c

Pistlar:

22. desember 2021 kl. 23:31

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Gleðileg jól elskurnar

Þar sem ég sit í stofunni minni og horfi á jólatréð sem ég ætlaði varla að nenna að setja upp, þá finn ég hversu miklu máli jólin skipta þrátt fyrir Covid, Omricon eða hvað það nú er sem spillir lífinu. 

Ljúfar minningar frá æskunni og jólum fortíðarinnar, ilmur af bakstri, rauðkálsgerð og hangikjöti kveikir á einhverri sérstakri tilfinningu í hjarta mér. Tilfinningu sem ég vil helst líkja við tengingu við Guð eða kannski bara allt sem er, hrein og tær kærleikstifinning sem breiðir úr sér og vex.

Ég veit að víruskvikindið er búið að valda okkur erfiðleikum annað árið í röð og geðheilsa margra er að versna til muna. Og líklega er alls ekki komið í ljós hversu mikill sá skaði er um allan heim og þar erum við ekki undanskilin þrátt fyrir ágætis gengi okkar miðað við margar aðrar þjóðir.

Þrátt fyrir allt lífsins amstur þá samt koma jólin.

Og hvernig sem andlega ástandið er hjá okkur og kannski einmannaleikinn sérstaklega sár á þessum árstíma, sorgin yfir missi ástvina okkar ásamt viðkvæmni okkar vegna gamalla og góðra minninga fær einnig sína vængi, þá held ég að við flest finnum fyrir þessum anda jólanna djúpt inni í hjarta okkar og vonin fæðist fram að nýju með hækkandi sól. Lítil ljóstýra sem kviknar í andanum og boðar okkur eitthvað gott, eitthvað betra - og kannski verður næsta ár svo miklu betra og fullt af hamingju og jafnvel veirulaust. 

Þessi von er afl sem við skulum ekki vanmeta, því að hún er aflið sem fær okkur til að rísa á fætur og tækla daginn þrátt fyrir áskoranir og sorgir lífsins.

Vonin er ljósið sem fæðir fram hugmyndir og lausnir sem myrkrið fær ekki slökkt, og kannski er það engin tilviljun að jólastjarnan bjarta eða Betlehemsstjarnan sé táknmynd jólanna. Hún boðar okkur birtu, frelsi og von og er oft nefnd vonarstjarnan.

Tökum á móti því ljósi sem stjarnan boðar okkur og fæðumst til nýrrar vonar og umföðmum mátt kærleikans á þessum fallega tíma sem færir okkur nær hvort öðru hvað sem öllum vírusum líður og þeirri vanlíðan sem óöryggið færir inn í okkar daglega líf á þessum skrýtnu tímum.

Eigið kærleiksrík gleðileg jól elskurnar og megi friður hátíðarinnar kveikja ljós í ykkar hjörtum og efla von ykkar um farsælt komandi ár. Mætti það verða hlutskipti okkar allra að eiga gleðilegt veirulaust ár 2022.

Jóla og nýjárs kærleikskveðja,

xoxo 

ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach, samskiptaráðgjafi, TRM áfallaþrautsegju þjálfi.

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira