c

Pistlar:

28. maí 2015 kl. 23:54

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Speki Bangsimons

BangsimonBangsimon og hans vinir eru ótrúleg uppspretta visku. Visku sem er samt svo afar einföld í sjálfri sér.

Kærleikurinn streymir fram í einföldum setningum sem þó gefa svo mikið. Hér í lokin fylgir listi af setningum Bangsimon og félaga hans sem ég þýddi af netinu.

Bara ef lífið gæti verið svona einfalt og fallegt eins og í ævintýrunum :)

Og kannski væri það þannig ef við leyfðum okkur að skoða það frá því sjónarhorni. Ef við gætum hugsað okkur að sleppa öllum merkimiðum á fólk og aðstæður lífsins.

Ef allt sem við upplifðum og fengjum til úrlausnar væri liður í að fullmóta hina stóru mynd eilífðarinnar og ef við tryðum því að allt samverkaði okkur hvort sem er til góðs á endanum, held ég að við ættum að geta sleppt merkingunum auðveldlega.

Ef við gætum svo bara óskað öllum góðs í öllum aðstæðum þar að auki, reydnum síðan jafnvel að sjá að allir sem snert hafa líf okkar með góðum eða slæmum hætti höfðu og hafa hlutverki að gegna í að búa til okkar fullkomnu fallegu heildarmynd væri lífið svo miklu léttara og táradalirnir sem við færum í gegnum mun færri.

Yndisleg tilhugsun að ná þessum stað. Ekki vænti ég þess að það sé auðvelt, þekki sjálfa mig að minnsta kosti það vel að ég veit að það er það ekki þannig fyrir mig. En held samt að það sé þess virði að gera tilraun með þetta. 

Brostnar vonir, biturleiki og hatur yrðu líklega á bak og burtu í lífum okkar ef við næðum þessu, jákvæðnin og kærleikurinn streymdi líklega frekar frá okkur í allar áttir og jákvæðnin væri yfirflæðandi með tilheyrandi boðefnaframleiðslu sem gerir öll þunglyndis og kvíðalyf ónauðsynleg.

Ég velti því líka fyrir mér hvernig heimurinn allur væri öðruvísi ef við gætum litið á lífið í gegnum þessi gleraugu.

Væru styrjaldir og valdagræðgi enn til staðar?  væri ill meðferð enn til staðar á samferðafólki okkar? Væri til hungur, fíknir, fangelsi, gerendur,fórnarlömb?

Leyfum okkur að velta þessu aðeins fyrir okkur...

Mín skoðun er sú að ekkert af þessu væri til.

Ég trúi því hins vegar að það yrði loksins til paradís á jörðu og að allir yrðu sáttir og glaðir eins og í ævintýrunum.

Kannski er þetta barnalegt viðhorf hjá mér og rökhyggjuleysið algjört, en ég trúi því samt af einlægni hjarta míns að þetta gæti verið með þessum hætti, og dæmi mig svo hver sem vill. 

Held að það gerði okkur ekkert annað en gott að taka stundum þessi ævintýri og sakleysið sem þar finnst okkur til fyrirmyndar.

Skoðum aðeins lífsspeki Bangsimons og félaga hans aðeins hér í lokin :)

1. Grislingur: "Hvernig stafar þú ást"? Bangsimon: "Þú stafar hana ekki, þú finnur hana".

2. "Þú ert hugrakkari en þú heldur. Sterkari en þú lítur út fyrir að vera, og gáfaðari en þú heldur".

3."Þau atriði sem gera mig öðruvísi eru þau atriði sem gera mig að mér"

4. "Ef að persónan sem þú ert að tala við virðist ekki vera að hlusta sýndu þá þolinmæði. Það gæti einfaldlega verið að hún væri með kusk í eyranu"

5. "Ef sá dagur kemur einhverntíman að við getum ekki verið saman, haltu mér þá samt í hjarta þínu, og ég mun dvelja þar um eilífð"

6. "Um leið og ég sá þig vissi ég að ég væri að fara að upplifa ævintýri"!

7 "Stundum eru það litlu atriðin sem taka mesta rýmið í hjartanu"

8. "Sumu fólki þykir of vænt um aðra. Ég held að það kallist ást"

9."Árnar vita þetta: Það liggur ekkert á, við náum þangað einn daginn"

10."Ef þú lifir í hundrað ár vil ég lifa í hundrað ár mínus einn dag, svo að ég þurfi aldrei að lifa án þín"

11. "Illgresin eru líka blóm, þegar þú ferð að skoða þau"

12. "Ég held að okkur dreymi svo að við þurfum ekki að vera aðskilin mjög lengi. Ef við erum í draumum hvors annars getum við verið saman öllum stundum"

13. "Þú getur ekki staðið úti í horni í skóginum og beðið eftir því að aðrir nálgist þig. Stundum þarft þú líka að fara til þeirra".

14. Lofaðu mér því að gleyma mér aldrei, því að ef ég héldi að þú gleymdir mér færi ég aldrei í burtu"

15. "Smá tillitsemi, smá umhugsun um aðra, breytir öllu".

16. "Dagur án vinar er eins og pottur sem inniheldur ekki dropa af hunangi"

17. "Ástin kallar á að þú takir nokkur skref til baka, jafnvel mörg. Til að rýma fyrir veg hamingjunnar fyrir þá persónu sem þú elskar"

18. "Dagur sem ég ver með þér er minn uppáhaldsdagur. Þannig að í dag er minn uppáhaldsdagur.

19. "Hversu heppinn er ég að eiga eitthvað sem gerir það svo erfitt að kveðja og segja bless"

Með þessum orðum A.A.Milner segi ég bless í bili, bið ykkur blessunar og glimmerstunda alla daga lífs ykkar. Þakka öllum sem hafa snert við lífi mínu á góðan og slæman hátt, þið eruð dýrmæt í samhengi stóru myndarinnar minnar.

Þar til næst

xoxo

Ykkar Linda

 

 
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira