c

Pistlar:

5. ágúst 2022 kl. 11:04

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Ísland er opið fyrir innflytjendum

Í lok annars ársfjórðungs 2022 bjuggu 381.370 manns á Íslandi, 195.990 karlar, 185.290 konur og 100 kynsegin/annað. Landsmönnum fjölgaði því um 4.090 á ársfjórðungnum samkvæmt tölum Hagstofunnar. Íslendingum fjölgar hratt, en ekki vegna fæðinga. Aðeins fjórðungur fjölgunar landsmanna verður rakið til fæðinga en á ársfjórðunginum fæddust 1.070 börn, en 640 einstaklingar létust. Á sama tíma fluttust 3.600 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Fleiri hafa ekki flutt til landsins á einum ársfjórðungi frá því að Hagstofa Íslands byrjaði að birta tölur um flutninga eftir ársfjórðungum seinnipart árs 2009. Þess má geta að spár Hagstofunnar um mannfjöldaþróun hafa staðist illa.

Alls voru rúmlega 59 þúsund erlendir ríkisborgarar skráðir með búsetu hér á landi 1. júlí 2022 og eins og áður sagði fjölgaði þeim um rúmlega fjögur þúsund frá fyrsta 1. desember 2021. Fyrir þremur árum var samsvarandi tala 48.640 eða ríflega 13% landsmanna. Úkraínskum ríkisborgurum fjölgaði mest vegna stríðsins en pólskum ríkisborgurum fjölgaði um tæplega 600 og eru nú meira en 22 þúsund pólskir ríkisborgarar búsettir hér á landi. Það er tæplega 6% landsmanna.

Innflytjendur af fyrstu og annarri kynslóð fara að nálgast það að vera fimmtungur landsmanna. Þar af fyrstu kynslóðar innflytjendur um 17%. Á sumum stöðum á landinu eru innflytjendur um þriðjungur eða fjórðungur íbúa. Það má því taka undir með dr. Hallfríði Þórarinsdóttur mannfræðingi sem sagði í upphafi ársins í samtali við Mannlíf: „Í fyrsta lagi þá þurfum við heimafólk að átta okkur á þeim grundvallarbreytingum sem eru að verða á íslensku samfélagi, með aðkomu tugþúsunda fólks úr öðrum menningarsamfélögum. Fjölgun innflytjenda á Íslandi hefur verið ótrúlega hröð. Á aðeins tveimur áratugum hefur þeim fjölgað um 85% og eru nú hátt í sjötíu þúsund.“ inbnf

Nýr Akranes

Aðfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 90 umfram brottflutta, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 3.510 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Fleiri karlar en konur fluttust frá landinu. Hagstofan segir að þannig að 7.371 útlendingur umfram brottflutta hafi sest að í landinu fyrstu 6 mánuði ársins. Úkraínumenn eru innan við 1.000 þeirra. Þetta er álíka fjöldi og allir íbúar Akranes svo nærtækt dæmi sé tekið.

Frá janúar til og með apríl 2022 sóttu 877 Úkraínumenn um vernd hér á landi samkvæmt tölfræði útlendingastofnunar, fyrstu umsóknirnar bárust í febrúar 2022 eftir að Pútín gaf fyrirmæli um innrásina í Úkraínu. Fólkið sem hingað sækir leitar skjóls undan stríði. Þessa sömu mánuði leituðu síðan 265 manns frá Venesúela verndar hér og 40 frá Palestínu, hælisleitendur frá öðrum löndum voru undir 20 frá hverju landi á þessum tíma.

Vegabréf frá Venesúela

Fólksstraumurinn frá Venesúela hingað til lands vekur athygli og hefur verið rætt um hann hér áður í pistlum en yfirvöld virðast ekki velta því mikið fyrir sér. Björn Bjarnason, fyrrverandi ráðherra, bendir á það í pistli sínum fyrir stuttu að Venesúela-fólkið kemur yfirleitt fyrst til Evrópu í gegnum Madrid. Björn kemur með eftirfarandi ábendingu: „Fyrir fimm árum birtu sjónvarpsstöðvarnar CNN og CNN en Español niðurstöðu rannsóknar sem reist var á upplýsingum frá uppljóstrara um að embættismenn í sendiráði Venesúela í Bagdad, höfuðborg Íraks, seldu vegabréf og vegabréfsáritanir til fólks í Mið-Austurlöndum (einkum frá Sýrlandi, Palestínu, Íran, Írak og Pakistan) með vafasaman feril að baki, þar á meðal félaga í Hezbollah-hreyfingunni í Líbanon. Væru vegabréfin verðlögð á bilinu 5.000 til 15.000 dollara. Verðmæti þeirra fælist ekki síst í því hve handhafar þeirra gætu ferðast til margra landa án vegabréfsáritana.“ Til loka apríl höfðu 1334 sótt um vernd samkvæmt tölfræði Útlendingastofnunar. Til samanburðar má nefna að á sínum tíma komu 94 flóttamenn frá Víetnam yfir fjögurra ára tímabil.innflyt

Ísland er opið fyrir innflytjendum

Þessar tölur segja margt. Í fyrsta lagi er auðvelt að setjast að á Íslandi og útlendingar eiga greiðan aðgang hingað, hvort sem er til atvinnuleitar eða sem flóttamenn. Þegar þessar tölur eru skoðaðar er ekki hægt að segja Ísland sé á nokkurn hátt lokað land. Ísland tekur reyndar á móti mun fleiri flóttamönnum en nágranalöndin sem sum hver hafa sett miklar hömlur á móttöku nýrra flóttamanna eins og hefur verið bent á hér. Ástandið í Úkraínu kalli á tímabundna opnun enda var það grunnþáttur þegar Flóttamannastofnun SÞ var sett á fót að taka við fólki frá stríðshrjáðu svæði.

Erlent vinnuafl er okkur mikilvægt, enda hefur verið þensla á vinnumarkaði undanfarið. Engin tölfræði liggur fyrir um hvernig flóttamönnum eða hælisleitendum gengur að koma sér fyrir á íslenskum vinnumarkaði en ör fjölgun þeirra kallar á mikið af húsnæði auk margvíslegra félagslegra úrræða. Gera má ráð fyrir að kostnaður vegna hælisleitenda og flóttamanna verði mun meiri en áætlanir stjórnvalda gerðu ráð fyrir.