c

Pistlar:

11. mars 2024 kl. 15:17

Valgeir Magnússon (valgeirmagnusson.blog.is)

Vald fjölmiðla

Ég hef verið hugsi yfir því hvernig fjölmiðlar hafa talað um Söngvakeppnina síðustu viku. Allar fréttir hafa snúist um kosningaklúður, reiði á samfélagsmiðlum og að Ísland sé í „frjálsu falli“ í veðbönkum. Rasisma í garð Bashar og árásir á Heru Björk.

Enginn fjölmiðill hefur skrifað um að kona á sextugsaldri hafi verið að vinna Söngvakeppnina og sé á leiðinni að syngja á stærsta sjónvarpsviðburði veraldar. Þar sem hún er ekki að fara að syngja gamaldags ballöðu, hún er að fara að syngja danspopp. En konur verða gjarnan fyrir meiri aldursfordómum en karlar.

Enginn minnist á hversu merkilegt það sé að ung poppstjarna eins og Ásdís ákveði að Hera Björk sé rétta manneskjan til að skila laginu til áhorfenda og enginn minnist á það hvernig Hera skein skært á sviðinu í þessari erfiðu baráttu undir erfiðum kringumstæðum þar sem tæknimistök urðu í lokaflutningnum.

Enginn fjölmiðill virðist velta því fyrir sér að fólk hafi kosið hana vegna þess að hún gerði þetta frábærlega og sýndi að hún á eftir að gera okkur stolt enn eitt skiptið. Ekki heldur er skrifað um að ferill Heru Bjarkar er að taka nýjar hæðir svo seint á ævinni.

Ferill hennar hófst fyrir alvöru um fertugt þegar hún steig út úr bakröddum á stóra sviðinu árið 2009 þar sem hún keppti í dönsku undankeppni Eurovision og lenti í 2. sæti með lagið Someday. Ári síðar keppti hún svo fyrir hönd Íslands í rauðum kjól sem allir muna eftir. Síðan þá hefur hún farið um allan heim að syngja, sigrað stærstu söngvakeppni Suður-Ameríku og nú hefst enn einn nýr kafli.

Ég er að vísu ekki að segja satt og rétt frá, því einn fjölmiðill hefur gert þetta. Sá óvæntasti af þeim öllum. Það var fótboltaþátturinn Dr. Football sem valdi Heru sem mann vikunnar fyrir að „valdefla allar eldri konur landsins með þau skilaboð að allt sé hægt“.

Það vekur líka furðu mína að hinir keppendur úrslitanna fá heldur ekki umfjöllun um hvað þau stóðu sig vel. Ungu bræðurnir í VÆB eru stórkostlegar nýjar stjörnur með orku sem ekki oft hefur komið á sjónarsviðið, Sigga Ózk stórglæsileg með frábært lag eftir sig sjálfa og mætt í úrslit svo ung, annað árið í röð, og svo Aníta sem er nýfarin að syngja og kemur fram eins og Beyoncé á sviðinu full af orku. Meira að segja Bashar hefur bara fengið umfjöllun um það að hann hafi orðið fyrir rasima (sem er hræðilegt) en ekki hvað hann stóð sig vel og hveru skemmtilegur hann var þegar hann tók Rólegur kúreki með Einari Stefánssyni. Hversu hæfileikaríkur þessi maður er og hve heppin við erum að hafa fengið að kynnast honum í þessari keppni.

Það er eitt að fólk á samfélagsmiðlum taki afstöðu. Haldi með sínum og missi sig í lyklaborðskasti og dónaskap á netinu. En þegar fjölmiðlar sveiflast með með stórorðum yfirlýsingum og gleyma hlutverki sínu, þá er erfitt að ætlast til þess að umræðan á netinu verði viturleg. Því fólk veit að umræða á netinu er ábyrgðarlaus en það telur að fjölmiðlar séu ábyrgir og tekur það sem þar stendur trúanlegt og rétt.Ef enginn bendir á það sem er jákvætt og fallegt þá verður allt ljótt. Því „perception is reality“.

Þegar ég var ungur fjölmiðlamaður fór ég ekki alltaf vel með það vald sem fjölmiðlafólki er gefið. Svo fékk ég símtal frá konu sem tók mig á beinið í símanum yfir því hversu illa ég hafði farið með vald mitt sem fjölmiðlamaður. Ég byrjaði eins og allir hrokafullir ungir menn á því að réttlæta það sem ég gerði með því hversu vinsælt það var. En eftir nokkra umhugsun áttaði ég mig á því að ég var að skekkja raunveruleikann og valda skaða. Á þeim árum þegar ég rak fjölmiðla brýndi ég því ávallt fyrir þeim sem þar unnu að misnota ekki vald fjölmiðlanna og sýna öllum virðingu.

Ég skora á fjölmiðla núna, þegar rykið er fallið eftir ofsakeppni og dónaskap á samfélagsmiðlum um hver ætti að fara fyrir Ísland í Eurovision, að skoða niðurstöðuna með nýjum gleraugum. Gæti verið að það sé í þessu einhver önnur frétt en hefur verið að birtast? Er á ferðinni fallegt ævintýri sem skemmtilegt væri að fylgjast með þar sem drottning Eurovision er snúin aftur 14 árum síðar til að hrífa Evrópu með sér.

Höfundur er ekki hlutlaus og hefur ferðast með Heru um allan heim frá því 2010.

 

Valgeir Magnússon

Valgeir Magnússon

Valgeir er auglýsinga og markaðsmaður ásamt því að vera rithöfundur, textahöfundur, dægurlagahöfundur, pistlahöfundur, pabbi og afi. Valgeir er stjórnarformaður hjá Pipar\TBWA, The Engine, Ghostlamp og Fastland. Stofnandi og einn eigenda Landnámseggja í Hrísey og stjórnarformaður í Hrísey verslun. Framkvæmdastjóri SDG\TBWA og Scandinavian Design Group í Noregi og stjórnarmaður í TBWA\Nordic og varaformaður Norsk-íslenska viðskiptaráðsins.

Meira