c

Pistlar:

22. janúar 2018 kl. 11:19

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Get ég breytt vondum samskiptum í lífi mínu?

Við þörfnumst kærleiksríkra samskipta:

Ég er mikill aðdáandi félagsvísindakonu að nafni Bréne Brown en hún hefur stundað rannsóknir á þörfum okkar hvað samskipti varðar og hefur komist að áhugaverðum niðurstöðum þar. Hún talar um Béin 3 sem á enskunni útleggjast sem to be brave – to belong – to be loved, eða á íslensku að vera hugrakkur – að tilheyra og að vera elskaður en til þess að geta að fullu tilheyrt og að taka við kærleiksríku þeli þurfum við oft að sýna hugrekki og bæta við það dassi af einlægni og opnun á því hver við erum. Þetta eru einnig ein aðal innihaldsefnin góðs samstarfs og góðra samskipta að mínu viti.

Er netið að eyðileggja samskipti okkar?

Í dag er loksins farið að viðurkenna einn af eftirsóknaverðustu eiginleikum sem við getum haft í farteskinu sé kunnátta okkar á góðum og gefandi samskiptum og hugtakið tilfinningagreind er loks að öðlast verðskuldaða viðurkenningu. Engin furða á tímum þar sem bein samskipti hafa minnkað óhugnanlega mikið en tölvusamskipti tekið við að allt of miklu leiti. Orðin sem við segjum gefa aðeins til kynna 7% af innihaldsefni þess sem við segjum en restin er byggð upp á líkamstjáningu og tónfalli orðanna. Svo hvernig í ósköpunum á að vera hægt að skilja að fullu samskipti sem eiga sér stað í skilaboðum á netinu?

Enda er misskilningur algengari en skilningur þar og hægt að lesa úr skilaboðunum með misjöfnum hætti, allt eftir persónuleika og tilfinningalífi hvers og eins. Flestir fræðimenn eru sammála um að í framtíðinni verði mest að gera hjá þeim sem starfa við samskipti og lausnir tengdum samskiptavanda eins og ég reyndar fæst við og get staðfest að samskipti okkar í dag eru flókin og misskilningur algengur í netsamskiptunum.

Tilfinningagreind: 

En til að útskýra að einhverju leiti hvað tilfinningagreind er væri líklega auðveldast að segja að hún tengist hæfni fólks til geta tengst öðrum ásamt því að geta lesið úr eigin tilfinningum sem og annarra og hafa þannig áhrif til góðs með því að skilja aðra og hvaðan þeir eru að koma.

Daníel Goleman er líklega sá sem mótaði þetta nýja hugtak og skrifaði í kjölfarið bókina “ Emotional intelligence: Why it can matter more than IQ).”

Goleman talar um að tilfinningagreindin byggist á 5 hæfisþáttum sem eru:

Hæfni til að þekkja og nefna réttilega eigin tilfinningar ásamt skilningi á tengslum hugsana, tilfinninga og hegðunar. Hæfni til að stjórna eigin tilfinningum og að geta sett sig inn í ákveðið tilfinningalegt ástand og aðstoða við lausnir þar. Hæfni til að skynja hvernig öðrum líður og geta tekið tillit til þeirra, ásamt því að hafa góða hæfni í mannlegum samskiptum sem er svo forsenda fyrir því að geta nýtt það sem hér að framan var talið upp.  

Öll viljum við góð og gefandi samskipti og samvinnu en kunnum stundum bara ekki á þau sem er engin furða því að hingað til hefur ekki verið lögð nein áhersla á að kenna okkur það fag.

En það eru nokkur skref sem við öll getum tileinkað okkur til að bæta samskipti okkar og auka þar af leiðandi hamingju okkar í daglegu lífi. 

Hvað get ég gert til að bæta samskipti mín?

Þau skref sem ég legg til að þú innleiðir inn í líf þitt samskiptalega séð er í fyrsta lagi að hafa áhuga á lífi, skoðunum og lífsgildum þess sem þú umgengst án þess að hafa skoðun á því eða setjir þig í dómarasæti þar, eða með öðrum orðum: Talaðu þannig að áheyrendurnir elski að hlusta á þig og hlustaðu á aðra þannig að þeir elski að tala við þig! Bættu síðan við dassi af jákvæðni og öllu því sem þú sjálfur eða sjálf vilt uppskera inn í þín samskipti og Voila! Lífið verður hamingjuríkara smile

Samskipti lúta því lögmáli sem við sjáum í flestu öðru en það er lögmál sáningar. Þetta eru þeir svo sem fyrir löngu búnir að uppgötva í Þykkvabænum því að þeim dettur ekki í hug að setja niður gulrótarfræ þegar þeir ætla að uppskera kartöflur. 

Ef þú bætir síðan við sáninguna því að leita eftir því sem er jákvætt og gott við manneskjuna ásamt því að finna styrkleika hennar í stað veikleika er ég nokkuð viss um að samskipti þín verði meira gefandi og jákvæð ásamt því að auðveldara verður að opna á samræður um það sem er að valda misskilningi særindum og öðrum vondum tilfinningum.  

En gleymum því ekki heldur að við erum í samskiptum við okkur sjálf allan sólarhringinn og þau eru nú ekki alltaf falleg!

Við skömmum okkur fyrir allt og ekkert og tölum við okkur á þann hátt sem við myndum aldrei voga okkur að tala við nokkurn mann. Hættum þessu krakkar og tölum fallega við okkur eins og aðra. Virðingin sem við sýnum okkur sjálfum fer ekki framhjá þeim sem við erum í samskiptum við og smitar útfrá sér til þeirra á góðan hátt því að útfrá þeirri virðingu sem við sýnum okkur sjálfum spretta fram heilbrigð mörk og meðvirkni lætur undan.

Ég vona að þessi upptalning mín verði til þess að samskiptalega séð verði árið þitt glimmer og gleðiríkt og að allur misskilningur og leiðindi verði á bak og burt. En ef þú þarfnast leiðsagnar og aðstoðar við þín samskipti þá er bara að panta tíma hjá mér og leysa úr vandanum á fljótan og skjótan hátt smile

xoxo

Ykkar Linda

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira