c

Pistlar:

25. apríl 2019 kl. 12:36

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Opinber eða óopinber framtíðarsýn

Á jörðinni búa í dag um 7,7 milljarðar manna og fjölgar um milljarð á hverjum áratug eða þar um bil. Sumar spár segja að mannfjöldi jarðarinnar muni ná hámarki í 11 til 12 milljörðum manna á seinni hluta 21. aldarinnar. Til eru spár sem telja þetta vanmetið og aðrar sem segja þetta ofmetið. Innan ekki svo langs tíma er talið að Indland fari fram úr Kína sem fjölmennasta ríki jarðar og mannfjöldi nái þar hámarki í 1,7 milljarði manna eftir tvo áratugi eða svo. Á sama tíma eru þessi tvö fjölmennustu ríki heims að ná fram umtalsverðum hagvexti í ríkjum sínum og ljóst að áhrif þeirra á aðra jarðarbúa aukast dag frá degi á flestum sviðum. Það er reyndar svo að Kínverjar sjá nú þegar fram á fólksfækkun og það á við um mörg vestræn ríki. Japönum fækkar um sem svarar fjölda Íslendinga á hverju ári og sjá það ráð helst að búa til vélmenni til að hugsa um sig í framtíðinni, nema þeir neyðist til að slaka á harðri innflytjendastefnu sinni. Rússum og Ítölum fækkar og mörg önnur ríki eru að fást við fólksfækkun, meira að segja við Íslendingar sjáum hratt lækkandi fæðingatíðni.

Í hvaða samhengi er þetta sagt? Jú, þegar verið er að velta fyrir sér framtíðinni - hvort sem það er hér á landi eða annars staðar - þá er spurning hvort hægt er að gera það án þess að nefna mannfjöldaþróun í heild sinni og sérstaklega þessi tvö fjölmennustu ríki heims? Nýlega skilaði nefnd á vegum forsætisráðherra frá sér skýrslu sem felur í sér ákveðna sýn á framtíðina hér á landi. Hægt er að senda inn umsagnir um skýrsluna þessa dagana en ekki verður farið djúpt í efni hennar í þessum pistli. Hugsanlega er hún kannski bara vitnisburður um að menn séu góðir að skrifa skýrslur, óháð því hvað framtíðin ber í skauti sér. Hér er því fremur ætlunin að velta fyrir sér spáfræði nútímans en menn hafa frá örófi alda reynt ýmsar aðferðir til að öðlast vitneskju um og hafa áhrif á framtíðina og heiminn, á árum áður oft með hreinum og klárum göldrum!

Homo sapiens á útleið?

Það er hins vegar forvitnilegt að velta fyrir sér framtíðinni, einfaldlega af því að við vitum svo lítið um hana, augljóslega! Hér í pistlum hefur í gegnum tíðina mátt lesa ýmsar slíkar vangaveltur og hefur þeim er þetta ritar verið tíðrætt um gervigreind og satt best að segja staðið nokkur stuggur af henni. Má vera að það sé ein af stærstu áskorunum framtíðarinnar að skilgreina og meta þá þörf sem við höfum fyrir gervigreind. Sama má segja um líftækni hverskonar en líklegt er að innan ekki langs tíma getum við bæði raðað saman erfðamengi mannsins eftir því sem henta þykir og búið til líffæri eftir þörfum. Um leið er ljóst að íhlutir hverskonar verða samtengdir mannslíkamanum á margvíslegan hátt þannig að mörkin á milli manna og véla verða óskýrari. Má vera að þetta séu breytingar eða þróun sem ekki þurfi að hafa áhyggjur af en augljóslega munu þeir geta haft áhrif á sjálfsvitund fólks. Hugsanlega eru þarna komin stórkostlegt atvinnutækifæri fyrir siðfræðinga framtíðarinnar! En án gríns. Fræðimenn eins og sagnfræðingurinn Yuval Noah Harari hafa lagt sig eftir að rýna í mögulega þróun um leið og hann hefur reynt að rekja sögu hugsana mannsins og hvernig hinum viti borna manni hefur aukist skilningur og þekking í gegnum tíðina. Sem ein og sér kann að vera umdeild fullyrðing að sumra mati en þó leyfi ég mér að setja hér mynd af styttu Arkimedesar sem stendur í sikileysku borginni Sýrakusu. Hann einn og sér efldi þekkingu mannsins svo að undrun sætir.arkimedes

