c

Pistlar:

24. maí 2018 kl. 13:35

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Feimni

Hvernig yfirstígur maður feimni er spurning sem ég hef oft þurft að svara en á kannski fá svör við önnur en þau sem ég sjálf hef þurft að finna fyrir mig og langar að deila með ykkur hér.

Ég er ekki týpan sem virðist vera feimin, hef alltaf haldið þessum fronti sem segir að ég sé það ekki - en trúið mér, ég er og hef alltaf verið feimin, hef einungis lært að yfirstíga feimnina með ýmsum hætti sérstaklega á síðasta áratug eða svo. Ég nýti mér þann styrk sem ég hef öðlast á leið minni til sjálfsþekkingar í hinum ýmsu aðstæðum í dag.

Ég er hinsvegar afar félagslynd og hef alltaf verið og hreinlega elska að vera í góðum hópi eða að kynnast nýju fólki og á auðvelt með það í dag.

Hér áður fyrr var ég svo feimin að ef ég lenti í að vera innan um ókunna aðila átti ég til að blaðra án afláts og út í eitt þar sem þögnin var svo hrikalega erfið að mér fannst, svo skammaðist ég mín fyrir blaðrið og fannst ég hafa orðið sjálfri mér til minnkunar. Kannski á ég enn til þessa flóttaleið í aðstæðum en ég get þó sagt að það er bara brotabrot af því sem áður var.embarassed

Ef ég var á námskeiðum eða einhverju slíku þar sem ég þurfti að kynna mig með nafni og ég tala nú ekki um ef ég þurfti að segja frá sjálfri mér að einhverju leiti þá fann ég fyrir bankandi hjarta og kvíðatengdri vanlíðan löngu áður en það kom að mér að tala og fann svo fyrir ótrúlegum létti þegar það var over and done with.

Ég átti einnig mjög erfitt með að tjá mig um skoðanir mínar á opinberum vettvangi eins og  t.d. á foreldrafundum í sal skólans sem börnin mín sóttu og alveg var sama hversu mikið mig langaði að tjá mig um hin ýmsu málefni þá steinhélt ég mér saman en skammaði mig svo reglulega fyrir aumingjadóminn eftir á.

Að tala fyrir framan hóp af fólki var bara algjörlega ógerlegt fyrir mig og ég man eftir fyrsta verkefninu mínu þar sem ég þurfti að tala yfir ca 20 manna hópi. Ég skalf á beinunum, fékk svimatilfinningu og það hefði líklega liðið yfir mig ef ég hefði ekki haft standandi tússtöflu fyrir framan mig til að styðja mig við! 

En þegar þarna var komið sá ég að þessa feimni yrði ég að yfirvinna til að ég gæti náð þangað sem ég vildi fara og ég tók ákvörðun.

Ákvörðun mín fólst helst í því að ég ætlaði að taka að mér hvert einasta verkefni sem byði uppá það að ég þyrfti að tala innan um fólk og hópa, því ég skildi sigrast á ótta mínum og eins vann ég vel með mína meðvirkni sem var töluverð á þeim tíma!

Ég byrjaði svo sem smátt að yfirvinna feimni mína, byrjaði kannski með því að ég þakkaði fyrir mig í matarboðum og hrósaði gestgjöfunum með því að standa upp og horfast í augu við þá sem við borðið voru, og einnig fór ég markvisst að þegja þegar ég fann þörf mína til að rjúfa þagnir þar sem minni hópar eða einstaklingar áttu í hlut.

Ég fór síðan að vera með námskeið fyrir 10-15 manns og fann að ég gat vel gert það, og fann oft fyrir sigurtilfinningunni sem fylgdi í kjölfarið. Þannig hélt ég áfram að æfa mig á hinum ýmsu námskeiðum sem urðu síðan að fyrirlestrum og fleiru. Ég hef meira að segja staðið fyrir framan nokkur hundruð manns sem veislustjóri og sungið með Ragga Bjarna og hafði rosalega gaman af og í raun ákaflega stolt af því augnabliki :)

Smátt og smátt á þessu æfingatímabili mínu fór ég að sjá sigrana mína og mér fór að líða betur með það að standa upp og tala fyrir framan hópa og í dag held ég að ég sé orðin alveg ágæt þó að streitan segi alltaf til sín fyrstu mínúturnar, en þar held ég að margir séu :)

Ég held semsagt þegar öllu er á botninn hvolft að til þess að sigrast á feimni dugi fátt annað en æfingar og það að stíga inn í óttann sem heldur okkur í feimnisböndunum, því hvað væri það versta svo sem sem gæti gerst í aðstæðunum?

Síðan er að æfa sig með ýmsum hætti (fake it until you become it) og vera meðvitaður um að það eru litlu sigrarnir sem byggja okkur upp í stærri sigra og áður en við vitum af er nánast öll feimni farin af okkur, sjálfsmynd okkar orðin sterkari og við tilbúin að sigra heiminn.

Og ef þú þarft aðstoð mína við að yfirstíga þína feimni þá er ég einungis einni tímapöntun í burtu.

Þar til næst elskurnar,

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Samskiptaráðgjafi/Markþjálfi

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira