c

Pistlar:

2. maí 2016 kl. 15:01

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Minningar

minningarÞað er með einhverjum hætti þannig að þegar maður eldist fara minningar og myndir að skipta meira máli en margt annað. (Tek það fram að ég er samt bara á miðjum aldri og finnst ég ekki vera deginum eldri en 25)

Fjölskylda mín og vinir eru dugleg að segja mér að ég sé myndaóð og setji allt of margar myndir inn á fésbókina og á fleiri staði, en ég brosi bara út í annað og segi fátt, held mínu striki og myndirnar hrannast upp.

Málið er að ég hef upplifað á erfiðum köflum í lífi mínu að gleyma hinum og þessum minningum sem mér þykir afar sárt að hafa misst af harða diskinum mínum en þá koma myndirnar sér svo sannarlega vel.

Um daginn var ég að leita að ákveðinni mynd á fésbókinni og varð hugsað til þess á meðan ég fletti niður myndasíðuna mína að á dauðastund hefur fólk talað um að líf þess renni framhjá á örskotsstundu og þarna fannst mér ég skilja hvað átt er við þar.

Þarna leiftruðu fyrir framan mig gamlar og góðar minningar frá misgáfuðum stundum lífsins. Þarna var einnig misjafnlega innrætt og fallegt fólk sem allt hafði þó á einum eða öðrum tímapunkti snert við lífi mínu og mótað það með mér.

Allir sem inn í mitt líf hafa komið hafa kennt mér lexíur sem ég hef þurft að læra og allt hefur á endanum samverkað mér til góðs, þannig að þegar ég horfi eftir stíg minninganna get þakkað þeim hverjum og einum fyrir að hafa ofið með mér manneskjuna mig. 

Þegar ég get þakkað fyrir hvern og einn sem snert hefur við lífi mínu kemst ég frá því að festast í neti reiði, biturleika og óuppgerðra tilfinninga sem ekkert gott gera mér, Hinsvegar gerir það mér gott að hugsa til þess að allir séu settir í minn veg með góðan tilgang fyrir líf mitt þegar heildarmynd jarðvistar minnar verður skoðuð á efsta degi. 

En aftur að þessum blessuðu minningum og myndum...

Ég gat semsagt ekki annað en hlegið þegar ég skoðaði þessar blessuðu myndir á fésbókinni. Þarna voru misgáfaðar minningar festar á filmu og jafnvel gamlir kærastar og allskonar vinir sem höfðu gegnt miklu hlutverki í mínu lífi á einum eða öðrum tímapunkti spruttu þarna fram og kveiktu á hinum ýmsu tilfinningum hjá mér. Sumar tilfinningarnar voru afar ánægjulegar á meðan aðrar voru tengdar söknuði eða jafnvel sorg. En allar höfðu þær haft tilgang í að móta mitt líf og mig sem karakter.

Ég uppgötvaði á þessari myndaflettinga stundu að líklega er ekkert dýrmætara til en gamlar myndir og minningarnar sem þeim tengjast. Er afar þakklátt stelpuskott fyrir það að vera haldin þessu myndaæði og ætla að halda ótrauð áfram við myndasmíðina.

Og hver veit nema að mínir afkomendur hafi bara gaman af því að skoða lífsveg minn í framtíðinni :)

Ég hvet okkur öll til að varðveita minningarnar okkar og þakka fyrir þær hverja og eina, og þökkum einnig fyrir það fólk sem tengdist okkur böndum á einum eða öðrum tímapunkti í lífum okkar.

Gleðjumst bara yfir þeim góðu og slæmu lexíum sem gerðu okkur svona gasalega frábær, einstök og full af visku og þekkingu, en biðjum þeim blessunar sem við getum ekki enn sætt okkur við að hafi sært okkur eða gefið okkur bitrar lexíur.

Við breytum víst ekki neinu í fortíðinni því miður, en við getum svo sannarlega skapað okkur framtíð þar sem fortíðin er skilin eftir alein, gleymd og eða í fullri sátt, þar sem hún skemmir ekki flottu drauma framtíðarbygginguna okkar og við getum lifað happily ever after svona næstum því kannski :)

Knús í ykkar hús elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira