c

Pistlar:

4. mars 2015 kl. 20:03

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Eitruð samskipti

Lífið er allt of dýrmætt til að við bjóðum okkur uppá það að vera í félagsskap við neikvætt og eyðileggjandi fólk. Ég fann á netinu lýsingu á þessum týpum sem við ættum að takmarka eins mikið og við getum umgengni við, og studdist við þá lýsingu að litlu leiti (crosswalk.com).

Það er nauðsynlegt að halda sig frá eftirfarandi einkennum í fari fólks ef við viljum halda geðheilsu okkar í lagi, ég tala nú ekki um í þessari veðráttu sem búin er að vera hér í vetur! :)pistill mynd

Kannski erum við líka pínulítið að sjá okkur sjálf í þessari upptalningu sem ég ætla að setja hér fyrir neðan, og ef svo er...tjaa...er þá ekki kominn tíl að sniðla sig til og líta á björtu hliðar lífsins once again?

En hér koma lýsingar á nokkrum týpum sem við ættum að halda okkur frá ef við mögulega getum það. 

Sá stjórnsami - :Þessi er snillingur í því að stjórna og stýra með takkaýtingum og poti. Hann vill stjórna öllum í kringum sig. Þessi fylgist með þér eins og hrægammur og bíður eftir því að finna hjá þér mistök eða galla. Það fer allt í gegnum smásjá hjá honum, allt niður í smæstu atriði. Hann á erfitt með að sleppa tökunum, þannig að hann þarf að setja þig í sínar helgreipar og neitar að sleppa. Líklega muntu kafna fyrir rest ef þú kemur þér ekki í burtu, því að þessi mun aldrei láta af stjórnun sinni.

Árásarmaðurinn- Þessi er mjög þurfandi karakter og hann tekur það út á þér og veröldinni í kringum sig. Í gegnum eigin reynslu og innra samtal varðandi sársauka fortíðarinnar, hefur hann orðið reiður, grimmur og andstyggilegur við þá sem hann segjist elska mest. Þessi þarf á hjálp að halda frá sérfræðingum. Farðu í burtu úr svona aðstæðum í öllum tilfellum- við eigum ekki að vera í kringum fólk sem meiðir okkur.  

Hinn uppstökki – Þú ert alltaf á nálum í kringum þennan aðila. Þú veist aldrei við hverju er að búast af honum. Þessi brestur í bræði og reiðiköst án fyrirvara og hann er oft mjög pirraður á allt og öllum í kringum sig. Yfirleitt eru falin sálræn vandamál sem takast þarf á við hjá þessum. Hann er gjarn á að kasta hlutum, sparka í hluti eða garga og kalla fólk ljótum nöfnum. Bræðiköst hans geta hrætt aðra, og hann lætur oft eins og tveggja ára börn láta. Algjörlega óásættanleg framkoma.


Sá meinfýsni - Þessi getur verið afar móðgandi og meiðandi í hegðun sinni. Markmið hans er að ná yfirhöndinni,að sigra. Tilgangur hans er alltaf að láta sjálfan sig líta vel út en fórnarlambið líta illa út. Hann hefur líka ákveðin einkenni hins stjórnsama. Hann notar særandi orð, hótar barsmíðum, hann lýgur og notar óttann sem sitt stjórntæki eða vopn. En aðalatriði hans er að ná öðrum undir sig til að upphefja sjálfan sig, og mun gera það sem gera þarf til að ná því takmarki sínu.

Fíkillinn– Þessi er háður fíkniefnum eða neikvæðum lífsmynstrum sem hafa mikil eyðileggjandi áhrif á hann sjálfan og alla þá sem í kringum hann eru. Hann þarfnast hjálpar frá fagaðilum! Hann þarf á fólki að halda inn í líf sitt sem talar sannleikann við hann, og hann þarf aðila sem næra ekki fíkn hans með nokkrum hætti.Mynstur hans er ekki með nokkrum hætti á ábyrgð þinni, eða að þú með einhverjum hætti hafir getað valdið ástandinu. Ef þú ert í samskiptum við einhvern í þessum sporum, hvettu hann þá til að leita sér hjálpar strax!


Sá neikvæði – Þessi hefur sjaldan eitthvað jákvætt að segja um lífið og tilveruna. Hann lítur á allt í gegnum neikvæðnisgleraugun, og er sko ekki í vandræðum með að segja þér afhverju það er þannig. Sólin gæti verið of heit, eða rigningin of mikil. Ríkisstjórnin ómöguleg, og ekki lifandi á þessu landi. Hann sér sjaldan það góða sem hann hefur í lífinu, og þakkar fyrir fátt. Þetta er ávani sem hann hefur vanið sig á, og kvart og kvein, ásamt áhyggjum yfir allt og öllu, er hans samskiptamunstur. Hann gerir sér ekki einu sinni grein fyrir því hvernig hann er að eitra umhverfi sitt með neikvæðninni, og því síður gerir hann sér grein fyrir afleiðingunum á hans eigið líf. Þetta er orkusuguan sem ber að forðast. Því að lífið er þannig að við getum alltaf valið að sjá það góða frekar en það illa, ef við bara leitum eftir því. 


Ásakandinn – Þessi kennir öllum um nema sjálfum sér. Það er allt þér að kenna eða þeim sem eru í umgengni við hann. Ef að dagurinn hans er eyðilagður er það þér að kenna, amk alls ekki honum sjálfum. Ef hann stendur ekki sína plikt, þá er það öðrum að kenna en honum sjálfum. Ef hann mætir of seint, týnir einhverju, fellur á prófi, eða hvað það nú er, þá er það allt öðrum að kenna. Það getur enginn lifað sigrandi lífi í kringum þennan aðila. Hans markmið er að setja þig á lágan stall í sínum eilífa ásökunarleik.


Slúðrarinn – Þessi er alltaf talandi, og venjulega er það um einhvern annan en hann sjálfan. Hann hefur mikla þörf fyrir að vita alla skapaða hluti, og að segja næsta manni frá því sem hann heyrir með krydduðu ívafi. Hann getur verið meiðandi í orðum, og mjög grimmur í hjarta sínu gagnvart tilfinningum annarra. Hann nærist á lygum, ýkjum, og hálfum sannleika. Honum líður best ef hann getur horft á galla náungans, því að með því móti þarf hann ekki að líta á sitt eigið líf og eigin tilfinningaflækjur. 


Sá hrokafulli – Þessi aðili er mjög stoltur, sjálfmiðaður og alltaf - alltaf hefur hann rétt fyrir sér! Hann vill ekki fá á sig stimpil heimskunnar, en er fljótur að setja þann stimpil á aðra. Hann sækir í þá sem eru veikari til að geta litið betur út við hliðina á þeim. Hann er mjög fljótur til að dæma aðra og bjóða uppá skoðun sína á mönnum og málefnum, og er oft ruddalegur við þá sem eru í lægri stöðum en hann sjálfur er í. Hans hlutverk í lífinu er að vera yfir allt og alla hafinn á allan hátt.


Fórnarlambið – Ekki ruglast á aðila sem virkilega hefur orðið fórnarlamb glæps eða erfiðrar lifsreynslu, og þess sem hefur það að lífsstíl að vera fórnarlömb allra aðstæðna. Hann hefur lært hjálparleysi að takmarki lífs síns. Þessum aðila finnst fólk vera að notfæra sér hann, hann er mjög þurfandi, sífellt að kvarta yfir því að aðrir séu ekki nógu góðir við hann, eða að öllum sé sama um hann. Hann sér sig sem fórnarlamb og ef þú hlustar á hann og sýnir samhygð, gætir þú orðið næsta manneskja sem kom ekki nógu vel fram við hann. Hann finnur alltaf eitthvað eða einhvern til að viðhalda fórnarlambshlutverki sínu. 

En hvað er til ráða?

Finndu eitrið í samskiptunum og ef að það er í þér sjálfum, leitaðu þér þá hjálpar við að laga það. Ef það er í öðrum, bentu þá á vandamálið og á möguleikann að kannski þurfi að leita aðstoðar við að leysa það.

En sýndu sjálfum þér og öðrum kærleika í úrvinnslunni. En kærleikurinn getur svo sannarlega stundum ,verið fólginn í því  að fara út úr skaðlegum aðstæðum eða að setja ákveðin mörk í samskiptum.

Og ef þú ert í aðstæðum sem eru skaðlegar, komdu þér alltaf í burtu frá þeim, ekki bíða eftir líkamlega ofbeldinu, því að það gæti orðið þér dýrkeypt!

Munum bara að kærleikurinn á ekki að meiða okkur, og að sterkasti áttaviti okkar í samskiptum er sá að vita, að hjarta okkar segir okkur alltaf satt.

Sársauki er aldrei eðlilegt ástand! 

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira