c

Pistlar:

14. júlí 2021 kl. 17:06

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Er franska lýðveldið í hættu?


Frakkar halda uppá þjóðhátíðardag sinn í dag, Bastilludaginn, en þá minnast Frakkar árásarinnar á Bastilluna í Frönsku byltingunni 14. júlí 1789. Það eru því blóðugar skýrskotanir við daginn og talsverður sársauki fylgir minningu hans en nú eru nákvæmlega fimm ár síðan stórum vörubíl var ekið inn í mannfjölda sem var saman kominn til að fagna þjóðhátíðinni við strandgötu í borginni Nice í Suður-Frakklandi. 86 manns létu lífið og um 500 slösuðust, margir lífs­hættu­lega. Þetta er eitt mesta fólskuverk í sögu Frakklands en síðar kom á daginn að þetta var hryðjuverk sem íslamísk öfgasamtök eignuðu sér. Þarna var nýr tónn sleginn sem hefur mótað franskt þjóðlíf síðan.

Hér í pistlum hefur verið vikið að vaxandi pólitískum óróa í Frakklandi sem mun hafa áhrif á forsetakosningar sem verða í apríl á næsta ári. Núverandi Frakklandsforseti, Emmanúel Macron, stendur veikt í könnunum. Veik staða hans birtist einnig í seinni umferð kosninga til héraðsstjórna í Frakklandi sem var í lok júní. Síðustu kosningar af því tagi höfðu farið fram árið 2015, áður en Macron hafði stofnað sinn nýja flokk en talsvert hefur verið fjallað um innkomu Macron í frönsk stjórnmál hér í pistlum.macron lepen

Pólitísk óvissa

Fréttaskýrendur töldu að héraðsstjórnakosningarnar gætu gefið fyrstu marktæku vísbendingar um stöðuna og hvers mætti vænta í forsetakosningunum eftir 10 mánuði. Það er þó ekki sjálfgefið en úrslit kosninganna voru ekki gleðiefni fyrir Macron forseta eins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins benti á. Þátttaka var mjög dræm sem er auðvitað áhyggjuefni. Í fyrri umferð kusu aðeins um 33% þeirra sem voru á kjörskrá og aðeins 10% nýrra kjósenda töldu ástæðu til að kjósa. Lýðveldisfylking Macrons (LREM) fékk 11% atkvæða og rétt slapp inn í seinni umferð en til þess þurfti 10% fylgi. Fréttaskýrendur bentu eðlilega á að LREM-fylkingin hafi verið við það að þurrkast út. Það, að einungis 30% kjósenda hefðu kosið, telja margir vera lýðræðislegt áfall fyrir Frakkland. „Og það sé sláandi að helsta stjórnmálahreyfing landsins, með forseta Frakklands í broddi fylkingar, sem tók virkan þátt í báðum umferðum kosninganna skuli fá svo herfilega útreið,“ skrifaði leiðarahöfundur Morgunblaðsins. Það getur hafa verið huggun harmi gegn fyrir Macron að úrslitin voru heldur ekki takt við væntingar Marine Le Pen, formanns Þjóðfylkingarinnar, sem virðist oftar en ekki enda sem sameiginlegur óvinur allra hinna flokkanna sem takast á.

Hvað nákvæmlega brennur á frönskum kjósendum er erfitt að segja og 10 mánuðir eru auðvitað langur tími í pólitík. Frakkland með sína 5,7 milljónir múslima hefur undanfarin ár verið að fást við nýja átakafleti í samfélaginu og frönsk þjóðfélagsumræða snýst æ meira um að tryggja að samfélagsgerðin haldi og frönsk gildi séu áfram í heiðri höfð. Franska vinstrið hefur ekki viljað horfast í augu við þetta en nú bregður svo við að það vinstri menn virðast ekki eiga neinn fulltrúa til að tefla fram í forsetakjörinu að ári. Baráttan mun að öllu óbreyttu standa milli miðflokksmannsins Emannuel Macron og Marie Le Pen. Þess má geta að kristnir Frakkar eru 38 milljónir talsins og 20 milljónir bera fyrir sig trúleysi en franska lýðveldið stendur einmitt gegn sterkum trúarlegum vísunum.

Lög gegn íslam

Þann 16. febrúar 2021 samþykkti franska þingið lög sem ætlað var að hemja íslamska aðskilnaðarstefnu („Islamist separatism“). Lagasetningin kom í kjölfar umtalaðrar ræðu um veraldarhyggju sem forsetinn, Emmanuel Macron, hélt í október síðasliðnum og hefur áður verið fjallað um hér. Þar sagði hann að íslam væru trúarbrögð sem ættu við vanda að etja um allan heim (e „Islam is a religion which is experiencing a crisis today, all over the world”) og að það væri brýnt að hindra að erlend áhrif bærust inn í raði íslamista í Frakklandi.

Lagasetningin var umdeild en naut að lokum mikils stuðnings í þinginu. Segja má að Frakkar hafi verið nokkuð samstíga í aðgerðum við að stemma stigum við vaxandi öfgum með tengslum við múslimska hópa. Eftir 135 tíma umræðu voru lögin samþykkt. Emmanuel Macron fékk stuðning við frumvarpið frá 347 þingmönnum, 151 greiddu atkvæði gegn, en 65 sátu hjá.

Nokkrum dögum fyrir atkvæðagreiðsluna í þinginu sakaði Gerald Darmanin, innanríkisráðherra - flutningsmaður frumvarpsins, Marine Le Pen, í sjónvarpsumræðum um að vera „mjúk“ gagnvart róttæku íslam og sagði að hún þyrfti að taka vítamín! Það þótti mörgum fréttaskýrendum merk tíðindi.

Eftirlit með moskum hert

Í lögunum er hert mjög að þeim sem tala í nafni íslam og þá var fjárstuðningur franska ríkisins skilyrtur við þá sem styðja og viðurkenndu frönsk gildi. Þá er eftirlit með moskum, skólum og íþróttafélögum hert. Í lögunum er tekið á því ef fólk er vísvitandi að stofna lífi manna í hættu með því að veita upplýsingar um einkalíf þeirra og búsetu - betur þekkt sem „Paty lögin“. Þau eru nefnd eftir Samuel Paty, kennaranum sem var drepinn fyrir utan skólann sinn eftir að upplýsingar um hvar hann kenndi voru settar á netið. Frumvarpið styrkir aðra viðleitni Frakka til að berjast gegn öfgum, en lýtur aðallega að öryggismálum. Meðfylgjandi mynd er af Macron við kistu Paty en sjónvarpað var frá jarðaförinni um Frakkland.jarðarf

Þeirri hugmynd að franska lýðveldið sé í hættu vex fiskur um hrygg og mun án efa hafa áhrif á frönsku kosningarnar á næsta ári. Frakklandi hefur orðið að þola fjölda blóðugra hryðjuverkaárása, hætta er talin stafa af hundruðum franskra ríkisborgara sem fóru til Sýrlands á árum áður og þúsundir franskra hermanna berjast nú við öfgamenn í Malí.

Í frétt á vef Ríkisútvarpsins í tilefni tímamótanna er bent á að undanfarna átján mánuði hefur leyniþjónustu Frakklands tekist að koma í veg fyrir fimm árásir öfgamanna en sjö sinnum hefur árásarmönnum tekist ætlunarverk sitt. Frá árinu 2014 hafa tvöhundruð sextíu og fjögur farist í hryðjuverkaárásum í Frakklandi og ríflega tólf hundruð særst. Það er meira en í öðrum vestrænum ríkjum.

Því eru fáir sem trúa því að róttækur íslamismi sé að minnka. En gagnrýnendur líta einnig á lögin sem pólitískt uppátæki til að lokka hægri vænginn til miðflokks Macron fyrir forsetakosningarnar á næsta ári. Það á eftir að koma í ljós hvort það tekst.