c

Pistlar:

9. september 2016 kl. 10:42

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hugleiðingar Lindu: Ertu góður vinur?

14285710_10209654113322161_812571498_oÉg hef verið að hugsa um vináttuna að undanförnu og þá kannski mest um það hvort að ég sé góður vinur vina minna og minn eigin besti vinur.

Ég veit að ég get svo sannarlega bætt mig á mörgum sviðum þar þó að ég sé miklu betri með það í dag en nokkru sinni áður.

En væri þér að líka vel við vináttu manneskju sem væri algjör eftirlíking af þér?

Ef að þessi klónun af þér væri í lífi þínu væri hún þá góður vinur? Væri hún góðhjörtuð, gjafmild og ástrík? Gæfi hún sér tíma og þolinmæði til að fjárfesta í vinskap ykkar? Liði þér vel í návist hennar? Kæmi hún þér til að hlæja? Hefðir þú áhuga á því að verja tíma með henni? Hefði hún góð áhrif á þig? Væri hún traust? Er hún til staðar á góðum tímum og slæmum? 

Þetta eru atriði sem ég hef í huga þegar ég hugsa um það hvort að vinir mínir séu góðir vinir og eins hvort að ég sé nógu góður vinur fyrir þá. Ég er búin að gera mér grein fyrir því fyrir löngu síðan að það er fátt sem er dýrmætara en það að eiga góða og fallega innréttaða vini og það er töluverð vinna að halda þannig vinskap við ef hann á að endast um aldur og ævi.

En svo er kannski aðal spurningin þessi: Er ég minn eigin besti vinur, eða fell ég kannski illilega á því prófi?

Þegar að ég er minn besti vinur þá felur það í sér ýmislegt sem ég a.m.k. þyrfti að skoða betur hjá mér og ég reikna með því að þannig sé það með okkur mörg.

En til að byrja með er það alveg klárt að ef ég er minn besti vinur þá leyfi ekki ljóta og skaðandi framkomu við mig, ég leyfi ekki misnotkun á mér með nokkrum hætti og enginn fær að meiða mig.

Ég misbýð ekki gildum mínum og ég set mörk fyrir mig sjálfa og þá sem ég umgengst.

Ég geng fram í því að vera sem mest ég sjálf sama hvort að öðrum líki það eða ekki.

Ég nýt þess að vera til, og geri það sem gleður anda minn og sál. Í mínu tilviki væri það að annast fjölskylduna mína og gleðjast með henni, borða góðan mat og drekka góð vín í góðra vina hópi, fræða mig með lestri og áhorfi á fyrirlestra af ýmsum toga. Skrifa pistla eins og þennan og svo leyfi ég mér stundum að syngja undir stýri og dansa heima bara ef mig langar til þess.

Ég hugsa vel um mig andlega og líkamlega, ég hugleiði og bið, vel mér að dvelja í jákvæðni og vel vandlega þær hugsanir sem skapa mér vonarríka og bjarta framtíð. Ég á heima í nútíðinni en ekki í fortíð og framtíð og ég vel mér fæðu og hreyfingu sem nærir mig fallega. (þarf klárlega að bæta mig með þetta síðast talda)

Ég vel mér líka vini sem styrkja mig hvetja og standa mér við hlið í gleði og sorg.

Ég klappa mér á öxlina þegar vel gengur en strýk mér um vanga og segi að það gangi bara betur næst þegar mér gengur ekki svo vel eða þegar lífið bregst mér.

Ég leyfi mér að elska og að vera elskuð, leyfi mér að dvelja í viðkvæmni og stíg óstyrkum skrefum inn í óöryggið þar sem draumarnir mínir dvelja og sæki þá þangað.

Ég segi mér að ég eigi allt það góða skilið og að mér séu allir vegir færir.

Ég segi mér að ég sé nógu góð fyrir þennan heim á allan hátt, jafnvel líka fyrir Guð almáttugan og ég geri mitt besta til að sýna það kærleikseðli sem ég veit að býr innra með okkur öllum. 

En þetta er ég og þær óskir sem ég hef varðandi vináttu mína við mig og aðra, en hverjar eru óskir þínar varðandi vináttusamböndin þín? Hvað værir þú að gera öðruvísi í dag ef þú tækir ákvörðun núna um að verða þinn besti vinur héðan í frá?

Ég hvet okkur öll til þess að dekra okkur svolítið, sjá að við eigum bara það góða skilið og dansa svo lífið á enda í besta félagsskap sem fáanlegur er, semsagt með okkur sjálfum og kannski örfáum öðrum sem uppfylla skilyrðin sem við setjum vináttunni.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Samskiptaráðgjafi/lífsmarkþjálfi

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira