c

Pistlar:

23. febrúar 2016 kl. 0:43

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: 3 atriði sem fá sambönd til að virka

hús sambandsSambandshús Gottmans er algjörlega brilliant tæki til að meta ástarsambönd útfrá strax í byrjun þeirra.

Þær þrjár stoðir sem allt húsið byggist á segir afar mikið til um það hvernig til tekst að búa til samband sem endist ævina á enda. 

Fyrsta atriði hússins er grunnurinn sem er vináttan:

Eruð þið vinir? getið þið talað við hvort annað endalaust? skiljið þið hvort annað? eigið þið til samhygð og velvild til hvors annars eða eruð þið í sífelldri togstreitu þar sem annað ykkar þarf að standa uppi sem sigurvegari en hinn að tapa? Hlustið þið á hvort annað eða upplifið þið eins og annar eða báðir aðilar séu ekki tilbúnir til að hlusta og taka eftir því sem sagt er? rífist þið mikið eða talið þið saman í virðingu og umhyggju fyrir skoðunum og lífsgildum hvors annars?

Vináttan skiptir afar miklu máli og þegar hún er ekki til staðar þá er enginn grunnur fyrir einhverju meiru. 

Næst kemur útveggurinn sem táknar traustið:

Er erfitt að treysta makanum í sambandinu?, Er sannleikurinn ekki uppi á borðum, er verið að fela hluti?  fara á bak við þig varðandi ýmsa hluti eins og viðveru á einkamálum eða samfélagsmiðlum, eru samskipti við hitt kynið falin, er verið að laumast við drykkju eða aðra neyslu? er erfitt að fá aðilann til að tala um fyrra líf sitt og eru mörg leyndarmál í kringum hann? Inni í sambandi þar sem þetta er raunin er erfitt að skapa traust og nánd. Og þegar nándin er ekki til staðar þá dafna ekki tilfinningar ástarinnar og óöryggi og tortryggni taka völdin þess í stað. Báðum aðilum líður illa í þannig umhverfi og öll atlot og kynlífsathafnir verða fjarlægari og nándarminni ef þau eru til staðar á annað borð. Samskiptin verða yfirleitt afar skökk inni í sambandi sem byggt er upp með þessum hætti og ætti enginn að vera að gefa líf sitt inn í samband þar sem ekki ríkir traust og heiðarleiki.

Þriðja atriðið útveggur skuldbindindingar: 

Er tilvonandi eða núverandi maki þinn að fullu skuldbundinn þér eða dregur hann lappirnar þar? Er þér hótað að hann fari í hvert sinn sem eitthvað gengur ekki eins og hann vill að það gangi? Að hóta skilnaði í tíma og ótíma er ekki í boði í heilbrigðum samböndum þar sem skuldbindingin er innsigluð.

Eða líður þér eins og þú getir verið algjörlega örugg í sambandi ykkar og að ekkert í veröldinni geti komið upp á milli ykkar og orðið til þess að þið farið í sundur? Þannig ætti þér að líða inni í sambandi þar sem skuldbindingin ríkir og þar skapast svo sannarlega rými fyrir plön ykkar varðandi framtíðina.

Því að þak hússins hjá Gottman er einmitt framtíðarsýnin sem ekki er hægt að byggja upp ef grunnstoðir sambandsins eru ekki í lagi.

Svo metum vel þessa húsbyggingu og gerum kröfu til þess að þessi bygging sé traust og haldi í öllum veðrum og skjálftum sem inn í líf okkar gætu komið. Ef hún stenst ekki gæðavottun okkar þá þarf ýmist að bæta hana eða finna sér annan grunn til að byggja nýja byggingu á.

Gerum amk sömu kröfu til þessarar byggingar og við mundum gera til húss sem við værum að smíða til að búa í næstu árin eða áratugina...Og þegar rétta húsið er tilbúið þá fegrum við það með öllum litlu smáatriðunum sem gera ástarhreiðrið okkar fallegt og hlýlegt.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira