c

Pistlar:

17. september 2018 kl. 16:41

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Viltu losna við streituna?

Ég eins og við flest leita annað slagið að sjálfri mér upp á nýtt þegar ég týnist í aðstæðum lífsins og ég hef komist að því að mér gengur það best ef ég næ að aðlaga mig aðstæðunum sem eru -  en ekki væntingum mínum og skilyrtum óskuðum kringumstæðum. 

Það er ekki eins og það sé það auðveldasta sem við gerum og oft er það einnig þannig að við erum með svo fastmótaðar hugmyndir um það hvernig allt á að vera að við eigum erfitt með að sleppa tökunum á því.

Sama hversu erfitt sem mér þykir þetta þó vera þarf ég að gæta að hjarta mínu, lífi, byrja næsta kafla og sleppa tökum á þeim aðstæðum sem eru og sætta mig við það sem er - og læra síðan að elska það og gera eins og sagt er - að búa til sætan sítrónudrykk þegar mér eru réttar sítrónurnar í lífinu.

En þegar ég segi sætta mig við, þá á ég ekki við að við eigum að sætta okkur við aðstæður sem eru okkur skaðlegar með einum eða öðrum hætti, né er ég að segja að þú eigir ekki að sækjast eftir því að fá þörfum þínum mætt. Það sem ég er hinsvegar að tala um er að sætta sig við þá atburði eða aðstæður í lífinu sem við fáum ekki breytt með neinum hætti.

Og í leit minni að því að aðlaga mig að mínum nýju aðstæðum í lífinu fór ég á áhugavert Qigong námskeið um daginn þar sem ég lærði að anda með tilgangi. Þessi aðferð er mörg þúsund ára gömul og er notuð víða um heim í dag til fyrirbyggingar og jafnvel lækninga í sumum tilfellum og því fannst mér rétt að draga vinkonu mína með mér á námskeið til að kynnast þessu að eigin raun.

Mér þótti mjög áhugavert að finna að það eitt að anda rétt gaf mér meiri meðvitund um líkama minn og hvar ég þarf að liðka hann og sveigja, merkilegt að okkur skuli ekki vera kenndar aðferðir sem þessar strax á barnsaldri svo að koma megi í veg fyrir að við festumst í stirðleika og bólgum þeim sem fylgja með því einu að anda og sveigja sig á einfaldan máta!

Á þessu sama námskeiði fannst mér einnig mjög athyglivert að læra að þar sem orkan flæðir ekki frjáls þá vilja menn meina að hugur okkar verði óstöðugur, dómgreindarleysi geti átt sér stað,jafnvel siðblinda,einræna,tilfinningaleysi,höfnun, sérhygli og ótti. Vanvirkni geti einnig fylgt, hjálparleysi og að lokum veikindi. Merkileg fræði sem vert er að hafa í huga þegar að við ætlum að breyta heilsunni okkar til hins betra.

Og í leit minni að einhverju gagnlegu og nýju fann ég einnig fyrirlestur sem gaf mér leiðsögn sem ég ætla að nýta mér og ég vona að þú getir einnig nýtt þér. 

Sá fyrirlestur var á TED (sem er í uppáhaldi hjá mér) en þar sem steig á stokk í þessu tilfelli rithöfundur bókarinnar "The Dolphin Way" (eða leið höfrunganna) Dr. Shimi Kang þar sem hún talar um hvaða upplýsingar náttúran gefur okkur hvað varðar aðlögun og streitulosun eða það sem við mennirnir getum nýtt okkur úr náttúrunni til að minnka streitu og kulnun og þótti mér þetta afar áhugavert svo ekki sé meira sagt.

Það sem gerist þegar við erum uppfull af streitu þá hættum við að sofa vel, við gleymum hlátrinum okkar og leikgleði og við hættum að lokum að vera félagslega tengd, en þetta eru einmitt þeir þættir sem við þurfum að passa uppá ef við ætlum að ná aðlögun að erfiðum eða nýjum aðstæðum nú eða koma okkur út úr kulnun ýmiskonar. Dr.Khan kallar þessa aðferð náttúrunnar P.O.D eða play, others, and downtime. 

Ef við skoðum þessa streitunálgun hennar Dr Shimi Kang þá byggir hún hana á rannsóknum sem hún gerði á náttúrunni og þeim lífverum sem jörðina byggja og fann út að þær tegundir sem aðlöguðu sig að aðstæðum lifðu af á meðan aðrar sem ekki gátu aðlagað sig gáfu eftir og dóu út.

En höfrungarnir urðu til þess að hún fór að skoða hvað það væri sem gæfi þeim lífsgleðina og jafnvægið sem virtist einkenna þá og fann út að það voru þættir sem þeir pössuðu uppá  að væru í jafnvægi og þeir þættir voru þeir að þeir léku sér á hverjum degi, hvíldu sig vel og voru síðan hluti af stóru félagsneti og þeir pössuðu upp á að jafnvægi væri á öllum þessum þáttum á daglegum basis.

Sjúkdómar þeir sem við eigum við að etja í dag eru margir streitutengdir og því fór ég að hugsa hvort að það gæti verið vegna þess að við erum ekki að sinna því að hafa jafnvægi í lífi okkar? Ég get svosem ekki fullyrt neitt um það en ég veit þó að þegar ég hef verið undir álagi þá er mér hættara við að fá flensur, gigtarköst,astma og fleira sem herjar frekar á mig á þeim stundum þar sem ég hugsa minnst um mig og jafnvægi mitt.

Og ég veit að til að ég geti aðlagað mig nýjum aðstæðum og haft jafnvægi á þessum þáttum höfrunganna þarf ég að skilja gömlu aðstæðurnar eftir og allt sem þeim tilheyrir, finna jafnvel nýjar og spennandi leiðir og afla mér nýrrar þekkingar sem gagnast mér á leið minni til jafnvægis og hamingju, ásamt því að nota þær gömlu sem ég á í farteskinu. Aðferðir eins  og þær að tala út jákvæðar aðstæður inn í líf mitt, fyrirgefa, næra mig vel til anda sálar og líkama og treysta lífinu fyrir mér og mínum aðstæðum og sleppa síðan tökunum.

Með allt þetta í farteskinu mun allt fara vel hjá okkur öllum elskurnar og streita,ótti og aðrar óuppbyggjandi tilfinningar munu víkja fyrir spennandi og óvæntum skemmtilegum uppákomum.

Njótum þess að hafa leik, samskipti og hvíld í jafnvægi alla daga og við erum í góðum málum :) 

Og ef þig vantar mína aðstoð við lífsins málefni þá er ég aðeins einni tímapöntun í burtu.

xoxo

Ykkar Linda

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira