c

Pistlar:

7. nóvember 2019 kl. 10:30

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Nýir landsmenn og nýjar þarfir

Þegar nýjar tölur um mannfjölda á Íslandi eru skoðaðar sést að íslenskt fæddum landsmönnum fækkar á meðan aðfluttum íbúum landsins fjölgar hratt. Í lok 3. ársfjórðungs 2019 bjuggu 362.860 manns á Íslandi, 186.220 karlar og 176.640 konur þannig að karlar eru 10 þúsund fleiri en konur. Landsmönnum fjölgaði um 2.470 á ársfjórðungnum. Kannski ekki mikið þegar hugsað er til þess að mannkyninu fjölgar um 200.000 manns á dag eða um 80 milljónir á ári. Hér var í pistli í apríl síðastliðnum og aftur í júní fjallað almennt um spár um mannfjöldaþróun í heiminum en nú eru nýjar spár að birtast sem benda til þess að hægi hraðar á henni en áður var gert ráð fyrir. Það eru jákvæð tíðindi.fjöldi

Tölurnar hér á Íslandi eru eðlilega miklu lægri en sýna þó markverða þróun. Á 3. ársfjórðungi 2019 fæddust 1.250 börn, en 540 einstaklingar létust. Þeim sem fæddir eru á Íslandi fjölgaði þannig um 710. Á sama tíma fluttust 1.560 einstaklingar til landsins umfram brottflutta. Brottfluttir einstaklingar með íslenskt ríkisfang voru 210 umfram aðflutta, en aðfluttir erlendir ríkisborgarar voru 1.770 fleiri en þeir sem fluttust frá landinu. Um 7.500 erlendir ríkisborgarar hafa þannig flutt til landsins á árinu, eða rúmlega einn á hverri klukkustund alla þessa mánuði eins og bent var á í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í vikunni. Þaðan er meðfylgjandi graf fengið að láni.

Miklar breytingar

Þegar þessar tölur eru skoðaðar blasir við að það eru að verða miklar breytingar á samsetningu landsmanna, eftir því hvort þeir eru fæddir hér á landi eða erlendis. Í lok annars ársfjórðungs bjuggu þannig 48.640 erlendir ríkisborgarar á Íslandi, eða 13,4% af heildarmannfjölda. Engin greining liggur fyrir sem segir okkur hvernig þessi fjöldi skiptist eftir aldri eða kyni þó auðvitað megi gera ráð fyrir að Hagstofan hafi þær tölur. Það blasir við að þessi fjöldi erlendra ríkisborgara á Íslandi skiptir miklu þegar meta á þörf fyrir húsnæði eða þjónustu. Þess brýnna að átta sig á því þar sem gera má ráð fyrir að þessi hópur verði stöðugt fyrirferðameiri. Þegar 15 ára gamlar spár Hagstofunnar eru skoðaðar sést að hún hefur ekki séð fyrir fjölgun vegna aðfluttra en nú erum við komnir fram úr þeim fjölda sem Hagstofan spáði þá að myndi lifa hér á landi árið 2045.

Landsmenn voru um 348.500 í byrjun árs 2018 en eru nú tæplega 363 þúsund. Það er fjölgun um 14.500 íbúa sem er hér um bil á við íbúafjölda Mosfellsbæjar og hálfan íbúafjölda Seltjarnarness að auki. Frá aldamótum hefur landsmönnum fjölgað um 30%. Augljóst er að aðfluttir leiða fjölgunina enda fæðingartíðni á niðurleið.

Gert ráð fyrir sveiflu í mannfjöldaþróun

Hagstofa Íslands spáði fyrir ári síðan sveiflum í mannfjöldaþróun á næstu árum, einkum vegna búferlaflutninga. Spáin gekk út á að á næstu fimm árum yrði fjölgun innflytjenda i áfram mikil en sú fjölgun gangi að nokkru leyti til baka eftir 5–10 ár og að mannfjöldi staðni því um skeið. Það er álitaefni hvort þessi spá er trúverðug og vandasamt hvernig taka á tillit til þessa við mat á íbúðaþörf. Þörf fyrir íbúðir hefur vaxið hratt á undanförnum árum vegna mikillar fólksfjölgunar, breyttrar aldurssamsetningar og annarrar lýðfræðilegrar þróunar. Fólksfjölgun hefur verið yfir sögulegu meðaltali undanfarin ár og aldrei mælst jafn mikil og árið 2017.