c

Pistlar:

18. ágúst 2022 kl. 17:34

Linda Sigríður Baldvinsdóttir (lindabald.blog.is)

Ódýrasta yngingarlyfið

Fred Rogers sagði eitt sinn að það væru þrjár leiðir að hinum fullkomna árangri, en þær væru 

1.Sýndu umhyggju

2.Sýndu umhyggju

3.Sýndu umhyggju

Ekki er ég viss um að hann hafi gert sér grein fyrir því að hann var einnig að gefa uppskriftina að góðri heilsu og langlífi en það virðist þó vera raunin.

Rannsókn sem gerð var á kanínum árið 1978 vöktu áhuga Dr Kelli Harding prófessor í geðlækningum við háskólann Columbiu og sá áhugi varð til þess að hún leitaði víða fanga við að sannreyna niðurstöðu hennar.

Í framhaldi af grúski hennar á rannsóknum sem innihéldu sömu byltingarkenndu uppgötvanirnar varðandi mátt góðvildar eða umhyggju skrifaði hún bókina „The Rabbit effect: Live longer, happier and healthier“ en bókin var gefin út árið 2019.

Nokkrar aðrar rannsóknir hafa verið gerðar í framhaldi þeirrar fyrstu og reyndar margar rannsóknir gerðar sem sýna ótvírætt ávinninginn af góðvildinni eða umhyggjuseminni á líðan okkar og líf. Og allar virðast þær styðja við þá niðurstöðu að eitt fullkomnasta „lyf“ sem til er bæði við heilsufarskvillum og öldrun er hin einfalda góðmennska eða umhyggja. Einfalt og ódýrt og eitthvað sem við öll eigum til í fórum okkar svo því ekki að nota það?

Rannsóknin sem gerð var 1978 fór þannig fram að skoðuð voru tengsl hás kólesteróls og hjartaheilsu hjá kanínum sem fengu feitt ruslfæði sem stuðlar að kransæðastíflu og hjartaáföllum svona almennt séð og voru tveir kanínuhópar látnir gæða sér á því.  

Annar hópurinn virtist vera ónæmur fyrir óheilnæmi fæðunnar eða réttara sagt hafði fæðið ekki áhrif á hjartaheilsu annars hópsins á þann hátt sem búist var við, og olli það undrun þeirra sem stóðu að rannsókninni.

Farið var að kanna hver munurinn á hópunum væri og atlætinu sem þeir fengju, og kom fljótt í ljós að sá sem annaðist þennan "ónæma" hóp  var duglegur  að tala við kanínurnar, klappa þeim og gefa sig að þeim með ýmsum hætti sem virtist leiða til þess að fæðið hafði ekki sömu áhrif á þær og hinn kanínuhópinn.

Gerð var önnur rannsókn til að sannprófa þessa kenningu og gaf hún svipaða niðurstöðu sem vakti Dr Harding til umhugsunar og áralangrar rannsóknar á mætti umhyggjunnar eins og áður sagði. Og eins og hún sagði í einu af mörgum viðtölum sem tekin voru við hana, "þá fékk hún sjokk, því að flest okkar þegar við hugsum um heilsuna, hugsum um áhrif mataræðis, hreyfingar, svefns og einstaka ferð til læknis til að tékka á blóðhagnum. En það er í raun alveg sláandi að við skulum ekki hafa breytt þeim gildum vegna þess að það eru óteljandi vísbendingar til sem sýna að í raun er líklega stærsti þátturinn í heilsu okkar félagslegu samböndin okkar" segir þessi prófessor í geðlækningum.

Svo að dæmi sé tekið er krónískur einmannaleikinn jafn skaðlegur og sá ósiður að reykja 15 síkarettur daglega - svo látum engan vera einmanna í kringum okkur.

Chapel Hill háskólinn í Norður Karólínu gerði einnig rannsókn á áhrifum umhyggju eða góðmennsku og komst að þeirri niðurstöðu að ekki einungis hefur hún áhrif á heilsu okkar heldur hefur hún einnig áhrif á það hversu hratt við eldumst. Þannig að kannski er umhyggjan einnig besta yngingarmeðalið?

Allar þessar rannsóknir segja okkur þó aðeins það sem vitað hefur verið í þúsundir ára. Ófáar heimspekibækur og trúarrit leggja áherslu á það að koma fram við náungann í kærleika.

Þetta með að elska náungann eins og sjálfan sig er þannig sennilega eitthvað sem almættið virkilega meinti af fullri alvöru.

Að senda frá sér jákvæða strauma og að halda vel í samböndin okkar hvort sem það er parasambandið, fjölskyldusamböndin, vina og vinnufélagasambönd er það mikilvægasta sem ætti að vera í dagbókinni okkar.

Öll umhyggja gefin og þegin stuðlar að vellíðan og velsæld náungans á öllum sviðum hvort sem við erum að tala um hjartaheilsu eða andlega heilsu. Umhyggjan, faðmlögin og fallegu uppbyggjandi orðin er byggingarefnið sem veitir lífinu líf sitt, og ekki veitir okkur af ofurskammti af því í okkar neikvæða, streitufulla einmanna þjóðfélagi dagsins í dag.

Ég veit að þegar ég lít á mitt líf þá eru það einmitt þær stundir þar sem ég hef gefið og þegið umhyggju sem skipta mig meira máli en öll heimsins auðævi, og að finna ósvikna velvild og stuðning er ómetanlegt. Að tilheyra í hópi annarra og heyra að ég skipti máli og hafi tilgang gefur mér næringu sem ekkert annað getur gefið mér.

Ég lít aldrei betur út og líður aldrei eins vel og þegar ég finn mig elskaða, og ég held að það eigi við um okkur flest ef ekki okkur öll.

Og hver vill ekki líta vel út og finna hvernig líkaminn fyllist af orku og gleði þeirri sem aðeins fæst í góðum og gefandi samskiptum?

Hættum að tala um allskonar matarkúra og æfingar, velgengni og stöðuhækkanir, tölum frekar um þann mátt sem við höfum í hjarta okkar og gefum hann til okkar sjálfra og annarra og hver veit nema við breytum heiminum með því móti.

Hinar aðferðirnar hafa ekki skilað okkur neinu nema sviðinni jörð og óhamingjusömum heimi – og einni tegundinni enn af matar og yngingarkúrum.

Ánægð manneskja hugsar vel um sig og elskuð mannvera gefur af sér til allra sem á vegi hennar verða, og er það  ekki sá mikilvægasti hámarksárangur sem nokkur manneskja getur vænst að ná í lífinu?

Svo ef þú vilt ná hámarksheilsu og lúkka vel þá skaltu hafa þessi þrjú atriði í huga

1. Sýndu umhyggju

2. Sýndu umhyggju

3. Sýndu umhyggju

Og lífið fær nýjan lit og hámarks árangur lífsins er þinn.

Þar til næst elskurnar mínar munið að þið eruð einstakar og dýrmætar mannverur sem eigið bara það besta skilið og ekki tommu minna! (og svo vitið þið að ég er aðeins einni tímapönun í burtu ef þið þurfið á minni aðstoð að halda)

Xoxo

Ykkar Linda

Linda Baldvinsdóttir

Lifecoach og samskiptaráðgjafi

Linda@manngildi.is

 
Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Linda Sigríður Baldvinsdóttir

Samskipta og lífs-markþjálfi (life Coach) Undanfarin ár hef ég unnið við hvatningu og ráðgjöf, haldið fyrirlestra og námskeið ásamt því að skrifa bækur. Hægt er að hafa samband við mig í tölvupósti, linda@manngildi.is

Meira