c

Pistlar:

8. febrúar 2023 kl. 10:34

Sigurður Már Jónsson (sigurdurmar.blog.is)

Draumahallir knattspyrnunnar

Það ríkir sérstakt andrúmsloft í kringum knattspyrnuvelli Englands á leikdegi. Þetta verða aðkomumenn varir við þegar komið er inn í hverfi heimaliðsins þegar leikur stendur fyrir dyrum. Pistlaskrifari fór á leik Tottenham og Manchester City sem leikinn var á Tottenham Hotspur Stadium seinni part sunnudags um síðustu helgi. Eins og nafnið gefur til kynna er þetta heimavöllur Tottenham Hotspur, stórliðsins sem eiginlega aldrei vinnur neitt svo það sé nú sagt. Allavega hafa þeir ekki unnið neitt í seinni tíð þó ekki verði af þeim tekið að þeir komust í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu fyrir tveimur árum þar sem þeir töpuðu fyrir öðru liði frá Englandi. Það sýnir líklega betur en margt annað sterka stöðu ensku knattspyrnunnar í nútímanum. Enska deildin er nú óumdeilanlega sú fremsta í heimi hvort sem litið er til áhuga almenninga, umgerð, fjárútlát og stórstjörnur og uppákomur.vollur2

Til að komast á áfangastað var jarðlestin tekin frá King’s Cross brautarstöðinni en þetta einstaka lestarkerfi Lundúna tengir saman íbúa þessarar 10 milljón manna stórborgar (14 milljónir þegar úthverfin eru talin með) og gerir hana að einum mögnuðum bræðslupotti. Eftir 15 mínútna ferð vorum við sannarlega í Tottenham-hverfinu en rétt grilltum í sjálfan leikvanginn fyrir enda götunnar. Lestarkerfið nær ekki alla leið að nýja vellinum sem tók við af White Hart Lane og var reyndar byggður í kringum gamla völlinn. Það var gott veður og við ákváðum að ganga enda aðeins um rúmleg hálftíma rölt að nýja vellinum. Alla leiðina var stemmningin meðal heimamanna að magnast upp. Sölumenn falbuðu varning sinn sem var skreyttur litum Tottenham eða bar myndir af leikmönnum. Barir stuðningsmannanna urðu fyrirferðameiri þegar nær kom leikvanginum og hávaðinn magnaðist smám saman upp. Framhjá okkur gengu öðru hvoru stuðningsmannahópar liðanna og sungu baráttusöngva og létu ófriðlega.

Þegar að vellinum er komið er ekki annað hægt en að dáðst að mannvirkinu þar sem það rís upp yfir sléttuna. Tottenham Hotspur Stadium tekur rúm 62.000 manns í sæti og skýrt er tekið fram að menn eigi að sitja, nokkuð sem heitustu stuðningsmennirnir gleyma að fara eftir þegar æsingurinn færist yfir þá. Bygging vallarins hófst árið 2015 og gekk brösuglega framan af og seinkaði opnun hans talsvert. Fyrsti leikur Spurs í úrvalsdeildinni á vellinum var í apríl árið 2019 og telst völlurinn einn sá glæsilegasti í Englandi. Fleiri nýir vellir eru í smíðum eða áform um slíkt hafa verið kynnt. Fjármunirnir streyma inn í deildina og menn munar ekki um að byggja upp aðstöðuna.vollur5

Smáréttir og töfrabrögð

Við vorum mætir tveimur tímum fyrir leik enda keypt „hospitality“ miða sem við vissum þó ekki almennilega hvað í fólst, höfðum þó væntingar um góðgerðir á leikdegi. Það þarf leiðbeiningar fyrir ókunnuga að finna rétta innganginn og þegar þangað var komið beið öryggisgæsla og strangt eftirlit. Allstaðar voru öryggisverðir og myndavélar en þó var ró yfir öllu. Að þessu sinni áttu menn ekki von á neinum vandamálum, hér voru ekki erkióvinir að eigast við.

Þegar inn var komið minnir leikvangurinn frekar á nýtískulegt leikhús eða hljómleikahöll. Allt er þó af annarri stærð og umfangi. Rúllustigar báru okkur upp á fjórðu hæð þar sem biðu glæsilegir veislusalir. Við höfðum ætlað að vera tímalega en salurinn var þétt setin tveimur tímum fyrir leik og fólk búið að koma sér vel fyrir. Þarna eru hægindasæti af bestu gerð og menn geta í senn horft á leiki sem voru í gangi og notið veitinganna. Við Leedsarar náðum að taka út smá þjáningu með því að horfa á Skírisskógardrengina í Nottingham vinna í fallbaráttuslagnum. En til Tottenham var komið sigursælt lið Manchester City sem þar til fyrir skömmu hafði ríkustu bakhjarlanna á bak við sig. Í veðmáli innan hópsins hafði engin trú á sigri heimamanna.

Í glæsisölunum voru engar knattspyrnubullur, þarna mátti sjá sé vel búið fólk dreypa á kampavíni og láta fara vel um sig. Lystugir smáréttir biðu gestanna og þjónar tóku jafnóðum í burtu tæmd ílát. Á borðið okkar kom hressilegur náungi sem bauð upp á töfrabrögð og hann lét giftingahring eins ferðafélagans hverfa en sem betur fer kom hann aftur í leitirnar. Gagnlegra var þegar hann breytti 1000 króna seðli í evrur!vollur3

Dáðadrengur frá S-Kóreu

Á næstu hæð fyrir ofan sáum við dyrnar að einkastúkunum, við sveitapiltar frá Íslandi gátum bara látið okkur dreyma um lúxusinn sem þar var innan dyra en við sáum prúðbúna þjóna streyma þar inn og út. Við settumst tímalega í sæti okkar og fylgdust með stórstjörnunum hita upp og leikvangurinn fylltist smám saman. Fyrir aftan okkur sat stór hópur frá Suður-Kóreu, skreyttir heimafánum. Þeir voru mættir yfir hálfan hnöttinn til að fylgjast með landa sínum Son Heung-min. Hann mun vera dýrasti asíski leikmaður í sögu knattspyrnunnar og markahæsti asíski markaskorari í ensku úrvalsdeildinni og er bara ansi snjall knattspyrnumaður. Hrifningarstuna fór um landa hans þegar hann tók sprettinn.

Leikurinn var hin besta skemmtun en þegar upp var staðið var það mark frá dáðasta leikmanni Tottenham, sjálfum landsliðsfyrirliðanum Harry Kane, sem skildi á milli. Hann setti markamet hjá Tottenham í leiðinni og fékk viðtal við sig og sungnir voru söngvar um hann innan og utan leikvangsins. Allir sjálfsagt búnir að gleyma vítaspyrnuklúðrinu hjá honum sem sendi Englendinga út úr HM fyrir tveimur mánuðum.vollur4

Stjórnendur knattspyrnuliða annarra landa kvarta yfir djúpum vösum enskra liða og sitt sýnist hverjum um framferði þeirra á leikmannamörkuðum. Engum dylst að enska knattspyrnan fangar athygli áhugamanna um allan heim og það langt umfram það sem stórlið annarra landa geta látið sig dreyma um. Efnahagslega skiptir þetta talsverðu máli fyrir breskan ferðaiðnað enda streyma stórir hópar stuðningsmanna og forvitinna áhorfenda að frá öðrum löndum. Það er auðvitað hálf undarlegt að vera hluti af þessum kúltúr en skemmtilegt á sinn hátt.