c

Pistlar:

6. janúar 2022 kl. 18:38

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Lesið um íslenska fátækt á Tenerife

Íslendingur nýkomin á eftirlaun birti mynd af sér á Facebook nú í byrjun árs undir sólhlíf með glas af freyðivíni í hendinni og segist vera að lesa sögur Tryggva Emilssonar um fátækt. „Sat í skugga, í garði með pálmatrjám, með cava í hönd og las um harða lífsbaráttu fyrri kynslóða. Held að Tryggvi Emilsson hefði glaðst yfir því að bækur hans væru enn lesnar og að lífsgæði Íslendinga hafa aukist stórkostlega frá æsku hans,“ skrifar viðkomandi sem hefur dvalist á sólskinseyjunni Tenerife nú yfir hátíðirnar. Ég gladdist með manninum sem hafði það augljóslega mjög gott þarna í sólinni, í sex tíma flugi í hásuður frá landinu sem reyndist Tryggva og hans kynslóð nokkuð harðbýlt.fátækttt

Helsta verk Tryggva er sjálfsævisaga sem kom út í þremur bindum á áttunda áratug tuttugustu aldarinnar og fékk tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. Heiti á bókum Tryggva voru lýsandi. Fyrst kom bókin Fátækt fólk, árið 1976 og svo Baráttan um brauðið ári seinna og að lokum Fyrir sunnan tveimur árum síðar. Þessar bækur eru ágæt áminning um hvernig fólk hafði það á Íslandi ekki fyrir svo löngu síðan en segja kannski lítið um ástandið eins og það er í dag. Margt hefur breyst á Íslandi á stuttum tíma og í dag erum við líklega fremstir meðal þjóða í baráttunni gegn fátækt. Ég hef stundum gert fátækt að umræðuefni hér í pistlum eins og hún birtist í íslenskum ævisögum, þar á meðal ævisögu Óskars Jónssonar kaupmanns og sögum þeirra Gunnars Birgissonar og Birkis Baldvinssonar.

Alger örbirgð

Fátæktarhugtakið er snúið í velsældarþjóðfélagi eins og Íslandi. Alþjóðlegar hjálpar- og mannúðarstofnanir eru að fást við það sem kallað er algera örbyrgð (e. extreme poverty) sem lengst af hefur í raun snúist um að útrýma hungri. Talið er að 85% jarðarbúa lifi á 30 Bandaríkjadölum (um 3900 kr.) eða minna en 10% jarðarbúa - um 800 manns - lifa á undir 1,9 dölum á dag eða um 250 krónur. Fyrsta heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna (Sustainable Development Goals) gengur einmitt út á að útrýma fátækt fyrir árið 2030. Þegar tölur eru skoðaðar þá virðist það ekki eins óyfirstíganlegt og margur gæti haldið. Tölur sem sýna fátækt í heiminum hafa jafnt og stöðugt verið að lækka síðan 1990, ekki síst vegna uppgangs í Kína og Indlandi. Þar er mannfjöldinn mestur og breytingar þar skipta því miklu. En það er trú margra að enn sé hægt að gera betur og það sé hægt að ná árangri við að draga úr og jafnvel útrýma fátækt eða í það minnsta draga verulega úr örbirgð. Að útrýma hungri er enn mikilvægt en það vandamál byggist ekki á því að ekki sé nægur matur í heiminum enda áratugur síðan fleiri fóru að deyja úr offitu en hungri.fátækt

Hlutfallsleg fátækt hvergi minni

Tengsl efnahagslegra framfara og útrýming fátæktar sjást líklega hvergi eins glöggt og hér á Íslandi. Óhætt er að segja að hér hafi hungur verið raunverulegt vandamál fram yfir aldamótin 1900. Augljóslega breyttist afstaða landsmanna til fátæktar eftir því sem leið á 20. öldina og efnahagsleg velsæld færði okkur lífsgæði sem forfeður okkar gátu ekki látið sig dreyma um. Smám saman kallar velferðarkerfið á nýjar skilgreiningar á fátækt og þá kemur til hugtakið hlutfallsleg fátækt (e. relative poverty), hvar við stöndum í samanburðahópi. Nú bregður svo við að hlutfallsleg fátækt er hvergi minni í aðildarríkjum Efnahags- og framfarastofnunarinnar OECD en hér á Íslandi eins og kemur fram í meðfylgjandi töflu. Þegar hlutfallsleg fátækt er metin er reiknað út frá miðgildi tekna í hverju landi, en ekki heildartekna, ráðstöfunartekna eða meðaltekna. Síðan er reiknað út hversu hátt hlutfall landsmanna hefur minna en helming þeirrar upphæðar í tekjur. Samkvæmt þessu eru einungis tæp fimm prósent Íslendinga með tekjur undir helmingi af miðgildinu og flokkast þar með sem hlutfallslega fátækir. Meðaltalið í öllum aðildarríkjum OECD er hins vegar 11,1 prósent.

Reiknireglan sem stuðst er við þegar hlutfallsleg fátækt er metin gerir það að verkum að hún mun seint hverfa. Eðlilega spyrja menn sig hvort það sé eðlilegt að enn telji fólk sig þurfa á matargjöfum mannúðarstofnanna að halda í landi sem býr við svo litla fáttækt. Því er erfitt að svara en engin merki eru um að fólk svelti hér á landi. Það er eitt margra atriða sem hægt er að gleðjast yfir.