c

Pistlar:

24. febrúar 2016 kl. 11:13

Kristín Linda (kristinlinda.blog.is)

Forvarnir gegn sálrænum sárum

Við og við stíga einstaklingar fram og segja frá því að þeir hafi orðið sterkari eftir erfiðleika. Að þeir séu nú reynslunni ríkari og öflugri eftir að hafa gengið í gegnum einhverskonar neikvæða upplifun, álag, áföll eða átök enda er sársauki sannarlega hluti af lífsgöngunni.

Því er óendanlega dýrmætt í hvert sinn sem einstaklingur nær að blómstra á ný eftir sársaukafulla upplifun. Nær að finna aftur öryggi, ró, sælu, gleði, bjartsýni og styrk í eigin sál eftir nagandi áhyggjur, ótta, reiði, skömm, fárviðri skerandi örvæntingar eða dýpsta pytt lamandi vonleysis og vanmáttarkenndar. Mannsandinn er magnaður og nær sem betur fer oft að rísa eins og fuglinn Fönix úr brunarústum vanrækslu, hunsunar, átaka, árása, áfalla, eineltis eða annarskonar andlegs álags eða ofbeldis. Það þýðir hinsvegar alls ekki að slíkar hörmungar séu ásættanlegar, ákjósanlegar eða til góðs.

Forvarnir

Horfumst í augu við að það er ekki til góðs að vera í óhollum, óheilbrigðum, mengandi, niðurníðandi, neikvæðum, meiðandi aðstæðum. Hvorki í sínu nánasta sambandi, á eigin heimili, á vinnustað eða í hópi. Sálræn sár eru sársaukafull og alvarleg og algjörlega nauðsynlegt að við höfum það viðhorf að okkur beri að víkja okkur undan þeim, verjast þeim og nýta forvarnir til að koma í veg fyrir þau. Alveg eins og við verjumst og víkjum okkur undan líkamlegum sárum þegar við notum pottaleppa til að taka á heitri plötu, öryggisbelti eða mannbrodda.

Brot eru ekki til bóta

Sársauki í sál er hluti af eðlilegu lífi og hann getur verið lærdómur og reynsla en það er ekki þar með sagt að það sé ásættanlegt, heilsusamlegt eða til bóta að dvelja í meiðandi aðstæðum, samskiptum eða samböndum. Þar sem brjótandi hegðun eins og til dæmis einelti, niðurlæging, fýlustjórnun eða annarskonar andlegt ofbeldi viðgengst. Betra er að verjast sálrænum sárum, leita sér hjálpar og komast í skjól. Þess vegna er mikilvægt að meta eigin stöðu og átta sig á að viðvarandi neikvæðar sársaukafullar aðstæður eru ekki neinum til góðs.

Tökum þátt í forvörnum gegn sálrænum sárum

Það er líka dýrmætt að við lítum til með fólkinu okkar og vekjum það til umhugsunar um stöðuna ef okkur finnst það búa við meiðandi aðstæður á einhverju sviði. Andlegt ofbeldi á aldrei að líðast. Sálræn sár eru alvarleg, ekki horfa í hina áttina, taktu afstöðu. Öxlum alltaf sérstaklega ábyrgð og stígum fram ef börn eiga í hlut. Hvort sem grunur leikur á einelti, vanrækslu, ofbeldi eða öðrum ólíðandi verknaði eða aðstæðum. Ef við líðum ekki niðurbrjótandi, óheilbrigða, meiðandi hegðum heldur snúumst gegn henni í verki eru það forvarnir gegn sálrænum sárum. Við getum öll verið á vaktinn, hafnað meiðandi hegðun og lagt góðmennskunni lið.

Kristín Linda

Kristín Linda

Kristín Linda er sálfræðingur og starfar sjálfstætt á eigin sálfræðistofu Huglind á Höfðabakka 9 í Reykjavík - www.huglind.is. Hún er einnig ritstjóri tímaritsins Húsfreyjunnar sem er gefið út af Kvenfélagasambandi Íslands. Kristínu Lindu finnst heillandi að hjálpa fólki að bæta líf sitt, líðan og heilsu og nýtir til þess sálfræðilega þekkingu sína, reynslu og jákvæða lífssýn.

Meira