c

Pistlar:

10. janúar 2009 kl. 21:59

Jóna Á. Gísladóttir (jonaa.blog.is)

Jól kannski seinna

Það var með þó nokkrum trega sem ég tók niður jólaskrautið í dag. Grenið á útidyrakransinum mínum var enn fallega grænt og ilmandi þegar það hafnaði í ruslinu.

Bretinn fór að ná í Þann Einhverfa til Fríðu Brussubínu og co seinni partinn í dag og það var með nokkrum asa sem stráksi þeytti hér upp útidyra- og forstofuhurðum. Ég sá á öllu hans látæði að hann var alls ekki búin að gleyma daufum og lítt sannfærandi kommentum mínum í vikunni um jólaskraut sem þyrfti að fara ofan í kassa.

Hann horfði brúnaþungur á blettinn þar sem jólatréið hafði staðið. Þar sáust nú aðeins gólfflísarnar og þó nokkuð magn af greni sem átti eftir að sópa upp.

Drengurinn skimaði í kringum sig. Skannaði stofuna. Virti fyrir sér kassana sem lágu á víð og dreif og biðu eftir að verða fylltir.

Svo leit hann út um gluggann og sá að hér á fjöllum uppi hafði snjó fest í garðinum.

''Snjór var farinn'', sagði hann svekktur.

Við urðum að viðurkenna það, að víst hefði snjórinn farið en því miður væri hann kominn aftur.

Það er sumar, sagði hann þá vongóður.

Ekki gátum við alveg tekið undir það þó að við fegin vildum.

Jól kannski seinna, tilkynnti hann. Og þar með var hann farinn upp í herbergið sitt.

Það fór lítið fyrir látunum og skömmunum sem ég hafði búist við, fyrir að voga mér að fjarlægja jólin af heimilinu.

En jú, jólin koma kannski seinna Ian.

Jóna Á. Gísladóttir

Jóna Á. Gísladóttir

 

 

 Ég er nokkuð dæmigerð íslensk útivinnandi kona. Hef lokið grunnnámi í markþjálfun og gengur betur að hjálpa öðrum við markmiðasetningu en sjálfri mér. Mér lætur líka betur að stjórna öðrum en sjálfri mér. 

 netfangið mitt er jonaagisla@gmail.com

 

 

 

Meira