c

Pistlar:

29. janúar 2024 kl. 15:00

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Eru græn flögg í þínu sambandi?

Ég rakst á grein um daginn þar sem talað var um grænu flöggin sem við ættum að vera að leita að þegar við hittum nýtt tilvonandi viðhengi (maka) sem passa á inn í líf okkar og mér fannst þetta svolítið sniðugt sérstaklega í ljósi þess að ég hef skrifað þó nokkra pistla um rauðu flöggin  Sjá hér en ekki þau grænu þar til nú að ég ætla að bæta úr því.

Grænu flöggin eru semsagt þau atriði sem við ættum að leita að í fari tilvonandi viðhengis ef við viljum að sambandið eigi sér langa lífdaga og ef við erum heilshugar í makaleit okkar, því að þessi grænu flögg tengjast gjarnan góðum gildum sem eru djúpt grafin í undirmeðvitund viðkomandi.

"Lík börn leika best" er gamalt íslenskt máltæki sem líklega á sér rætur í þeirri hugmyndafræði að ef lífsgildi okkar fara illa saman þá verður leiðin heldur grýtt  og margar hindranir sem þarf að yfirstíga. Þó er ekkert endilega allt ómögulegt við það að aðilar séu ólíkir ef þeir bæta hvorn annan upp og þróast saman í sambandinu til góðs fyrir báða aðila.

Svo við ættum kannski ekki að gleyma okkur alveg í exelskjalinu og gömlum málsháttum heldur gefa rómantíkinni og öllum þeim góðu tilfinningum og boðefnum sem þar fá að blómstra sitt tækifæri. Það er nú einu sinni þannig að ef við erum ástfangin þá viljum við gjarnan gera breytingar í lífi okkar og færa ástinni fórnir af ýmsum toga, Tökum jafnvel upp venjur og siði sem okkur hefði líklega aldrei dottið til hugar að við yrðum ánægð með, þannig að þetta er eins og með dagatalið okkar -fyrir og eftir Krist -fyrir og eftir sambandið við.....

En hver eru svo þessi grænu flögg sem eru svo góð ef þau eru til staðar?

1 flagg. Samskipti eru góð og hafa gott flæði. Heiðarleiki og virk hlustun er til staðar ásamt því að þér finnist þú geta verið óheft/ur og frjáls og bara þú í þeim samskiptum. Að finna að þú getir tjáð tilfinningar þínar óhikað og að unnið sé sameiginlega í yfirvegun að því að lagfæra það sem uppá kemur er einnig sterkt grænt flagg. Eins og við vitum þá kemur alltaf upp ágreiningur jafnvel í bestu samböndunum og þá verður þessi nálgun mikilvægur þáttur í að leysa úr honum. 

2 flagg. Vinátta og traust er til staðar og að þú finnir að þú getur treyst aðilanum en efast ekki um orð hans og tilgang. Fullkomið traust byggist upp með tímanum þegar orð og gjörðir fara saman, en það er einnig fljótt að fara ef misbrestur verður á þessu tvennu.

3 flagg.  Virðing fyrir persónulegum mörkum, skoðunum og lífsviðhorfum hvors annars er til staðar ásamt virðingu fyrir persónueiginleikum hvors annars. Hæðni og virðingalaus framkoma eða orð gagnvart persónu þinni er aldrei í lagi. Þú getur farið í málefnið (hegðunina) en ekki manninn stendur einhverstaðar á góðum stað og það á við í nánum samskiptum jafnt sem annarstaðar.

4 flagg. Eitt mikilvægasta uppbyggingarefni sambanda er að vera til staðar í blíðu og stríðu, og það er sterkt grænt flagg ef samkennd og stuðningur er til staðar, því að ef að maki þinn peppar þig ekki upp og styður þegar vel eða illa gengur þá er klárt mál að sambandið er ekki á góðum stað.

Hinsvegar það að fá einlæga umhyggju, stuðning og hvatningu frá hugsanlegum maka segir mér að hann sé vel þess virði að halda í og ekki skemmir ef hann er fús til að bora í veggi, negla nagla eða fara út með ruslið (þetta er mjög mikilvægur punktur fyrir mig persónulega)😊

5 flagg. Lífsmarkmið eru sameiginleg, áhugamál og væntingar til lífsins einnig þó að auðvitað þurfi aðilarnir að eiga eitthvað áhugamál eða tíma útaf fyrir sig. Að stunda sameiginlegt áhugamál og vinna að markmiðum til framtíðar eflir nánd og tengsl og hvað er betra en það?

6 flagg. Það er auðvelt fyrir ykkur að finna málamiðlanir og segja fyrirgefðu þegar það á við, því að það er óhjákvæmilegt að komast hjá því að eitthvað komi uppá í samböndum þar sem tveir aðilar koma saman úr ólíkum áttum. Ef ágreiningur verður að rifrildi og eða litast af togstreitu þá erum við farin að tala um einhvern allt annan lit en grænan, og ættum að hugsa okkur vel um áður en lengra verður haldið með sambandið.

Græni liturinn er ágætis áttaviti fyrir okkur og hann er mjög mikilvægur þegar byggja á upp gott langlíft samband, en það er annar þáttur segir okkur kannski meira um möguleika sambandsins en allt annað þegar til lengri tíma er litið, en það eru lífsgildin okkar.

Hvað eru svo lífsgildi?

Í fyrsta lagi þá erum við að tala um svokölluð grunngildi, eða gildi eins og siðferði, trú og leiðir sem viðkomandi vill fara í lífinu (Heimsmyndin), eða með öðrum orðum þá erum við að tala um lífsstílinn sem við viljum hafa í lífi okkar og er rituð í grunnmyndina sem við búum okkur til af lífinu þegar það er orðið fullkomið (Trúarkerfi).

Þegar lífsgildin fara saman í parasambandi þá myndast ákveðinn sameiginlegur skilningur, samkennd og vinátta, og þau atriði ásamt trausti og vellíðan mynda það öryggi sem við leitum víst flest að.

Lífsgildi okkar má finna í viðhorfi okkar til allra þátta lífsins, og er mikilvægt að huga að því hvernig þau viðhorf okkar fara saman þegar við ætlum okkur í samband sem á að endast.

Hvernig við hugsum um fjármál og eignir, andleg málefni og líkamleg, heilsutengd efni og viðhorf til vímugjafanotkun eru t.d nokkur af þeim sem líta ber á, ásamt mörgum öðrum og fer allt eftir því hvaða lífsgildi skipta þig máli.

Ekki síst ættum við nú samt að skoða hvernig gildi við höfum þegar kemur að fjölskylduböndum. Viljum við vera í góðu sambandi við vini og fjölskyldu, viljum við bæði eignast börn og verða foreldrar og ef svo höfum við þá svipuð viðhorf til uppeldis barnanna?  Að hafa svipaða sýn hvað þetta varðar forðar okkur frá spennu í sambandinu og einmannakenndinni sem fólk talar um að fylgi þegar togstreitan verður til þess aðilarnir fjarlægast hvorn annan.

Að lokum þá er gott að vita afstöðu aðilanna til persónufrelsis í sambandinu og eins hvort að þeir séu tilbúnir til að styðja við atriði eins og menntun, trúarskoðanir og sjálfseflingu af ýmsum toga hjá báðum aðilum sambandsins.

Ef lífsgildin smella saman og atriði eins og slatti af kærleika, vináttu, daðri og ástríðu eru þar einnig til staðar, þá held ég að það sé komið grænt ljós á sambandsumleitanirnar, ég tala nú ekki um ef aðilinn uppyllir atriði exelskjalsins(grænu flöggin) og ef hann hefur til að bera sjarma og húmor – það er nefnilega svo gott að geta hlegið saman.

Að endingu þá má kannski segja að máltækið "Allt er vænt sem vel er grænt" eigi ágætlega við í þessum efnum og saman má byggja upp frá grænum flöggum og lífsgildum heimsmynd sem fegrar lífið og gefur því hamingju sína.

Eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu elskurnar ef að þið þurfið á lífsþjálfun eða samskiptaráðgjöf að halda í þessum málum sem og öðrum.

Þar til næst elskurnar

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir Lífsþjálfi, samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira