c

Pistlar:

13. ágúst 2018 kl. 12:03

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hvenær er skilnaður skilnaður og hvenær ekki?

Las þessa líka flottu grein á Huffington post um ágæti þess að draga skírar línur þegar kemur að því að skilja við maka sinn og muna þá eftir því að skilnaðurinn er til kominn vegna þess að þið gátuð ekki verið saman en ætlið ykkur að byggja líf með öðrum aðilum og live there happily ever after ekki satt?

Hún Tiffany Beverlin sem grein þessa skrifaði er starfandi ráðgjafi í Bandaríkjunum og hefur víða komið fram í sjónvarpi þar í landi. Þar gefur hún áhorfendum uppskrift að skírum línum og gefur ráð varðandi umgengni við fyrri maka og hvernig þeim ætti að vera háttað eftir skilnað. Hún þykir ákveðin og hörð en ég verð þó að vera sammála henni í flestum aðalatriðum áðurnefndar greinar sem ég las.

Ég ætla að draga fram aðalatriði þessarar greinar hér en læt fylgja með link á greinina í heild sinni hér fyrir neðan.

Það sem hún Tiffany segir er að það þurfi að setja afar sterk mörk á milli aðilanna sem skilja þar sem það séu oft léleg mörk sem valda skilnaðinum (eins og lygar, framhjáhöld og margt fleira) Skír mörk mörk mörk!

Við viljum mörg að okkar fyrrum makar og okkar nýju makar geti orðið rosalega góðir vinir og að við gætum öll hist saman á Sunnudögum í grill með börnunum okkar (þar sem ung börn eru) En við erum fæst bara innréttuð á þann hátt. Flest erum við þannig að við viljum eignast lífið að sem mestu leiti með okkar núverandi maka án þess að fyrrum kærastar og kærustur (makar) séu þar að þvælast fyrir. Það þýðir þó ekki að það sé ekki hægt að bera virðingu fyrir fyrri mökum og umgangast þá við tilhlýðileg tilefni með virðingu og vinsemd sem ætti auðvitað alltaf að vera markmiðið þó ekki sé nema vegna barna ef þau eru til staðar.

Það sem hún Tiffany ráðleggur skilnaðaraðilum að gera til að hægt sé að koma til móts við þetta er að það séu sett afar sterk mörk strax eftir skilnað um umgengni og standa síðan við þau mörk og leyfa ekki að stigið sé yfir þá línu sem strikuð er í sandinn sama hvað. 

Kannski er þetta svolítið hörð nálgun að einhverra mati en eins og Tiffany segir þá verður að muna að þessir aðilar kusu að skilja og það hefur örugglega kostað skildinginn, ásamt því að skrifað var undir pappíra sem sögðu að aðilarnir væru skildir að skiptum og vildu þar með ekki vera partur af lífi hvors annars.

En stundum er það þannig að aðilarnir vilja halda í það sem var gott að hafa í hjónabandinu og halda fast í það, og umgengnin verður nánast eins og hún var fyrir skilnaðinn sem er ekki gott mál þegar búa á til nýtt líf og finna hamingju á nýjum stað.

Oft eru það peningar sem haldið er áfram að sækja í, en það býður uppá að samskiptin verða nánari en þau ættu að vera hjá fólki sem er skilið og eins býður það oft uppá stjórnun og kúgun frá fyrri maka. Það er ástæða fyrir því að barnameðlög eru ákveðin með lögum og eins segja lögin skírt hvaða skyldum foreldrar sem ekki búa með börnum sínum gegna í sambandi við fjárútlát. Það er allra hagur að halda sig sem mest við lagarammann og því fyrr sem aðilarnir verða fjárhagslega sjálfstæðir því betra.

Kynlíf segir Tiffany að sé algjörlega bannað eftir skilnað og telur hún að það sé notað sem kúgunaraðferð og geri það erfiðara fyrir aðilana að halda áfram lífinu og rækta sér nýtt land. Mörk innihalda virðingu og það að þið eruð skilin þýðir að þið hafið ekki rétt á hvort öðru á þennan hátt. 

Að mynda rými eða gefa space. Þetta er stórt og mikið mál á milli þeirra sem eru nýskildir og sérstaklega þegar annar aðilinn býr enn á gamla staðnum. En þó að búið sé á gamla staðnum gefur það hinum aðilanum engan rétt til að droppa við eða koma án fyrirvara eða fara inn án þess að vera boðið þangað sérstaklega. Það er partur af heilbrigðum skilnaði að það sé það gott rými á milli aðilanna að þeim líði eins og þeir séu einstaklingar á ný. Og það er í raun að sögn Tiffany afar sérstakt að fyrrum makinn hafi yfir höfuð áhuga á því að fara á gamla staðinn eftir skilnaðinn. Það sýnir að aðilinn hefur afar léleg mörk og ber ekki virðingu fyrir persónulegu rými einstaklingsins (fyrri maka). Þetta er reyndar afar algengt hjá þeim sem ekki er tilbúinn til að skilja og getur ekki sleppt tökunum eða er reiður, bitur og finnst hann ekki hafa stjórn á þessum atburði og reynir því að stjórna inni í aðstæðunum eins og hægt er. 

Ganga þarf frá öllum eigum sem fyrst og skilnaðarsáttmálinn gerir ágætis grein fyrir því hver á hvað. Þegar þessi sáttmáli er frágenginn er það klárt að hvorugur aðilinn á rétt á neinu frá hvort öðru, þú þarft bara að kaupa þér nýja kaffikönnu og þvottavél ef þú þarft hana.

En hvað með samskiptin?

Jú það þarf að virða allar persónulegar upplýsingar aðilanna og það er afar óheilbrigt að fara í gegnum gögn á netinu eða skoða e-mailin eða yfir höfuð að brjótast inn í aðgang þeirra á netinu eða fylgjast með þeim með einhverjum hætti. Þinn fyrrverandi maki er ekki lengur þinn og þú hefur ekki leyfi til að fylgjast með þeim og þú hefur heldur ekki leyfi til þess að fá hjálp við allt og ekkert.

Ef bíllinn bilar þá ferðu með hann á verkstæði eða ef buxurnar rifna þá ferðu með þær á saumastofu. Þinn fyrrverandi er að reyna að byggja upp nýtt líf og þarf ekkert á símtali að halda frá þér til að kippa þeim á gamla staðinn sinn(inn í hjónabandsmynstrið)

Þínir fyrrverandi makar geta skapað uppþot í þínu nýja lífi og ég tala nú ekki um í nýjum samböndum sem þú ert að rembast við að mynda og gera það stundum ómögulegt að hægt sé að styrkja þau og að gera þau góð. Það er mjög nauðsynlegt að setja sterk mörk á persónulegt rými og samskipti strax svo hægt sé að fara að byggja upp nýtt og gott líf eins og áður hefur verið lögð áhersla á.

Fyrrum maki á að gefa frið inn í uppbyggingu nýja lífinu án aðkomu og stjórnunar með nokkrum hætti. Að setja fyrrum maka föst mörk hvað þetta varðar með kurteisum hætti er nauðsynlegt og svo þarf að standa á þeim mörkum ef á þarf að halda. Ef engar fallegar aðferðir duga þá þarf einfaldlega að hætta öllum samskiptum við fyrrum makann þar til að þeir skilja þessi mörk.

Eftir því sem samskiptin við fyrrum maka eru á nánari nótum og viðhaldast lengur, lengist einungis í bataferli skilnaðarins og eins og áður sagði gerir það nánast ómögulegt fyrir ný sambönd aðilanna að dafna og vaxa.

Allir skilnaðir hafa það að markmiði að aðilarnir vilji finna hamingjuna í framtíðinni á öðrum stað án síns fyrrverandi og því þarf að huga að þessum atriðum sem nefnd hafa verið. Báðir aðilar þurfa að muna að skilnaðurinn er endanlegur hjá aðilum sem náðu ekki að finna og viðhalda hamingjunni hjá hvort öðru og því borgar sig að draga  ákveðna línu í sandinn og halda lífinu áfram í sitt hvoru lagi.

Ég geri mér grein fyrir því að það eru til undantekningar á þessu eins og öllu öðru en ef ekki er samkomulag um umgengni við fyrri maka í nýju sambandi ætti það alltaf að vera nýi makinn sem jú verið er að mynda samband með sem ætti að vera í fyrirrúmi og tillit tekið til hans óska um umgengni við fyrrum makann (samband við börn og vegna barna falla ekki undir þetta ákvæði) svo framarlega sem þær óskir eru innan skynsemismarka og án óvildar í garð fyrrum maka án góðra ástæðna.

Svo enn og aftur er ég að skrifa um mörk í samskiptum og ekki vanþörf á. Línur dagsins í dag hvað þessi málefni varðar eru afar óskýrar fyrir mörgum og allir vilja jú að öll dýrin í skóginum geti verið vinir en það gengur ekki alltaf upp og sérstaklega ekki þegar nýjum aðila líður eins og það séu of margir að stjórna í sambandinu. 

Og eins og alltaf er ég bara einni tímapöntun í burtu ef þú þarft á finna hvaða línur þú vilt setja inn í þitt líf og hvar vantar mörk í þín samskipti.

xoxo

Ykkar Linda 

https://www.huffingtonpost.com/entry/setting-boundaries-for-exes-after-divorce_us_58e0664de4b0ca889ba1a6c1

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira