c

Pistlar:

11. maí 2016 kl. 15:21

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Afhverju var Jón Gnarr með varalitinn?

988498_10201500590062621_408457994_nÍ viðtalinu „Hryðjuverkamaður í karlaveldinu“ sem birtist í tímaritinu "Byltíngur" tímariti heimspekinema við Háskóla Íslands, talar Jón Gnarr um upplifun sína af því að vera karlmaður með mjög „kvenlægan heila,“ og á vissan hátt „kelling í karlmannslíkama“.

Mér fannst þetta viðtal afar áhugavert, hugleiddi það um stund og ákvað að það ætti kannski vel heima hér í pistlunum mínum, þó að þetta séu ekki mínar eigin hugleiðingar þá fékk ég í raun nýja sýn á Jón Gnarr verð ég að segja, þannig að ég fór af stað og fékk góðfúslegt leyfi til að taka valda kafla úr viðtalinu til að birta. Ekki er nóg með að Jón Gnarr sé í liði með okkur konum í okkar endalausu baráttu við karlaveldið og æskudýrkun þjóðfélagsins heldur telur hann einnig að góð samskipti séu það sem mestu máli skiptir í dag, og ein af hans uppáhaldsmanneskjum er sjálf Oprah Winfrey sem er einnig í miklum metum hjá mér.

En snúum okkur að viðtalsbrotunum (ekki kannski alltaf það orðaleg sem ég nota hér í mínu bloggi, en svona erum við misjöfn):)

 

„Ég lít út eins og þeir,“ segir Jón. „Ég er með typpi eins og þeir og ég labba frjálst á meðal þeirra. Ég get smeygt mér inn á milli þeirra, því ég er einn af þeim. Og þeir kinka kolli, eins og dyraverðirnir, skilurðu? Og afþví að ég hef karlmannsrödd, þá hlusta þeir þegar ég tala, sem þeir myndu ekki gera ef ég væri kona. Svo fer ég og kem mér fyrir einhvers staðar á stað sem þeim finnst merkilegur og ég afhelga hann. Ég nota sjálfan mig sem persónugerving karlmennsku, eða hins karllæga valds, sem mér finnst ofsalega gaman. Georg Bjarnfreðarson er persónugervingur karlægs valds og ég „ridiculea“ það. Maður gerir það aldrei betur en með því að kvengera það, því að niðurlægingin getur ekki orðið meiri. Þú getur verið vitlaus og þú getur ekki vitað hluti og svona, sem mér finnst ógeðslega gaman. Ég sit sem borgarstjóri í Reykjavík og ef ég er spurður að einhverju og ég veit það ekki, viðurkenni ég það. Það er ekki bara ég, einstaklingurinn, sem er að viðurkenna það. Ég er fulltrúi karlaveldisins. Það fer ekki eins í taugarnar á konum. Konum finnst það bara sætt, eða flestum konum finnst þetta bara krúttlegt, að sjá menn viðurkenna að þeir skilji ekki allt og viti ekki allt. Þær eru bara vanari hinu. En þeir sem munu hrökkva við eru „hinir“, skilurðu? „Hvernig getur þetta gerst? Hverju breytir þetta fyrir mig? Hættir fólk nú að taka mark á mér?“ og alls konar svona. En þegar þú tekur það síðan upp að klæða þig í kvenmannsföt og „actually“ verða, líkamnast sem kona, þá fullkomnar þú niðurlæginguna.“ Þannig lýsir Jón ástæðum þess að hann mætti oft varalitaður á borgarstjórnarfundi, stundum naglalakkaður líka, þegar hann var borgarstjóri, en útskýrir síðan að persónulegri ástæður hafi einnig búið þar að baki.

„Og þetta er líka svolítið tengt mér, svona persónulega, afþví að mamma mín dó bara rétt eftir að ég varð borgarstjóri,“ segir Jón. „Hún dó bara á jólunum, fyrstu jólunum. Og það sem ég vildi fá eftir mömmu mína var öskubakkinn hennar og varaliturinn hennar. Þannig að ég hafði engan tíma til að, þú veist, einhvern veginn sygrja mömmu mína, nema bara „on the side“ á meðan maður var að búa til fjárhagsáætlun eða mæta á einhverja leiðinlega fundi með einhverjum íþróttafélögum eða láta eitthvað fólk öskra á sig. Þannig að ég syrgði mömmu bara, eða tók bara „mómentin“ mín inni á klósetti eða bara lítið breik heima áður en ég fór að sofa. Ég bara tók þetta út í smá skömmtum. Ég fann líka fyrir því að það voru ákveðin öfl sem vildu nota þetta gegn mér.” Jón útskýrir að ákveðnir aðilar úr hópi andstæðinga hans hafi ætlað sér að nýta tækifærið til að brjóta hann niður kerfisbundið. „Og á tímabili þá notaði ég varalitinn hennar mömmu,“ segir Jón. „Ég mætti á fundi, sem sagt, með íþróttafélögum og svona. Líka til að mótmæla að þið eruð að taka frá mér að fá að syrgja mömmu mína. Þannig að ég var að „reagera“ gegn því.“

Jón segir samfélagið þjakað af karllægum hugsunarhætti. Konur og allt sem samfélagið tengir því kvenlæga er vanvirt. „Þegar kona talar á fundi,“ segir Jón, „dettur hlustun niður um 50-60%.“ Jón tekur tískuna sem dæmi. Afþví að hún er kvenlæg er tískan álitin ómerkileg, en í raun og veru er tískan merkileg og getur jafnvel bjargað mannslífum. Máli sínu til stuðnings vitnar Jón í sögu úr dagbók bresks hermanns frá því í seinni heimsstyrjöldinni. „Það varð misskilningur og það kom flutningabíll með varaliti í staðinn fyrir mat,“ segir Jón. „Þetta er úr dagbók hermanns, bresks hermanns, sem var þarna. Fyrstu viðbrögð voru vonbrigði hermannanna að sjá að það hefðu orðið einhver mistök. En viðbrögð fanganna, sérstaklega kvenfanganna, voru gleði, og þær hlupu til og náðu í varalit. Varalitur var ekki bara, sem sagt, eitthvað til að punta sig. Konurnar blóðguðu sig og báru á varirnar til að sýna að þær væru hraustar og gætu unnið og færu ekki í gasklefann. Skilurðu? Það gefur varalit allt í einu nýja, merkilega merkingu. Þær nudduðu blóði á varirnar, þannig að: „Sko, ég er hraust, það þarf enginn að drepa mig.“ Hann lýsir þessu fallega, hvernig þær öðlast mennskuna sína aftur í gegnum þá.“

Já tískan getur greinilega stundum bjargað mannslífum og svo sannarlega veit ég að við finnum oft mennskuna okkar í gegnum hana og speglum oft þá persónueiginleika með tískunni sem við viljum svo gjarnan að fólk sjái að við höfum til að bera. Mér leið eins og að við konur ættum kannski okkar dyggasta bandamann í Jóni Gnarr þegar ég las þessi orð hans hér á undan.

En aftur að viðtalinu og tali um tísku og Oprah Winfrey:

Jón segir samfélagið eiga í einkennilegu sambandi við tískuna: „Við lítum niður á það sem er kvenlegt. Svo skömmust við okkur fyrir það. Þannig að við snobbum fyrir því í staðinn. Sérstaklega ef það hefur náð að „establishera“ sig og það er líka ekki alveg alslæmt. Það er líka hluti af einhverju svona heilunarferli.” Sjálfur segist Jón bera mikla virðingu fyrir tískunni og gengur svo langt að segja að tískan hafi „breytt sér“. Hann heldur mikið upp á fatahönnuðinum Vivienne Westwood sem honum finnst „meiri pönkari heldur en John Lyndon og söngvararnir í Sex Pistols.“ Jóns Gnarr segir að draumakvöldverðurinn sinn væri með Vivienne Westwood og Oprah Winfrey, sem er sú manneskja sem hann langar mest að hitta af öllum. „Ég held að ég myndi næstum því fara að grenja, ég yrði svo stoltur,“ segir Jón. „Því að Oprah Winfrey er kona í landi sem er andsnúið konum, svört í landi sem er andsnúið svörtum, feit í landi sem fyrirlítur feitt fólk og hún er samt sú sem hún er. Hún fer í gegnum allt sitt. Hún fer í gegnum fátækt, ofbeldi og mismunun, en hún kemst heil í gegnum það. Mér finnst það bara stórkostlegt. Þannig að ég ber mikla virðingu fyrir henni og ég myndi til dæmis vilja að hún yrði forseti Bandaríkjanna,“ segir hann. Honum finnst það virðingarleysi sem Oprah Winfrey er stundum sýnt gott dæmi um kvenfyrirlitningu samfélagsins."

Að lokum ætla ég að enda þessi innihaldsríku viðtalsbrot með orðum Jóns Gnarr varðandi samskipti og mikilvægi þeirra:

"Að vera sterkur skiptir ekki eins miklu máli lengur. Nú skiptir meira máli að vera klár og það sem skiptir mestu er að vera klár í samskiptum. Það er það sem konur hafa svo gjarnan fram yfir menn.“

Þarna get ég ekki verið meira sammála Jóni Gnarr,  klárlega eru samskipti það sem mestu máli skipta í því alþjóðlega umhverfi og fjölmenningasamfélagi sem við búum við í dag. Við þurfum að kunna að mæta öllum á jafningjagrunni án fordóma og hverskonar fyrirdæminga. Náungakærleikurinn líklega sjaldan eins mikilvægur og einmitt í dag.

Knús í ykkar hús með von um að þið hafið haft gaman af því að kynnast Jóni Gnarr á örlítið annan hátt en áður, eða kannski er það bara ég sem var að því :)

xoxo

Ykkar Linda

 (Viðtalið „Hryðjuverkamaður í karlaveldinu” í heild má lesa hér: https://issuu.com/byltingur

 Ps.Myndinni hér að ofan nappaði ég af facebooksíðu Jóns.

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira