c

Pistlar:

11. ágúst 2020 kl. 20:31

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Veiran - einkarekin varnarlína

Það hefur verið merkilegt að fylgjast með aðkomu Íslenskrar erfðagreining að íslenska heilbrigðiskerfinu það sem af er þessu ári. Kári Stefánsson, forstjóri fyrirtækisins, gerir þetta að umræðuefni í pistli á facebook-síðu sinni í dag en ég ætla ekki að þreyta lesendur á því að rekja öll skrif hans eða samskipti við heilbrigðiskerfi en vissulega hafa menn mátt undrast stundum hve snautlega heilbrigðisráðherra hefur brugðist við og þannig á köflum gert lítið úr starfi fyrirtækisins. Það er nú ekki svo að leiðsögnin eða stefnumótunin hafi verið skýr þaðan undanfarið.kari

En Kári upplýsir semsagt í dag að Íslensk erfðagreining er búin að skima eftir SARS-CoV-2 veirunni (stuðst við rithátt Kára og WHO) í um það bil hundrað þúsund einstaklingum án þess að fá greitt fyrir það eina krónu. „Við gerðum þetta að eigin frumkvæði vegna þess að heilbrigðiskerfið okkar bjó ekki yfir getu til þess að sinna verkefninu,“ segir Kári en óhætt er að segja að hann og fyrirtækið hafi verið mjög virkur þátttakandi í öllu ferlinu frá því veiran kom til landsins. Fyrir það hljóta landsmenn að þakka því augljóslega hafa heilbrigðisyfirvöld hér á landi verið vanbúin á margan hátt, þó ekki sé verið að líkja þessu við vinnubrögð Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO sem var gerð að umræðuefni hér á vormánuðum.

En gefum Kára aftur orðið: „Strax í byrjun mars var ljóst að heilbrigðiskerfið væri vanbúið til þess að skima eftir veirunni en gerði ekkert til þess að efla getu sína á því sviði. Það pantaði til dæmis ekki þau tæki sem voru fáanleg þá og hefðu getað gert því kleift að höndla verkefnið miklu betur og svo sannarlega að taka við skimun á landamærum þann 15. júní.“ Það hlýtur að vera sérstakt að lesa þetta en kemur heim og saman við upplifun þeirra sem fylgst hafa með málinu því það var eins og heilbrigðiskerfið teldi að það væri búið að útvista stórum hluta ferilsins til Íslenskrar erfðagreiningar. Og það án þess að vera í almennilegu samráði við fyrirtækið. Þetta var auðvitað fráleit tilætlunarsemi sem sést vel í næstu orðum Kára.

Gáfu Landspítalanum búnaðinn

„Við undirbúning að skimun á landamærum lítur út fyrir að stjórnvöld hafi gengið að því sem gefnu að ÍE myndi sjá um hana. Þess ber að geta að þegar kom að því að byrja skimunina á landamærum hafði ÍE vanrækt dagvinnu sína í meira en þrjá mánuði og átti undir högg að sækja þess vegna. Engu að síður tók ÍE að sér að byrja skimunina og sá um hana alfarið í tvær vikur og hjálpaði Landspítalanum að taka við henni með því að þjálfa fyrir hann átján starfsmenn og gefa honum heimasmíðaðan hugbúnað sem er algjör forsenda þess að spítalinn geti sinnt verkefninu.“

Kári segir alrangt að þeir hjá ÍE hafi hlaupist á brott eins og sumir hafa verið að ásaka fyrirtækið fyrir og er tilefni pistils hans. „Við afhentum Landspítalanum það sem hann þurfti til þess að sinna því hlutverki sem honum var ætlað en ekki okkur. Við höfum hins vegar haldið áfram að raðgreina veiruna úr öllum sem greinast með hana vegna þess að getan til þess að gera það leynist ekki annars staðar í landinu. Raðgreiningin hefur reynst nauðsynleg til þess að rekja smit. Svo er það staðreynd að tæknilega hefur skimun á landamærum gengið vel og ekki síður hjá Landspítalanum en okkur. Nokkrir sýktir einstaklingar hafa komist í gegn án þess að veiran fyndist en í öllum tilfellum hefur verið hægt að koma í veg fyrir mikla útbreiðslu utan einu. Það er smit af veirunni með mynstur stökkbreytinga sem er mjög sjaldgæft og gæti ekki verið frá einu af „öruggu“ löndunum sem eru undanþegin skimun. Sem sagt ÍE hætti ekki skimun á landamærum fyrr en hún var búin að sjá til þess að Landspítalinn gæti tekið við að skima í sama magni og af jafn miklum gæðum.“

Það er ekki ætlunin að elta ólar við hið opinbera heilbrigðiskerfi, þar starfar auðvitað margt gott fólk og mikið og gott starf unnið, skárra væri það, þangað er fjármununum beint. Engin hefur gert meira en Kári til að ýta á eftir því að Íslendingar verji hærra hlutfalli landsframleiðslunnar til heilbrigðiskerfisins. Um leið hafa fáir afhjúpað jafn rækilega hve óskilvirkt hið opinbera heilbrigðiskerfi er. Það sást ágætlega þegar hann gaf jáeindaskanna til Landspítalans og varð að lokum að gefa húsnæði undir hann líka. Allt starf spítalans í því máli einkenndist af vandræðagangi. Á upphafsdögum veirunnar komu mörg einkarekin fyrirtæki á Íslandi til hjálpar og útveguðu nauðsynlegan búnað, á undan hinum opinberu innkaupaleiðum. Þetta var gert til að hjálpa til og var ómetanlegt segja þeir sem þekkja til.

Og talandi um viðbragðsflýti. Það er athyglisvert að sjá að heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að boða til samráðsvettvangs í formi vinnustofu þann 20. ágúst næstkomandi um veiruna! Þá á veirufræðideild Landspítalans von á nýrri greiningarvél í október. Það gerist allt á ógnarhraða hjá ríkinu gæti einhver sagt.