c

Pistlar:

16. maí 2019 kl. 13:56

Valgeir Magnússon (valgeirmagnusson.blog.is)

Afi í Palestínu

Ég fæddist frjáls

en kvarta samt

ég fæddist í friði með allt sem ég þarfnast

en kvarta samt

kvarta yfir veðrinu, vöxtunum og verðinu

 

En hvað ef ég fengi steikjandi hita,

engar afborganir og lægra verð?

Yrði ég þá ánægður?

Eins og landlausi maðurinn sem brosti til mín í Palestínu.

Ég flýg heim til að kvarta yfir veðrinu.

Ég var svo heppinn að vera í Ísrael og Palestínu nýlega þar sem ég var að aðstoða Heru Björk við að flytja tónlist tengt Eurovision hátíðinni og að heimsækja S.O.S. barnaþorp báðum megin landamæranna. Þessar heimsóknir snertu mig mikið. Börnin sem voru svo spennt að hitta okkur, skoða myndavélarnar hjá mér, fara í grettukeppni, fá þau í fangið og borða með okkur pizzu. Ég er nýlega orðinn afi og því með með hjartað opið og móttækilegt og lagði mig því mikið fram við að tengjast og skilja veruleikann sem börnin þarna alast upp við. Einnig hvernig fullorðna fólkið er að reyna að búa þeim líf og framtíð í óviðunandi aðstæðum og stríði.

Heimssýn þessa fólks er önnur en okkar. Viðmið um hvað sé gott líf er ekki það sama og þarfir ekki heldur. Kúgað fólk sem þarf að sækja um sérstakt leyfi til að fara yfir landamærin. Er meinað að keyra bíl röngu megin landanæranna og er stöðugt meðhöndlað sem glæpamenn í eigin heimalandi. Fólk sem þráir bara frið og mannréttindi. Veggur hefur verið reistur á milli landshluta þar sem íbúarnir mega ekki fara á milli, hvorki Ísraelar né Palestínufólk nema með undantekningum. Undir niðri kraumar reiðin, beggja vegna landamæranna. Flest fólk er þreytt á stríðinu og skilur hvað þarf að gera. En ef stoltir íhaldssamir leiðtogarnir geta hvorkið bakkað né fyrirgefið, mun ekkert gerast. Þegar annar þjóðfélagshópurinn er æðri hinum, þá er ekki von á góðri útkomu. Flestir sem ég hitti Ísraelsmegin skammast sín fyrir ástandið og álit heimsins á ástandinu. En þessi áratugadeila liggur djúpt í sál þeirra sem eru eldri. Eldra fólkið man eftir skærunum þar sem sprengjum var varpað á fjölskyldur sem óku um þjóðveginn frá Tel Aviv til Jerúsalem. Bílhræin standa þar enn frá því á sjöunda áratugnum til minningar um þá sem létust á þessum árum.

Það sem snart mig best í þessum heimsóknum í S.O.S. barnaþorpin var hversu mikil áhersla var lögð á að fræða og ala börnin upp í umburðarlyndi, samvinnu, víðsýni og jafnrétti beggja vegna landamæranna. Sérstaklega var Palestínumegin lögð áhersla á að ala börnin upp í jafnrétti kynjanna. Til að brjóta niður það mein að karlmenn drottni yfir konum í ákveðnum þjóðfélagshópum. Einnig að umgjörð til stuðnings er til 23ja ára aldurs, svo einstaklingarnir eigi betri möguleika á að fóta sig í fullorðinslífi með stuðningsneti.

Þarna voru börn sem höfðu misst annað foreldri eða bæði eða þá að foreldrarnir eru ófærir um, tímabundið, eða til framtíðar, að hugsa um bornin sín. Börn sem höfðu orðið fyrir miklum áföllum, vanrækslu og/eða ofbeldi. Án þess að fá þá aðstoð sem S.O.S. Barnaþorpin veita þeim, væru þessi börn mjög líkleg til að alast upp sem reiðir, þröngsýnir einstaklingar sem gera samfélagið sitt verra. Þess í stað er skapaður jarðvegur til að þau verði víðsýnir, umburðarlyndir og jafnréttissinnaðir einstaklingar sem eru líklegir til að bæta umhverfi sitt.

Það er nefnilega ekki bara barnið sjálft sem fær betra líf, heldur samfélagið í heild sinni, ef barni er gefinn möguleikinn til að þroskast og menntast í ástríku umhverfi.

Ég hitti kynslóðina sem mun leysa deiluna, fyrirgefa og halda áfram. Kynslóðin sem sér að samvinna og jafnrétti er alltaf leiðin áfram. Drottnun og óréttlæti er alltaf stöðnun eða leiðin afturábak. Ég kom því bjartsýnn aftur til Íslands til að kvarta yfir veðrinu.

Valgeir Magnússon

Valgeir Magnússon

Valgeir er auglýsinga og markaðsmaður ásamt því að vera rithöfundur, textahöfundur og dægurlagahöfundur. Valgeir er stjórnarformaður hjá Pipar\TBWA, The Engine, Ghostlamp, Nordic Angling og Fastland. Meira