c

Pistlar:

30. júní 2018 kl. 16:55

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ólíkar leiðir til fjármögnunar samgönguinnviða

Fyrir stuttu var haldin norræna ráðstefna í Helsinki um ólíkar leiðir til fjármögnunar samgönguinnviða á Norðurlöndunum. Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, sótti ráðstefnuna en að öðru leyti hefur farið lítið fyrir henni í umræðu hér heima. Þó blasir við að uppbygging samgönguinnviða og þá um leið fjármögnun þeirra er eitt af mikilvægustu úrlausnarmálum næstu ára. Brýnt er að efla samgöngur hér á landi, bæði til að tryggja öryggi vegfarenda en einnig til að efla hagvöxt, bæði á landsvísu og svæðisbundið. Það má nefna það í framhjáhlaupi að nú eru Austfirðingar án efa að upplifa mikinn uppgang og samleigð í sínum samgöngum, þökk sé Norðfjarðargöngum. Þá telur pistlaskrifari að engin vafi sé á því að Vaðlaheiðargöng muni skapa mikið hagræði á Norðausturlandi og efla atvinnu- og mannlíf. Það er mikilvægt að halda áfram gerð jarðgangna þar sem þeirra er þörf.vegur

Áðurnefnda ráðstefnu sóttu fulltrúar Norðurlandanna; auk samgönguráðherra Íslands, Noregs og Finnlands, sem var gestgjafi, sóttu hana embættismenn, forystumenn úr atvinnulífinu og háskólasamfélaginu. Fjallað var um leiðir sem unnið er að á hinum Norðurlöndunum, gjaldtöku af einstaka mannvirkjum, tímagjald og útfærslur af blandaðri fjármögnun, þ.e. hefðbundinni fjárveitingu hins opinbera og gjaldtöku. Þá var einnig rætt um hvernig samþætting samgangna og fjarskipta geti aukið virðisaukandi þjónustu og umferðaröryggi. Í því sambandi var bent á mikilvægi þess að gögn séu eins aðgengileg og kostur er – til hagsbóta fyrir alla.

Nauðsynlegt að endurhugsa fjármögnunarleiðir í samgöngumálum

Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að finnski samgöngu- og fjarskiptaráðherrann, Anne Berner, bauð til ráðstefnunnar til að ræða þá stöðu sem öll Norðurlöndin standa frammi fyrir varðandi fjármögnun og viðhald samgönguinnviða til framtíðar. Markmiðið var að koma af stað umræðu landanna á milli hvernig best sé að endurhugsa fjármögnunarleiðir í samgöngumálum þannig að þær skili mestum ávinningi fyrir samfélagið.

Sigurður Ingi sagði í ávarpi sínu að mikilvægt væri að líta ekki aðeins til fjárfestingar í samgöngumannvirkjum heldur einnig til þess hvernig fjármagna skuli rekstur þeirra og viðhald. Sagði samgönguráðherra Íslendingar myndu líta til Norðurlandanna á þessu sviði og nýta sér reynslu þeirra. Hægt er að taka undir með ráðherra að við stöndum á krossgötum umbreytinga og því sé nauðsynlegt að ræða framtíðarstefnu um fjármögnun vegakerfisins með opnum huga. Þrátt fyrir auknar fárveitingar til vegamála dugi þær ekki til alls þess viðhalds og uppbyggingar sem nauðsynlegt sé að fara í. Ráðherra hefur ákveðið að setja á laggirnar starfshóp til að koma með tillögur um hvernig flýta megi uppbyggingu greiðra og öruggra samgöngumannvirkja til að mæta auknu álagi á einstaka leiðum. Það er án efa mikilvægt.

Samgöngur og samfélagsuppbygging

Hér hefur í nokkur skipti verið bent á mikilvægi Sundabrautar, ekki eingöngu sem samgöngumannvirki - sem myndi eitt og sér réttlæta lagningu hennar, heldur ekki síður mikilvægi hennar þegar kemur að byggðaþróun. Það er þáttur sem gleymist oft þegar samgöngumannvirki eru þróuð. Í Kína hörfa menn nú mjög til samgangna við innviðauppbyggingu og ráðast þar í stærri og víðfeðmari verkefni en við höfum séð lengi. Slík verkefni var ráðist í í Þýskalandi eftir báðar heimsstyrjaldirnar og sömuleiðis hafði lagning hraðbrauta milli fylkja í Bandaríkjunum gríðarleg áhrif á samfélagsuppbygginguna þar á sjötta áratugnum.

Norrænu ráðherrarnir voru sammála um gildi þess fyrir Norðurlöndin að leita saman að bestu lausnunum þar sem samgönguinnviðir landanna eigi svo margt sameiginlegt. Ákveðið var að halda umræðunni áfram; það sé til mikils að vinna. Undir það verður tekið.

Það skal tekið fram að þau viðhorf sem birtast í þessum pistli eru eingöngu höfundar og á hans ábyrgð.