c

Pistlar:

21. ágúst 2017 kl. 15:52

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Játning

Tímamót geta verið ansi töff og tekið á þrátt fyrir að mörg þeirra séu af gleðiríkum toga.

Ég þekki það sjálf hvernig óttinn læðist að mér þegar ég tek stórar ákvarðanir fyrir líf mitt, og nú nýverið hafa þær verið ansi margar og erfiðar.

Ég uppgötvaði reyndar mér til mikillar furðu að flest stór og mikil tímamót hjá mér virðast lenda á ártali sem endar á sjö, eða þannig hefur það verið frá því 1967. Merkilega skemmtilegt!

En eftir því sem að árunum fjölgar þá finn ég að breytingar sem áður reyndust mér mjög auðveldar taka meira á mig en ég vil í raun viðurkenna. Og ég sem hélt að ég væri þessi sveigjanlega og út úr boxinu manneskja (tel mig reyndar ennþá vera það) en komst semsagt að því að ég er búin að búa mér til hin ýmsu bakgrunns öpp sem erfitt er að eyða.

Bara það eitt að selja litlu íbúðina mína í Grafarvogi og flytja mig í annað bæjarfélag (Kópavog) reyndist mér á sama tíma bæði spennandi og örgrandi verkefni. Ég fann hvernig ég sveiflaðist á milli gleði og ótta við það nýja sem tæki við. Svo þegar ég var búin að koma mér fyrir á nýja staðnum uppgötvaði ég að þetta var svo sannarlega löngu tímabært skref þó svo að ég hugsi enn um litlu kompuna mína með væntumþykju og virðingu fyrir það skjól sem hún veitti mér.

En að aðeins öðru:

Það er einu sinni þannig að þær breytingar sem við viljum fá inn í líf okkar krefjast þess að við rýmum til fyrir þeim.

Stundum þurfum við að flytja okkur um set eins og ég gerði í mínu tilfelli, og stundum þurfum við að henda fatnaði eða losa okkur við gamlar minningar og myndir. Hvað svo sem við gerum ættum við að fullvissa okkur um að við séum búin að loka öllum dyrum sem eyðilagt geta fyrir okkur nýju spennandi dyrnar sem bíða þess eins að fá að opnast fyrir okkur.

Það var ekki nóg með að ég flytti mig um set íbúðarlega séð heldur tók ég þá ákvörðun á sama tíma að deila lífi mínu með annarri manneskju eftir að hafa verið ein um árabil og það krafðist þess að ég tæki til í mínu lífi og henti út gömlum gatslitnum minningum og myndum (Held að það hafi farið 50 ruslapokar á haugana fyrir utan öll húsgögnin sem ég gaf).

Og í öllu þessu róti fór ég nú fyrst að finna fyrir öllum mínum fínu og flottu niðurgröfnu öppunum sem keyrðu í bakgrunninum og lifðu þar sjálfstæðu lífi án nokkurrar vitneskju minnar þar um. 

Fyrsta appið sem ég fann var ofurviðkvæma sjálfstæðisappið mitt.

Ég var orðin vön því að gera hlutina á minn hátt og þegar mér datt í hug, og enginn sem tók ákvarðanir fyrir mitt líf nema ég sjálf.

En núna þurfti ég semsagt að fara að taka tillit til annarrar persónu og hans lífs, og það mun líklega taka mig tíma að venjast því til fullnustu. Það góða er þó að við höfum öll mál uppi á borðum hjá okkur til úrlausnar en þöggum þau ekki niður. (Sem er reyndar atriði sem ég held að sé nauðsynlegt öllum pörum ef vel á að takast til)

Annað app sem ég fann fyrir og kom mér satt best að segja verulega á óvart að væri til staðar hjá félagsverunni mér var einveru appið.

Það app sagði mér að ég þyrfti stundum á einveru að halda, ég af öllum! Það að vera stöðugt með annan aðila í kringum mig og fá ekki einveruna sem ég var nú ekki alltaf svo hrifin af þegar ég var ein varð mér skyndilega bráðnauðsynleg. En það er eins með þetta atriði eins og önnur sem upp á borð okkar koma- við bara ræðum þetta og finnum lausnir sem duga okkur báðum vel.

Þriðja appið sem keyrir víst í bakgrunni mínum eru úrelt tilfinningaviðbrögð.

Ég semsagt fann að ég þarf að passa mig á því að gamlar tilfinningar, vonbrigði og viðbrögð séu ekki yfirfærðar yfir í nýtt samband og það er sko stundum svolítið ósjálfrátt og erfitt. Ég held að okkur mörgum hætti til að taka gömlu sambandsöppin okkar inn í þau nýju, og væntum þess þá stundum að nýji makinn bregðist við aðstæðum með svipuðum hætti og sá gamli gerði, og þá skilur nýji makinn ekki nokkurn skapaðan hlut í því hvers vegna orð, viðbrögð eða annað er túlkað á allt annan hátt en hann ætlaði. Úr þessu gettur síðan orðið ein stór flækja ef ekki er gripið inní samskiptin með skynsömum hætti og málin rædd.

Fjórða appið sem ég var nú að vona að kæmi lítið við sögu hjá mér kemur nú samt annað slagið uppá yfirborðið á þessum tímamótum og það hefur með traust að gera.

Ég semsagt uppgötvaði að ég sem hélt að ég væri svo opin og full trausts á mannkynið í heild sinni fann að það var nú ekki alveg aldeilis þannig.

Ég verð að játa að gömul sár og ör lúra innra með mér í gömlu gatslitnu appi, sem skríður upp á yfirborðið af og til án nokkurra gjörða eða tilefnis frá þeim aðila sem fyrir því verður. Ég veit svosem að það tekur tíma að byggja upp traust á milli aðila og ég veit einnig að traust er ein af grunnstoðum sambanda svo að þetta app vona ég að verði ekki fyrirferðamikið.

En nú fer þessum tímamótajátningum mínum að ljúka í bili a.m.k.

Og stefna mín til framtíðar er sú að ég ætla að halda áfram að gera mitt besta til að byggja upp mitt nýja fallega og gleðiríka líf í einingu og sátt, ryðja í leiðinni út öllum þeim öppum sem ég finn að hindra mig og skella síðan inn nýjum og nútímalegum öppum sem færa mig að lífi sem ég treysti á að verði "happily ever after líf".

Og til að trúa ykkur nú fyrir því hvers vegna ég ákvað að opna svona inn á líf mitt og tilfinningar, þá sá ég á þessari leið minni að þarna var ýmislegt sem ég held að aðrir hafi nú þegar tekist á við eða eigi eftir að gera það, og eins var ástæðan sú að ég gerði mér ljósa grein fyrir því að:

"Sjálfskoðun í nýjum aðstæðum og uppgötvun á tilfinningum og viðbrögðum sem ekki lengur þjóna tilgangi í lífi okkar er það sem færir okkur áfram í þekkingu á því hver við erum. Og á sama tíma gefur það okkur tækifæri á því að breyta yfir í jákvæðari hugsanir og framkvæmdir sem gagnast okkur betur þegar við viljum skapa eða breyta lífi okkar til hins betra".

Og til þess að ljúka nú þessum játningum mínum að þessu sinni ætla ég einnig að játa að ég fann ekki bara gömul gatslitin öpp á leið minni. Nei ég fann einnig afar mörg falleg, gefandi, jákvæð, kærleiksrík og dásamleg öpp sem ég er afar þakklát fyrir að fá tækifæri á að deila með mínum nýja yndislega lífsförunauti sem gefur mér alla daga eitthvað til að gleðjast yfir.

Kærleikur og knús til ykkar elskurnar,

xoxo

ykkar Linda 

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

manngildi.is

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira