c

Pistlar:

16. desember 2019 kl. 11:24

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Þegar óheiðarleikinn fann sér farveg

Í vikunni var það í fréttum á Smartlandi að íþróttakonan Jane Slater hefði komist í hann krappan þegar hún áttaði sig á því í gegnum snjallúr að þáverandi kærasti hennar væri að halda framhjá henni. Þessi þáverandi kærasti hafði gefði henni FitBit-snjallúr í jólagjöf og tengdu þau úrin saman svo þau gætu fylgst með framförum hvort annars á íþróttasviðinu í gegnum tæknina.

En svo kom að því að kærastinn var vant við látinn og ekki heima en hún vaknaði við það um nóttina að úrið hans sýndi mikil líkamleg átök. Í kjölfarið komst hún að því að hann var ekki á hlaupabrettinu um miðja nótt heldur í samförum með annarri manneskju.

Það er náttúrlega alveg botninn að láta halda framhjá sér og þess vegna skilaði Slater þessum vesalings kærasta við fyrsta tækifæri.

Það sem er áhugavert við þessa frásögn, sem Slater deildi á Twitter, er að þetta er að gerast úti um allan heim og líka í öllum hverfum Reykjavíkur og um land allt.

Það er til dæmis mjög vinsælt hjá fólki að tengja saman síma og tölvur í gegnum icloud. Þannig geta allar myndir farið á sama stað og þótt eitt tæki hrynji er til bakköpp svo dæmi sé tekið. Þetta icloud getur þó verið stórhættulegt ef fólk er ekki með heiðarleikann að leiðarljósi. Og þeir sem verða undir icloud-valtaranum hafa oft haft það betra.

Það var til dæmis ekkert sérlega gaman hjá hjá eiginmanninum sem fór í frí með börnunum sínum. Eiginkona mannsins var ekki með í för því hún þurfti að „vinna“ og gat því ekki farið í þessa hamingjuríku fjölskylduferð. Maðurinn og börnin voru svona líka peppuð og glöð eða þangað til þau settust öll saman uppi í sófa og spjaldtölvan var opnuð. Það fyrsta sem þau sáu var mynd af mömmu með öðrum manni. Mamma hafði sem sagt ákveðið að hlaða í nokkrar sjálfur með viðhaldi sínu meðan eiginmaður og börn fóru úr landi. Hjónin skildu stuttu síðar.

Svo var það konan sem átti fína manninn sem þurfti að vera ógurlega mikið í útlöndum „vegna vinnunnar“. Allt gekk þetta vonum framar þangað til spjaldtölva mannsins fór að pípa hægri vinstri og sambýliskonan gat ekki horft á sjónvarpið fyrir látum. Þegar hún tók spjaldtölvuna upp áttaði hún sig á því að fíni maðurinn hennar var að skrifast á við vændiskonu í hinni virtu vinnuferð. Hann varð einhleypur fljótlega eftir að hann kom heim.

Eitt er að halda framhjá og láta koma upp um sig með hjálp tækninnar en annað er að vera markalaus á netinu. Um daginn heyrði ég af fyrirtæki sem ákvað að búa til gerviprófíl á einum samfélagsmiðlinum til að geta haldið betur um ákveðin mál og fengið skýrari sýn á hvað væri að gerast þarna úti í hinum stafræna heimi. Fyrirtækið þóttist vera ung og frekar sæt kona með stór brjóst. Og hvað gerðist næst? Jú, helstu pervertar þessa lands vildu vera vinir hennar. Þessir pervertar eru náttúrlega ekki sérmerktir eða hafa fengið dóma heldur eru þetta oft bara venjulegir fjölskyldumenn og jafnvel borgaralegir menn sem við hin höldum að séu með allt á hreinu. Lifi jafnvel aðeins betra lífi en við hin.

Þegar sæta stelpan með stóru brjóstin „átti afmæli“ fékk hún endalausar afmæliskveðjur frá klappliði sínu sem hún hafði reyndar aldrei hitt því hún var bara búin til að venjulegum rykföllnum skrifstofumaurum.

Gleðileg jól!