c

Pistlar:

9. september 2014 kl. 18:56

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Martröð hvers morguns ...

Glundroðinn sem ríkir á heimilinu frá því vekjaraklukkan hringir og þangað til allir eru komnir út í bíl á morgnana getur verið við hættumörk. Stundum líður húsmóðurinni á heimilinu eins og fjölskyldan sé að taka þátt í raunveruleikaþætti og það eina sem vanti í þetta prógramm sé að mesta dólgnum sé hent út vikulega...

Aðalbaráttumálin í glundroðanum eru ekki um hvað eigi að vera í morgunmat eða að einhver komist ekki fram úr vegna ofsaþreytu. Það er heldur enginn unglingur á heimilinu sem teppir baðherbergið þannig að hinir komist ekki að. Heldur snýst þetta um hver eigi að klæðast hverju. Ég tek það fram áður en lengra er haldið að vandamálið á ekki við um móðurina sjálfa (hún hendist í það sem hendi er næst og málar sig á leiðinni í bílnum (eins og konur eiga ekki að gera...)). Vandamálið eru einkasynirnir tveir og helsti fréttapunkturinn í þessu máli er að annar er fimm ára og hinn er að verða átta.

Einhvern veginn bjóst ég alls ekki við því þegar ég eignaðist þessa drengi að fatavandamál yrðu í forgrunni enda hélt ég að stúlkur ættu einkarétt á þeim. Og það skal líka tekið fram að móðir drengjanna hefur gert allt sem í hennar valdi stendur til að hafa áhrif til góðs en hugmyndir hennar og hugmyndir drengjanna slá ekki í takt.

Ef móðirin fengi að ráða myndu einkasynirnir vera klæddir eins og litlir breskir „landlordar“ alla daga. Þeir væru í handprjónuðum ullarpeysum út í eitt, í flauelsbuxum eða ullarbuxum með broti og næst sér væru þeir í straujuðum skyrtum þannig að stífur kraginn gægðist upp úr hálsmálinu. Yfir herlegheitin væru þeir svo í huggulegum Barbour-jökkum og í Hunter-gúmmístígvélum. Þetta yrði svo toppað með höfuðfati og köflóttum trefli.

Móðirin hefur beitt persónutöfrunum, reynt að tala til, leiðbeina og ræða fataval við drengina en það virðist ekkert hagga þeim. Þeir gera sér aldeilis enga grein fyrir því hversu mikil smekkkona móðir þeirra er. Fyrir þeim er hún bara konan með stóru mjúku brjóstin sem eldar góðan mat, les sögur fyrir þá, umvefur þá ást og hlýju og keppir við þá í kafsundi í Neslauginni.

Auðvitað er þetta fatamál algert lúxusvandamál en það getur verið dálítið þreytandi til lengdar að horfa upp á fjársjóðinn sinn eins og hann sé kominn í handrukkaraskólann. Alltaf í hettupeysum...

Eini jákvæði punkturinn við hettupeysuna, það er að segja þegar hettan er höfð uppi alla daga, er að hún veitir ágætis vörn við lús. Skólinn var nefnilega varla byrjaður þegar lúsapóstunum var farið að rigna inn.

Miðað við glundroðann sem ríkir þá má enginn við því að þurfa að sótthreinsa heimilið líka og snúa öllu á hvolf til að uppræta þetta litla sníkjudýr. Kamburinn er því hafður á lofti og kannski gengur móðirin bara skrefinu lengra og krúnurakar þá. Sú hárgreiðsla myndi allavega passa við klæðaburðinn...