c

Pistlar:

3. apríl 2020 kl. 11:18

Marta María Jónasdóttir (martamaria.blog.is)

Ég lifi í voninni!

Leið þér eins og þú værir komin/n í viðbjóðslegt stofufangelsi þegar þríeykið Alma, Víðir og Þórólfur, tilkynnti að best væri að fólk héldi sig innandyra um páskana?

Þetta minnti svolítið á atriði úr Áramótaskaupinu 1984 þegar Gísli Rúnar Jónsson og Edda Björgvinsdóttir sátu í baststólum inni í stofu og voru gjörsamlega að missa lífsviljann í verkfallinu sem geisaði það herrans ár. Þessi óhamingjusama fjölskylda vissi ekkert hvað hún ætti að gera af sér enda var ekkert mbl.is á þeim tíma og engir samfélagsmiðlar þar sem fólk getur verið andlega fjarverandi sólarhringum saman án þess að skaðast mjög mikið. Þegar Björgvin Frans Gíslason, sem lék annað barnið í þessu atriði, stakk upp úr því að fjölskyldan færi í bíltúr hreytti pabbinn því út úr sér að þau gætu nú ekki eytt síðustu bensíndropunum. Móðirin stakk þá upp á því að þau myndu tala saman og þá ragnhvoldi unglingurinn í sér augunum og spurði: „Um hvað?“ Og svo þusaði pabbinn þessi ósköp yfir því að hafa keypt brauðrist fyrir síðustu peningana því það hefði verið mun gáfulegra að fjárfesta í myndbandstæki. Sem var líklega rétt hjá honum. Hver vill ristað brauð þegar þú getur horft á vídeó og fengið ferköntuð augu?

Við getum huggað okkur við það að það er ekki komið útgöngubann og við getum gert alls konar þótt við sitjum uppi með hvert annað. Við getum eytt síðustu bensíndropunum og jafnvel fyllt á tankinn ef við erum ennþá með vinnu. Á meðan þú rúntar um bæinn gætir þú farið í vondulagakeppni með þeim sem rúnta með þér. Það þarf reyndar ekkert samkomubann til þess að ég leiki þennan leik við syni mína tvo sem sökkva ofan í sætin á bílnum þegar ég byrja að syngja með Stjórninni eða set Rhinestone Cowboy í botn en þann smell gerði Glen Campell ódauðlegan 1975. Ég bendi þeim á að þetta sé fylgifiskur þess að vera með tónlistarsmekk sem hefur þróast lítið síðan í 12 ára bekk og þeir verði bara að lifa við þessi hræðilegu örlög.

Að vera miðaldra og hallærislegur er eitthvað sem flestir foreldrar ganga í gegnum og örugglega miklu skárra að spila gömul lög en þykjast vera rosa töff og spila bara Emmsjé Gauta eða Herra Hnetusmjör.

Fólk tekur samkomubanninu misvel enda reynir ástandið sem nú ríkir á okkur öll. Veiran spyr hvorki um stétt né stöðu, en það er í okkar valdi hvort þessi tími verði alger hörmung eða bara ágæt áminning um að við eigum að vera þakklát fyrir það sem við höfum.

Vinkona mín veiktist fyrir tæplega ári og var kippt út úr borgaralegu samfélagi um stund. Eftir að hafa setið uppi með sjálfa sig í um níu mánuði hrakti hún þá kenningu að þú hefðir ekkert ef þú hefðir ekki heilsuna. Hún sagði að hún hefði nefnilega alltaf sjálfa sig og leiddist aldrei með sér sama hvernig ástandið var. Fleiri ættu að taka þessa góðu vinkonu mína sér til fyrirmyndar. Mesta áhyggjuefni hverrar manneskju hlýtur að vera að geta ekki verið ein með sér án þess að drepast hreinlega úr leiðindum.

Í svona ástandi, þegar mikið reynir á, sýnir sig svolítið úr hverju fólk er gert. Þeir sem hafa upplifað raunveruleg áföll í lífinu og þurft að takast á við þau vita hvaða verkfæri þarf til þess að láta sér líða betur. Hinir sem hafa flotið um á vindsæng með sólgleraugu og silfurskeið í munni eru kannski ekki eins færir en þeir munu læra.

En hvað getum við gert til þess að eiga betra líf í aðstæðum sem þessum? Ég mæli innilega með því að fólk komi sér upp dagbók og komi hugsunum sínum í orð. Gott er líka að skrifa niður vonir og væntingar og gera lista yfir það sem gleður okkur á hverjum degi. Það er alltaf hægt að finna eitthvað!

Flestir komast að því á svona tímum að það eru ekki dauðu hlutirnir sem létta okkur lífið og gera tilveru okkar frábærari heldur það að geta talað við annað fólk. Páskarnir eru því frábær æfing í því að reyna bara að vera létt/ur sama hvað á dynur og nýta tæknina til að heyra í þeim sem okkur þykir vænt um. Og svo getur þú alltaf sett lagið, Ég lifi í voninni, með Stjórninni í spilarann og sungið eins hátt með og þú getur. Þú munt gleyma stund og stað og ekki ranka við þér fyrr en lagið klárast.

Gleðilega páska!