c

Pistlar:

30. september 2013 kl. 10:26

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Eina skrautfjöðrin sem vantaði

Í nýjustu Woody Allen-myndinni, Blue Jasmine, fer Cate Blanchett á kostum í hlutverki Jasmine Hal sem er á tímamótum í lífi sínu. Í fyrsta skipti á ævinni er hún alveg staurblönk eftir að eiginmaður hennar yfirgaf hana. Eftir áralangt framhjáhald með hinum og þessum þokkadísum fann hann loksins ástina í faðmi kornungrar au pair-stúlku vinahjóna sinna... eins og „sumir“ menn geta lent í.

Áður en að þessu augnabliki kom í lífi hennar hafði hún lifað hátt, fengið alla heimsins demanta og fínerí frá „hubby“ milli þess sem hún trítaði sig á Fifth Avenue í New York (dýrustu götu NY-borgar). Jasmine hafði stíl og kunni að velja réttu fötin – það verður ekki frá henni tekið.

Í raunveruleikanum hefði hún náttúrlega valið þetta allt sjálf, eða fengið persónulegan stílista með sér í vettvangsferðir. Þær vinkonurnar hefðu ryksugað flottheitum upp í Chanel-búðinni, hjá Hermés og Fendi milli þess sem þær mættu í jóga- og pílatestíma. En af því að þetta er bíómynd en ekki raunveruleikaþáttur þurfti búningahönnuðurinn, Suzy Benzinger, að leggja mikið á sig til að ná fram réttum áhrifum. Það var líka annað sem olli miklum vandræðum og það var peningaleysi. Herra Allen skar peninga í búningahönnunina við nögl sem gerði það að verkum að hún hefði í raun bara getað keypt eina Hermés-tösku fyrir peningana sem áttu að fara í búningahönnunina í heild. Hún þurfti því að fara alls konar krókaleiðir til að ná í góssið fyrir litla peninga. Eins og sást á hvíta tjaldinu tókst það aldeilis vel.

Jasmine klæddist mjúkum litum og út myndina var hún í ljósum þunnum Chanel-jakka með bróderingu í kringum hálsinn og meðfram boðungnum. Eyðimerkurlituð Hermés-taska varð fyrir valinu en hún var í stíl við restina af fataskápnum sem var allur í þeirri litapallettu. Þegar hún klæddist kjólum voru þeir aðsniðnir úr svo vönduðum efnum að þú gast fundið áferðina í gegnum bíótjaldið. Auk þess klæddist hún gjarnan ljósum síðbuxum með dragtarsniði og ljósum silkiskyrtum við. Þótt hún bæri mikið af demöntum og fíneríi var hún alls ekki ofhlaðin eins og einkennir stundum forríkar konur.

Þegar peningarnir voru búnir breytti hún að sjálfsögðu ekki um fatastíl heldur gekk áfram í sömu vönduðu fötunum sem gerði það að verkum að hún villti algerlega á sér heimildir. Ekki leið á löngu þar til hún fann „ástina“ á ný enda smellpassaði Jasmine inn í fagran heim stjórnmálamanns sem ætlaði sér stóra hluti í pólitík innan fárra ára. Hann var vel menntaður og keyrði um á eyðimerkurlituðum BMW sem var í sama lit og síðbuxurnar hans.

Eina skrautfjöðrin sem hann vantaði var glæsileg kona sem hann gæti haft sér við hlið í komandi kosningum. Því miður fokkaðist þetta aðeins upp – eins og gerist yfirleitt í raunveruleikanum en ekki bíómyndum...