En víkjum aftur að Harari en hann er höfundur bókanna: Sapiens: A Brief History of Humankind (2014), Homo Deus: A Brief History of Tomorrow (2016), and 21 Lessons for the 21st Century (2018). Í tveimur síðasttöldu bókunum rýnir hann fram á veginn og varpar upp margvíslegum möguleikum. Forvitnilegt er að sjá að hann hefur efasemdir um að hinn viti borni maður (homo sapiens) sé eins eilífur og margir virðast telja. Eins og áður sagði þá er mögulegt að maðurinn þróist fyrir tilverknað erfðatækni og véltækni og jafnvel nanótækni þannig að skilin milli manns og vélar hverfi. Hvað verður þá er vitaskuld erfitt að segja og sem stendur eru mörkin milli slíkra vangaveltna og hreins og klárs vísindaskáldskapar óljós.

Þarf að stýra þróuninni?

Stærstu framtíðarverkefnin lúta væntanlega að því að skilgreina hvað langt við viljum ganga í að hafa áhrif og stýra þróuninni. Verða þetta gósentímar fyrir stjórnmálamenn eða aðra þjóðfélagsskipulagsfræðinga eða verður yfir höfuð hægt að stýra þróuninni? (Og verður rétt að tala um þróun?) Þó að skýrslur framtíðanefnda geti vissulega gefið einhverja sýn á framtíðina þá er ómögulegt að segja hvernig hlutirnir breytast, fái þróunin að ganga fram óáreitt og án þess að reynt sé að stýra henni.

En staðreyndin er sú að framtíðardraumur eins getur verið framtíðarhryllingur annars. Verður hlutverk hins opinbera stærra og stærra og hið alsjáandi auga kerfisins stöðugt að fylgjast með hverjum og einum einstaklingi eins og við sjáum möguleika á í gagnasöfnun nútímans? Ótalmargar dystópíur skáldskaparins fjalla um slíka hluti og augljóst að fólki hefur staðið stuggur af slíku allt síðan George Orwell skrifaði bók sína 1984. Ártalið reyndist kannski ekki vel heppnað en hugsanlega rætist spásögn Orwells við annað tækifæri. Eins og áður sagði þá má alltaf velta fyrir sér hve langt skal ganga í að stýra þróuninni. Ef hið opinbera hefur ekki hönd í bagga mun þá allt fara til fjandans? Er það önnur útgáfa af framtíðinni? Og mun sú framtíð fela í sér að villimennskan ráði ríkjum og aðeins sá sterki eigi möguleika?

Fyrir stuttu mátti lesa frétt frá Alþjóðlegu efnahagsstofnuninni (World Economic Forum) um að gervigreind muni breyta blaðamennsku og það hratt. Jafnvel svo að 90% frétta verði skrifaðar af gervigreindarforritum strax árið 2025. Þetta kann mörgum að þykja heldur ósennilegt en blaðamennskustarfið á sannarlega undir högg að sækja nú um stundir. Um leið og samskipti aukast og upplýsingar verða aðgengilegri verður eðlilega aukin hætta á því að reynt sé að bregða upp falskri mynd af veruleikanum. Það er svo sem ekkert nýtt að það sé reynt en það er núna gert á nýjum forsendum. Og það eru ekki blaðamenn einir sem þurfa að hafa áhyggjur af störfum sínum þó án efa sé sjálfvirknivæðing að einhverju leyti ofmetin og þá sérstaklega tímaþátturinn. Það má til dæmis efast um að sjálfkeyrandi bílar verði tiltækir innan næstu 5 til 10 ára en eftir það er ómögulegt að spá hvað verður á því sviði. Má vera að það sé vandinn við spáfræði nútímans, hún er kannski ekkert betri en þegar menn rýndu í innyfli fugla eða galdrarúnir.

Ég óska lesendum gleðilegs sumars!