c

Pistlar:

17. september 2014 kl. 10:36

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Má bjóða þér akkeri á upphandlegginn?

lindex11111_1246139.jpgTískuinspírasjón vikunnar kemur frá franska tískuhönnuðinum Jean Paul Gaultier sem ég hitti í Gautaborg í tilefni af 60 ára afmæli sænska móðurskipsins Lindex. Hin vandaða sjómannsdóttir sem ég er hefur náttúrlega alltaf haft smekk fyrir þverröndóttum fötum og keypt þau í ýmsum útgáfum í gegnum tíðina. Reyndar hefur aldrei verið splæst í original Gaultier heldur meira verið að vinna með einhverjar bónusútgáfur. Í flestum tilfellum hafa þetta verið efri partar í bolaformi og jafnvel peysuformi og ekki hefur það nú þótt verra ef gulltölur hafa fengið að fljóta með. Til þess að kóróna allt hafa varirnar verið málaðar rauðar og hárið krullað af hjartans lyst.

Með þverröndóttum efri parti má komast alveg hálfa leið til borgar ástarinnar – Parísar, þar sem goðið sjálft ólst upp og hefur alið manninn síðan. Á mínum sokkabandsárum kom Jean Paul Gaultier með ilmvatnslínu fyrir dömur og herra sem varð svo vinsæl að nánast allir strákar á Íslandi á aldrinum 15-45 ára lyktuðu eins. Þetta gerði ástarlíf unglingsáranna dálítið flókið því vísindin halda því fram að lyktarskynið stýri makaleit mannfólksins. Þegar búið var að baða alla drengina upp úr sama kölnarvatninu vandaðist málið. Ég ætla nú ekki að fara að kenna þessum dásamlega herrailmi Gaultier um klúðrið sem fylgdi ástarlífi unglingsáranna...en samt. Þetta villti dálítið sýnina og gerði hana þokukennda á köflum. Stundum varð glundroðinn í þessu öllu við hættumörk, en það er nú sem betur fer liðin tíð.

Í Gautaborg þar sem stórafmæli sænska móðurskipsins var haldið sýndi Gaultier línuna sem væntanleg er í verslanir hinn 8. október. Allt ætlaði um koll að keyra þegar hann mætti sjálfur, rétt eins og salurinn væri staddur á tískuvikunni í París. Heimsfrægir tónlistarmenn sungu á meðan flottustu tískusýningarpæjurnar löbbuðu eftir pöllunum. Á fremsta bekk sátu svo helstu tískupæjur veraldar og tóku „selfie“ í gríð og erg eins og er svo afar móðins núna.

Þessi lína er merkileg að því leytinu til að þetta er í fyrsta skipti sem Gaultier hannar línu fyrir eitthvert annað fyrirtæki en sitt eigið. Hann fylgdist náið með framleiðsluferlinu sem gerir það að verkum að gæðin eiga ekki að vera lakari en í hans eigin tískuhúsi (jafnvel þótt fötin í Lindex-línunni kosti bara brot af því).

Auðvitað eru rendurnar á sínum stað í sinni tærustu mynd, hvítt og blátt með gulltölum en svo sýnir hann víðsýni með því að nota ljósan grunn við svartar renndur í nokkrum flíkum, eins og jökkum, peysum og stórum kápum sem eiga eftir að setja svip sinn á haustið. Madonnu-toppur með pýramídabrjóstahaldara er eitthvað sem kvenpeningurinn á eftir að elska og svo má ekki gleyma húðflúrlínunni hans Gaultiers sem kemur líka hinn áttunda. Þar er húðflúrmunstur stimplað á húðlitað þunnt efni og úr þessu eru búnir til kjólar og bolir. Þetta minnir svolítið á árshátíð húðflúrarafélagsins sem haldin var í Hörpu – bara aðeins meira classy.

Ég hef örugglega einhvern tímann skrifað um það að maður setji ekki límmiða á Ferrari og það sama eigi við um myndir og mannslíkama. Með árunum hefur umburðarlyndi mitt fyrir fólki þó aukist til muna og finnst mér að hver megi bara vera eins og hann er. Ef fólk langar í húðflúr þá bara fær það sér húðflúr og ekki orð um það meir.

Eftir að hafa spurt húðflúrað fólk út í myndirnar hef ég nefnilega komist að því að það er alltaf einhver saga á bak við þær og það finnst mér áhugavert.

Með þessu frjálslyndi mínu verð ég öruggleg komin í húðflúrbol í byrjun annarrar viku í október og svo veit maður bara aldrei hvert lífið leiðir mann. Sem hreinræktuð sjómannsdóttir lægi náttúrlega beinast við að fá sér myndarlegt akkeri á upphandlegginn nú eða íslenska fánann og skjaldarmerkið. Þetta er náttúrlega hvorttveggja það töff að ég ætti erfitt með að velja...svona fyrst maður er búinn að opna á þetta á annað borð...