c

Pistlar:

4. febrúar 2016 kl. 10:42

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Sue Ellen bjargar málunum

Kaffifélagi smáhestsins var örlítið bugaður í vikunni. Hann hafði gert þau hræðilegu mistök að stíga á vigt rétt fyrir áramótin, sem allir með meðal IQ vita að er glórulaust rugl. Hann komst sem sagt að því að hann var við það að komast í þriggja stafa tölu. Það er auðvitað ekkert að því að vera 100 kg en þessi félagi minn var ekki á því að þetta væri að klæða hann nægilega vel. Með sinn slánalega vöxt höfðu kílóin einhvern veginn safnast um hann miðjan og þar sem hann var að verða eins og myndarlegt Þ í laginu ákvað hann að grípa í taumana (svona áður en hann hætti að geta horft með eigin augun á eitt mikilvægasta líffæri líkamans).

Í stað þess að fara í hefðbundið janúar-átak eins og svo margir, mæta oftar í ræktina og borða minna, ákvað hann að taka allt annan snúning á þynninguna. Hann hætti að drekka vín, skipti kjöti út fyrir grænmeti , henti öllum sykri út úr mataræðinu og kvartaði svo sáran yfir því hvað lífið væri ægilega leiðinlegt. Mæðulega sagði hann smáhestinum frá því að hann gæti bara ekki beðið eftir 1. febrúar. Þá myndi lífið hefjast á ný með kjötáti og hóflegri rauðvínsdrykkju. Hann var meira að segja að hugsa um að flýta komu fyrsta febrúar um tvo daga og byrja bara í sínum eðlilega lífsstíl nú um helgina. Það kæmi smáhestinum því ekki á óvart ef hann hefði sést á Ölstofunni í gærkvöldi ...

Þetta tal um áfengi og áfengisleysi minnti smáhestinn á eina mestu fyllibyttu samtímans, hina stórkostlegu Sue Ellen. (Svona svo það valdi ekki misskilningi þá á kaffifélaginn ekki við áfengisvandamál að stríða.) Sue Ellen passaði sig hinsvegar vel á því að drekka helst ekki neitt nema hreinan vínanda og hún gætti þess vel að dreifa drykkjunni vel yfir daginn. Það ku nefnilega vera hollara að drekka á morgnana en á kvöldin því heilsufarslega séð er afar óheppilegt að taka inn allt þetta hitaeiningamagn rétt fyrir svefninn, þar að segja ef drukkið er um kvöld. Skást væri að drekka á morgnana eða í hádeginu. Þá hefði líkaminn allan daginn til að vinna úr áfenginu.

Og af hverju er smáhesturinn að tala um Sue Ellen núna? Jú, vegna þess að vortískan er svo ferlega mikið í anda hennar. Í klæðaburði Sue Ellen var áherslan yfirleitt á mittislínuna, sem gerir einhvern veginn alltaf örlítið meira fyrir kvenpeninginn. Eftir tryllt 90‘s áhrif í tískunni kemur þessi „seventís-Sue-Ellen-tryllingur“ eins og himnasending fyrir þær sem vilja vera kvenlegar. Það klæðir yfirleitt mun betur að girða efri part ofan í neðri part í stað þess að hafa allt vítt og flaksandi.

Sue Ellen var mikið í síðbuxum sem náðu upp í mittið, sem var alveg með ráðum gert. Um leið og buxur ná alveg upp í mittið virðumst við hærri og spengilegri.

Ein af lykilflíkum vorsins hjá Lindex er gyðjublússa með púffermum. Þær sem vilja bæta smá Sue Ellen í líf sitt ættu að skoða þennan möguleika. Við gyðjublússuna má líka vera í pilsi sem nær upp í mitti og stýrir hæð og vöxtur því í hvaða sídd pilsið er. Þær sem eru í sömu sporum og kaffifélagi minn var á milli jóla og nýárs verða líka að muna að það klæðir af okkur að girða ofan í og sýna kvenlegar línur. Það er nefnilega alveg dottið úr tísku að fela sig inni í allt of stórum fötum ...