Pistlar:

5. desember 2016 kl. 14:13

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Stórhættuleg hátíðahöld

Vr hitti naglann á höfuðið fyrir nokkrum árum í auglýsingum sínum um hvíldartíma starfsfólks í desmber. Fólkið í auglýsingunum sofnaði ofan í súpuna á aðfangadag og var andlega fjarverandi í vinnunni eins og gerist þegar fólk ofkeyrir sig. Allt var þetta sett upp á kómískan hátt eins og þetta væri gamanmál – sem það var og er ekki. Stundum þarf þó að nota húmorinn til að ná í gegn því húmor er eitt beittasta vopnið.

Fyrrnefndar auglýsingar hittu mig í hjartastað því þær voru eins og skyggnilýsing á mínu „fyrra“ lífi. Ég man nefnilega varla eftir mér öðruvísi en vinnandi frá mér allt vit í desember. Peningagræðgin stýrði þessu náttúrlega á yngri árum þegar beðið var í ofvæni eftir að klára jólaprófin til þess að komast í að afgreiða fólk sem var að jólastressa yfir sig. Seinna vann ég í tískuvöruverslun og náði stuð ársins þar hámarki í desember – sérstaklega á Þorláksmessu. Það var alger veisla að bjarga jólum villuráfandi eiginmanna sem vissu ekki hvort þeir voru að koma eða fara. Þegar ég í sakleysi mínu spurði mennina hvernig konan í lífi þeirra liti út og hvaða smekk hún hefði fékk ég undantekningalaust þau svör að konan væri svipuð mér – nema svo bættu þeir við að konan væri með stærri eða minni brjóst. Í tæplega tvo áratugi hef ég unnið í fjölmiðlum og það slokknar náttúrlega ekkert á þeim þótt það komi jól. Sem gerði það að verkum að ég var yfirleitt meðvitundarlaus á sjálfum jólunum og algerlega eins og goslaust appelsín.

Eftir að móðurhlutverkið bættist við önnur störf breyttist margt. Þá blossaði upp sú þrá að „allt“ væri fullkomið. Flottustu börn í heimi máttu náttúrlega ekki líða neinn skort og það sem ég áttaði mig ekki á þarna (á sokkabandsárum móðurhlutverksins) var að þessi fullkomnunarárátta er lífshættuleg og tilgangslaus ef út í það er farið.

Streita er samspil ýmissa þátta eins og taugakerfis, heila og hormónakerfis líkamans. Streita hefur því áhrif á viðbrögð, lífefnalegt jafnvægi og mannleg samskipti. Streita getur líka valdið sjúkdómum eins og þunglyndi og verið vond fyrir kransæðakerfið.

Það að keyra sig út til þess að hlutirnir líti út á ákveðinn hátt er galið og það kemur alls ekkert gott út úr því. Það má líka velta fyrir sér hvaða maður vill eiga úttaugaða og hundleiðinlega konu sem er buguð af jólastressi og fullkomnunaráráttu. Körlum er nefnilega yfirleitt slétt sama um jólaskreytingar og almennt jólastuð.

Sem betur fer horfir allt til betri vegar. Aldurinn er að færast yfir og þessi móðir veit, því hún er alveg að verða 40 ára, að sumt er bara ekki hægt að mastera meðfram fullri vinnu. Þess vegna hefur skylduverkefnum fækkað, sem hefur aukið lífshamingjuna um allavega nokkur prósent.

Eitt dæmi. Ég var ein af þeim sem sendu alltaf jólakort. Þetta byrjaði sem krúttlegur jólasiður en eftir að tengslanetið varð eins og seðlaveski Donalds Trump varð þetta eins og snjóbolti sem byrjar að rúlla. Eins og með flest í lífinu voru jólakortin masteruð og ekki var boðið upp á lágkúruleg kort með stöðluðum texta heldur fékk hver og einn handskrifaða snilld frá þessari fullkomnu (og buguðu) húsmóður. Eins skemmtilegt og það er að fá sniðug jólakort var þessi jólakortasiður minn mun meira streituvaldandi en hitt.

Eins þrjósk og ég er var þessum sið ekkert hætt fyrr en þetta var orðið svo dýrt að heimilisbókhaldið leyfði það ekki lengur. Af fjárhagslegum ástæðum kvaddi ég jólakortin – alls ekki vegna streitu eða bugunar. Og það kom verulega á óvart hvað þessi siður hafði tekið mikinn tíma og mikinn toll. Skyndilega hafði ég miklu meiri tíma í desember og gat því gert eitthvað uppbyggilegt með mínum uppáhalds.

Það eru samt ákveðin vonbrigði að ég skyldi ekki fá símtöl frá grátandi vinum sem voru miður sín yfir jólakortaleysinu.

Ef við gefum okkur það að við fáum góð 70 ár á lífi, ef við erum heppin, er alveg glórulaust að lifa einn mánuð á ári með hjartað í buxunum af stressi og vanlíðan yfir því að vera ekki að gera hlutina rétt. Fólk með fulla greind getur ekki boðið sjálfu sér upp á það.

Marta María Jónasdóttir

Marta María Jónasdóttir

Fréttastjóri dægurmála á mbl.is, martamaria@mbl.is Meira