dag.

Ég ákvað eftir dágóða umhugsun að kaupa eitt eintak. For luck. Sem betur fer var verðmiðinn límdur yfir andlitið á mér.. ekki mér sjálfri, heldur á bókarkápunni. Reyndar er líklega engin leið að þekkja mig af bókarkápunni en mér leið samt eitthvað undarlega með það að kaupa eigin bók. En ég sór þess eið á þessu andartaki að þetta mun ég geri hér eftir. Ég mun gefa út bók á hverju ári og fyrsta daginn sem hún kemur í búðir mun ég fara og festa kaup á einu stykki. Og hana nú!

Nú er um að gera að bera höfuðið hátt, láta rigna örlítið upp í nasaholurnar og... og.. já bara rífa svolítið kjaft. Ef ég hef ekki fulla trú á því sem ég er að gera, hver hefur það þá?

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira