c

Pistlar:

26. febrúar 2024 kl. 15:43

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hvað fær okkur til að sýna ókurteisi á netinu?

"Kurteisi er samskiptaform sem auðveldar tjáskipti milli tveggja eða fleiri einstaklinga"

Þannig er orðið kurteisi útskýrt á Wikipedia. En orðið kurteisi er upphaflega notað um þá sem kunnu sig innan hirðar konungs og taldir voru hæfir til að umgangast tignarmenn vegna góðrar og fallegrar framkomu.

Í ljósi umræðunnar að undanförnu um kommentakerfin og ljótleikann sem finna má þar, finnst mér mál til komið að við tökum upp kennslu fyrir komandi kynslóðir hvað varðar virðingaverða framkomu og hvernig við högum orðum okkar á samfélagsmiðlum og í raun alls staðar.

Tengdasonur minn lærði afar fallega framkomu í uppeldi sínu sem fram fór bæði á Englandi og í Portúgal, og hann innleiddi hjá barnabarninu mínu ýmsa kurteisissiði þegar hann kom inn í fjölskylduna. Siði eins og þann að þar sem ég er elst í fjölskyldunni þá þjónar unglingurinn mér og tekur diskinn minn frá mér þegar ég er búin að borða í matarboðum, og hann sér um að mig vanti ekki vatn né neitt annað á meðan á máltíðinni stendur. Hann leggur á borð og tekur af borðum fyrir foreldra sína og sýnir fallega framkomu á flestan hátt. Hann kann einnig að halda rétt á hnífapörum sama hvort hann snæðir í koti eða höllinnocent.

Þessi ungi maður var t.d verðlaunaður þegar hann hætti í barnaskólanum fyrir það að hafa innleitt kurteisi á meðal félaga sinna þar. Á þessu má sjá hversu mikilvægt það er að við hugum að þessum málum, því að ef sú kurteisi sem hann sýndi í orðum og gjörðum er eitthvað sem er eftirtektarvert þá erum við ekki á góðum stað, þetta á að vera sjálfsögð þekking að mínu mati en ekki eftirtektarverð vegna þess hversu sjaldgæf hún er.

Í dag finnst mér einhvernvegin eins og við séum mörg hver búin að týna niður kunnáttu okkar í kurteisi gagnvart hvort öðru því miður. Ókurteisi leiðir alltaf til óeiningar og ófriðar og ekkert gott ávinnst með henni frekar en annarstaðar þar sem hatur og ljót framkoma ríkir. Í raun er ókurteisin bara smækkuð birtingamynd af þeirri óeiningu og hatri sem við sjáum í mun alvarlegri alþjóðamynd okkar í dag.
 
Merkilegt nokk er til hugtak um þessa ókurteisi sem við sýnum á samfélagsmiðlunum og nefnist það hugtak "hömlunaráhrif á netinu" eða "minnkun eða brotthvarf félagslegra takmarkana" Sem segir okkur að kannski annars ágætis menn eru að taka þátt í árásagjarnri hegðun á netinu þó að þeir hegði sér eins og lúpur dags daglega. 
 
L. Gordon Brewer, Jr., MEd, LMFT forseti og stofnandi Kingsport Counseling Associates segir "að þeir sem taki helst þátt í illgjörnum ummælum séu bara einstaklingar sem eru illgjarnir að eðlisfari og að þeir noti ljót orð einungis vegna þess að þeir vita að þau særa," segir Brewer. "Þessi hegðun stafar víst oft af óöryggi og einhvern veginn gerir illmælgin það að verkum að þessir aðilar finna sig öruggari í sjálfum sér segir hann einnig." (Hljómar eins og narsismi fyrir mér)
 
Eins segir Brewer að sá sem er svona opinskátt meiðandi á netinu finni líklega til óheilbrigðrar sælutilfinningar þegar hann "sigrar" og nær að særa fólk.
Eins finna þessir aðilar að hans sögn oft fyrir því að vera við stjórn og að hafa völd í stað vanmáttartilfinningu þeirri sem litar oft líf þeirra. 
 
Auðvitað getum við öll misst okkur annað slagið og orðið reið, en þessi ljótu orð sem við notum um persónur á miðlunum eru gengin allt of langt að mínu mati og eru til stór skammar þeim sem þau nota. 
 
Ég man að fyrir nokkrum árum vorum við öll að setja á fésbókina myndir af okkur þegar við vorum lítil, saklaus og brosandi framan í heiminn í okkar sparifötum og allt gott um það að segja. En ósköp væri nú gaman að sjá að við sem fullorðin erum færum aftur inn í sakleysi okkar og innri spariklæðnað og sýndum hvert öðru kurteisi, virðingu og hjartahlýju alla daga hér á samskiptamiðlunum og í lífinu sjálfu.
 
Það væri einnig dásamlegt ef við værum að vinna að okkar baráttumálum með virðingu fyrir þeim sem eru kannski ekki sammála okkur og hættum að níða niður einstaklinga og meiða þá með ljótum særandi orðum (skoðunum á persónu þeirra)og eða leita jafnvel að sök hjá heilu ættunum til að réttlæta innibyrgða reiði okkar og vonbrigði með þau málefni sem eru til umfjöllunar hverju sinni.
 
Lífið væri svo miklu auðveldara og fallegra ef við færum í málefnalega gagnrýni og umbótavinnu og settum krafta okkar í það í stað þess að eyða þeim í andstyggilegheitin. 
 
Áskorun til okkar allra: Förum nú inn á við og tékkum á því hvort að talsmáti okkar og framkoma hæfi þeim persónuleika sem við viljum vera, og sýnum síðan í orðum og gjörðum þá fyrirmynd sem við viljum vera fyrir börnin okkar og barnabörn. 
 
Hvaða framkomu viljum við annars kenna þeim og hvaða orð viljum við að þau segi um og við aðra?
 
 
Verum bara kurteis elskurnar, eðal og ekta allt árið en ekki bara á sunnudögum - við erum nefnilega svo gasalega flott þannig.
 
xoxo
Ykkar Linda
 
Linda Baldvinsdóttir 
Lífsþjálfi/samskiptaráðgjafi
 
linda@manngildi.is
 
 
 
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira