c

Pistlar:

29. desember 2017 kl. 10:56

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Glimmerárið mitt 2017

Þar sem nýtt ár gengur senn í garð og við kveðjum það gamla, ætla ég að hleypa ykkur elskurnar aðeins inn í líf mitt og gera árið mitt upp hér með ykkur. 

Ég er afar þakklát fyrir þetta ár sem kenndi mér svo marga nýja hluti um mig sjálfa, lífið og tilveruna í heild sinni og sneri lífi mínu líklega alveg við um 360 gráður ef ég er alveg heiðarleg við sjálfa mig.

En Guð minn góður hvað það var kominn tími á allar þessar breytingar og mikið er ég þakklát og glöð fyrir að vera tekin ssvona líka hressilega út úr þægindahring mínum. Ég fann svo sannarlega hversu nauðsynlegt það er að fara út úr þessum hring reglulega því að stöðnunin sem verður þegar við lokumst inni í honum er í raun ekkert annað en andlegur dauði, og þar getur enginn vöxtur átt sér stað. 

Árið byrjaði með því að við Hanna vinkona skutum upp rakettum og í mínu tilfelli a.m.k lét ég fylgja með þeim ákveðnar óskir fyrir þetta nýja ár 2017 og sendi þær til úrlausnar hjá alheiminum og vænti auðvitað fljótrar og góðrar afgreiðslu á þeim þar.

Og viti menn, ekki var langt liðið á þetta nýja ár þegar bænheyrslurnar byrjuðu að banka uppá mér til mikillar furðu og ánægju. 

Og þetta ár hefur svo sannarlega verið ár breytinga og uppfylltra óska hingað til í mínu lífi eins og merkilegt nokk öll þau ár sem enda á tölunni sjö.

Strax í febrúarbyrjun urðu stór og mikil kaflaskil í mínu lífi því að þá hitti ég núverandi sambýlismann minn við heldur óvenjulegar aðstæður að okkur finnst báðum svona eftir á og eftir það varð ekki snúið aftur til hins frjálsa og einhleypa lífs.

Við tóku dagar ástar og tilhugalífs. Dagar sem voru fullir af spennu, samtölum, skilaboðum, samveru og aðlögunar að öðrum aðila sem enn stendur yfir þegar þessar línur eru ritaðar. Og þó að ástin sé dásamleg þá kennir hún okkur oft lexíur um okkur sjálf sem ekki alltaf er auðvelt að viðurkenna eða horfast í augu við. Eins kennir hún okkur hversu gott það er að gleðja aðra mannveru með ýmsum hætti (kostar okkur oft að láta af okkar eigingirni) og ég er alla daga að uppgötva hversu heppin ég er með það að örlagadísirnar tóku völdin þennan febrúardag og ég fékk að kynnast þessum yndislega manni.

Þessi dásamlegi maður vill allt fyrir mig og mína gera og kom svo sannarlega með lækningu  inn í líf mitt til anda sálar og líkama og svo gerir hann alla daga betri með nærveru sinni og sínu fallega, umhyggjusama góða hjarta. Og ég vona bara svo sannarlega að lífið haldi áfram að leika svona við okkur og færi okkur mörg góð og falleg ár saman.

En breytingar lífsins urðu fleiri en á ástarsviðinu á þessu herrans ári.

Í byrjun sumars urðu önnur kaflaskil þar sem ég ákvað að selja gamla Fordinn minn sem var búinn að kosta mig álíka mikið og gullsleginn Bens (vegna láns sem var náttlega alveg brilliant að taka á sínum tíma í jenum og svissneskum frönkum!) og ég keypti mér þessa líka fínu og flottu Mazda bifreið í hans stað sem þýtur nú með mig glaða og ánægða út um allar trissur.

Og ekki var nú nóg með að ég skipti út tíu ára gömlum Fordinum heldur ákvað ég einnig að selja litla sæta kotið mitt sem haldið hafði svo fallega utan um mig og veitt mér skjól síðasta áratuginn, en nú hugðist ég semsagt leggja undir mig nýtt landsvæði en þakka á sama tíma því gamla fyrir allt það góða sem það geymir og gaf mér. 

Þessi sala vafðist þó töluvert fyrir mér og tók mig töluvert út fyrir huggulega þægindaboxið mitt og hristi upp í tilveru minni. Ég fékk þó það verð sem ég vildi fá fyrir þennan gullmola minn og þá var ekkert annað að gera en að fara út úr boxinu eina ferðina enn og halda af stað í íbúðaleit. Nýja parið ákvað á sama tíma að láta bara vaða og rugla saman reitum sínum og héldu af stað í þessa íbúðarleit saman.

Það var skoðað spáð og spekúlerað þar til við fundum það sem við höfðum verið að leita að. Enduðum afar glöð og ánægð á því að kaupa okkur íbúð í Kópavogi, nánar tiltekið í 203 Kópavogi. Þannig að í byrjun Ágústmánaðar var lífið búið að taka mig langt frá þeim stað sem ég var á þegar ég skaut rakettunni góðu upp á áramótunum. Ég var ekki bara búin að hitta manninn í lífi mínu heldur búin að selja og kaupa, bæði bíl og íbúð á nýju landssvæði. Það var heldur betur búið að snúa tilveru minni við á skömmum tíma og þannig finnst mér það oft vera með hringrás lífsins.

Og breytingarnar héldu áfram hverjar á fætur annarri þetta árið, kannski þó heldur fyrirferðaminni en þær sem ég taldi hér upp að framan en engu að síður flestar gleðilegar og góðar. Og mér sýnist að árið 2018 færi fleiri breytingar því að nú í byrjun mars 2018 á ég von á fjórða barnabarninu mínu mér til mikillar ánægju og gleði. 

Að ég sé að opinbera líf mitt og segja ykkur frá gangi þess þetta árið í þessum áramótaannáli mínum er kannski helst til komið vegna þess að ég veit að stundum finnst okkur eins og veröldin standi í stað og ekkert gott eða nýtt bíði okkar. Stundum finnst okkur að við séum bara týnd í veröld þar sem allir eiga vinningsmiða nema við.

Og einnig leyfi ég ykkur að vera þátttakendur í mínu lífi til að benda ykkur á hversu auðveldlega við gleymum því þegar við erum á vondum stað að það eru hæðir og lægðir í lífinu, tímar til að gleðjast og tímar þar sem lífið er ekki svo gott. Ég trúi þó að allt hafi þetta tilgang til góðs fyrir okkur með einhverjum hætti sem við þó skiljum ekki endilega alltaf.

Og endilega ef þú þekkir einhverja sem þyrftu að sjá hversu hratt og óvænt lifið getur tekið fallega og góða stefnu þá hvet ég þig til að deila þessum pistli til þeirra með kveðju frá mér. 

Við ættum heldur ekki að gleyma því að á erfiðu tímabilunum í lífum okkar eru tækifærin til vaxtar alveg ótrúlega mörg því að í myrkrinu er það sem fræið spírar og fæðist fram, og það er í myrkrinu sem við vöxum að visku og þekkingu. (en ég veit þó hversu mannleg við erum og það er auðveldara að skrifa þetta en að fara eftir því)

Það er á stað vaxtarins og sjálfsþekkingarinnaar sem við verðum oft umburðalyndari og missum þörf okkar til að dæma allt og alla og uppgötvum að það eru litlu andartök gleðinnar sem mynda og vefja kaðal hamingju okkar. Það er einnig í myrkrinu sem við uppgötvum þörf okkar fyrir aðstoð og skilning annarra, kærleika og samstöðu samfélagsins og skiljum hversu mikilvægt það er að við sýnum öðrum slíkt hið sama á þeirra erfiðu og dimmu stundum. 

Bölvum því ekki myrku stundunum, fögnum heldur verkefnum lífsins og ljósinu sem smá saman kveikir á öllu því fegursta sem mannlífið inniheldur í sálu okkar. Ljósið mun ávallt sigra myrkrið og skína inn í líf okkar að nýju og andadráttur lífsins mun halda áfram sinni hringrás myrkurs og ljóss, svo þökkum sama hvoru megin á kúrfunni við erum hverju sinni.  

Þetta ár var minn tími til að gleðjast og fagna og fyrir það er ég afar þakklát. Þakklát vegna þess að ég kann betur að meta og þakka fyrir það góða sem mér er úthlutað eftir að hafa kynnst því dimma sem lífið hefur einnig uppá að bjóða. Þannig að ég fer með barmafullt hjarta af þakklæti inn í árið 2018 og vona að það ár verði mér og þeim sem ég elska jafn gjöfult og gott og árið 2017 var.

Og ykkur mín kæru, óska ég alls hins besta og fegursta sem þetta líf hefur upp á að bjóða og vona svo innilega í hjarta mínu að árið strjúki ykkur fallega og strái yfir ykkur mörgum glimmerstundum á dag allt árið á enda. 

Takk fyrir að vera þið eins og þið eruð - dýrmæt og einstök, og takk fyrir lesturinn ykkar á þessum litlu hugleiðingum mínum á þessu ári. 

Guð geymi ykkur

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira