c

Pistlar:

24. apríl 2022 kl. 15:52

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Hvað er orðið þitt?

Ég horfði á myndina Eat pray love með Julíu Roberts um daginn í hundraðasta skiptið líklega og að þessu sinni tók ég eftir því þegar hún var spurð að því hvað "orðið" hennar væri og hún svaraði því til eftir smá umhugsun að hún væri rithöfundur. Sá sem spurði hana sagðist þó ekki vera að spyrja hana hvað hún gerði heldur hver hún væri, og myndin snýst að mörgu leiti um leit hennar að því orði sem hún gæti notað um sig og sinn innsta kjarna.

Þetta vakti mig til umhugsunar um það hvernig við skilgreinum okkur sjálf svona venjulega og hversu oft við skilgreinum annað fólk út frá starfstitli þeirra og hversu rangt þetta er í raun og veru. Er það það sem skiptir máli? Eða skiptir meira máli að vita hver kjarninn er í manneskjunni?

Starf okkar og ytri umgerð segir afar lítið um líðan okkar að innan og hvort að við séum holl eða óholl fyrir okkur sjálf og þá aðra í leiðinni.

Að lifa innan frá og út hlýtur að vera okkur kappsmál því að aðeins þannig erum við heil og lifum þar með af heilindum gagnvart okkur sjálfum og öðrum. 

Hvernig eigum við að finna lífsfarveg okkar og þá gleði sem fylgir því að finna hann ef við leyfum okkur ekki að kafa eftir því hver við erum þegar búið að strippa okkur af titlum, menntun og öðru því sem heimurinn hefur kennt okkur að skilgreina okkur út frá?

Ef við leitum ekki að uppruna "orðinu" okkar þá verðum við alltaf eins og strengjabrúður annarra og látum stjórnast af því sem stjórnendur brúðunnar vilja. Útfrá þannig ástandi leyfum við öðrum að fara yfir mörkin okkar og missum sjálfstraustið, gleðina og að standa með okkur, því hvernig getum við staðið með einhverju sem við vitum ekki einu sinni að erum við eða "orðið" okkar eða okkar innsti kjarni?

Það er mikið talað um ofbeldi í dag og hluti af því að við látum slíka meðferð viðgangast gagnvart okkur sjálfum og í samfélagi okkar er vegna þess að við teljum okkur ekki eiga betra skilið en þá meðferð sem okkur er boðið uppá hverju sinni og gerum hluti sem eru gagnstæð ómeðvituðum gildum okkar allt til að fá skilgreininguna frá heiminum og öðru fólki að þú sért verðug/ur og elskuð/aður eða allt þar til við lærum að þekkja "orðið" okkar og förum að verja okkur (gildin okkar) útfrá okkur en ekki til að dansa fyrir aðra jafnvel í óheilbrigði þeirra og stjórnsemi. 

Þegar við erum ómeðvituð um "orðið" okkar þá erum við einnig á sífelldum flótta frá okkur sjálfum og förum t.d að hlaupa á milli sambanda og hellum okkur út í þau til að vera nú einhverjum eitthvað (einhverjum öðrum en okkur sjálfum). Við förum að drekka meira áfengi, taka lyf sem deyfa líðan okkar, borðum á okkur sjúkdóma, festumst í allskonar fíknum sem við missum tök á, vinnum yfir okkur og hættum að bera ábyrgð á líðan okkar og lífi. Allt verður öðrum að kenna því að við náum ekki að skoða okkur hið innra því að þar gætum við rekist á brotin okkar og þurft að fara að takast á við þau og finna "orðið" okkar. 

Við lifum einnig í fjarlægð frá okkur með því að vera of jákvæð eða of neikvæð og leyfum því ekki þekkingu á raunverulegri líðan og tilfinningum okkar því að það er svo gott að leita út fyrir okkur sjálf þarna einnig. Öfgar semsagt á flestum sviðum sem öll eru aðeins til eins og það er að fela sjálfan sig fyrir sjálfum sér! Það verður ekki fyrr en að skapandi hugsun eða ný hugsun verður til útfrá þekkingu á þínu innsta eðli sem þetta breytist.

Ætlum við að lifa tilgangsríku lífi þar sem við erum þekkjum okkur sjálf eða ætlum við að reka stjórnlaust í gegnum það? Okkar er alltaf valið og útkoman í lífi okkar byggist á því að við vitum hver við erum og hvert við ætlum okkur að fara og til þess þarf ný hugsun að verða til, nýtt viðhorf og þekking á þér. 

Það krefst hugrekkis að leita að orðinu sínu og það er ekki alltaf auðvelt að finna það (prófaðu bara) en svo sannarlega er sú þekkingarleit áhrifarík og til umbreytingar ef þú leyfir þínu innsta eðli að taka yfir yfirborðsskilgreiningu heimsins á því hver og hvað þú átt að vera og gera til að heimurinn samþykki þig.

Þegar orðið er fundið þá veistu að þú þarft ekkert að óttast eða vera með áhyggjur af einu eða neinu því að hæfileiki þinn til að skapa líf þitt á þann veg sem þú vilt að það verði verður helst falinn í því að þú treystir á þekkingu þína um þig og lífið til að færa þig nær þeirri leið sem þitt einlæga sjálf vill fara með þig. Er það í sjálfu sér ekki dásamleg tilhugsun? Og voila, andi þinn mun fylgja þínum óskum nákvæmlega eins og andinn í  Alladín lampanum. Það þurfti að strjúka þeim lampa og vita af andanum innra með honum væri þarna til að uppfylla óskirnar (trúa því að hann væri þarna) og síðan þurfti að vita hvaða leið eða óskir þyrfti að uppfylla áður en að hægt væri að afgreiða þær. (Sjá the secret)

Eins er það með andann innra með okkur og leiðina okkar. Við þurfum að trúa á hana, taka skrefin, vita hver við erum og hvað við viljum áður en að andi okkar fer og nær í það fyrir okkur eða eins og andinn í Alladín sagði "Óskin þín er fyrirskipun til mín" (Your wish is my command).

Allt virðist eitthvað svo erfitt áður en við lærum það og það er eins með að það að finna orðið okkar, leiðin hræðir okkur stundum, en eins og allt sem við lærum hefur lærdómsferlið tilhneigingu til að verða að ósjálfráðri þekkingu sem við þurfum eftir smá tíma ekkert að hugsa um við bara kunnum þetta.

Ég veit með mig að ég hélt sem lítil stelpa að ég gæti aldrei lært að reima skóna mína en það tókst og í dag er það mjög lítið mál. Ég óttaðist einnig að ég gæti aldrei lært almennilega á bíl en í dag gæti ég líklega málað mig, talað í símann og borðað morgunmatinn á sama tíma og ég keyri á milli staða (mæli samt ekki með því)!

Það að án sjálfsþekkingar og að vera strengjabrúða alla tíð getur varla hljómað spennandi þannig að ég held að sú spurning sem mestu máli skiptir fyrir þig og mig í dag hlýtur að vera - "hvað er "orðið" mitt?" og hvað ætla ég að gera við það þegar ég hef uppgötvað hvað það er?

Og ef þig vantar aðstoð við að finna þitt "orð" þá er ég bara einni tímapöntun í burtu.

Þar til næst elskurnar 

xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach og samskiptaráðgjafi

linda@manngildi.is

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira