Þóttist kunna sænsku fyrir hlutverk

Jóhannes Haukur Jóhannesson fer með hlutverk í fjórðu þáttaröð Succession.
Jóhannes Haukur Jóhannesson fer með hlutverk í fjórðu þáttaröð Succession. mbl.is/Hari

Jóhannes Haukur Jóhannesson fer með hlutverk í fjórum þáttum í fjórðu þáttaröð bandarísku þáttanna Succession. Jóhannes Haukur segir frekar næs að fá að bregða sér í jakkafötin í tökum, enda mikið verið í þáttum þar sem hann útataður í blóði í þungum víkingaklæðum. 

„Ég náttúrulega þekkti þessa þætti, þeir eru í miklu uppáhaldi hjá mér. Maður fær yfirleitt nei í svona prufum. Það er yfirleitt þannig. Svo detta inn já-in hér og þar en ég ekki við að fá þetta frekar en eitthvað annað. Svo er mér bara boðið hlutverkið,“ segir Jóhannes Haukur í samtali við mbl.is. Fjórða þáttaröðin fer í loftið hinn 26. mars.

Jóhannes Haukur kemur inn í fimmta þættinum og leikur alls í fjórum þáttum. „Allur fimmti þáttur gerist í Noregi og þau voru sérstaklega að leita að skandínavískum leikurum fyrir það,“ segir Jóhannes Haukur. Hann leikur Oskar Guðjohnsen, sem er viðskiptastjóri í sænsku fyrirtæki, en það er sænski leikarinn Alexander Skarsgård sem leikur forstjóra fyrirtækisins. 

„Eftir tökurnar þar voru ég og ein norsk leikkona fengin til að koma í þrjá þætti til viðbótar í Bandaríkjunum. Þau redduðu fyrir okkur atvinnuleyfi og við fórum svo þarna nokkrum sinnum til New York og lékum í þremur þáttum í viðbót. Þar á meðal í lokaþættinum,“ segir Jóhannes Haukur. 

Hversu erfitt getur verið að tala sænsku?

Vel fór á með þeim Jóhannesi Hauki og Skarsgård, sem hann kallar auðvitað bara Alexander. „Svo spjöllum við aðeins á sænsku í þáttunum. Ég lærði dönsku í skóla auðvitað og var spurður hvort ég kunni sænsku, og ég sagði bara já. Ég meina, hversu erfitt getur þetta verið? Þegar á hólminn er komið þá þetta er náttúrulega allt á ensku. Svo vildu þeir fá samtal á milli okkar á sænsku. Þá fæ ég þetta allt skrifað og Alexander hjálpaði mér með framburðinn,“ segir Jóhannes Haukur sem segir að í þáttunum hafi hann bara verið Íslendingur að vinna í Svíþjóð. 

Varstu ekki of mikill víkingur fyrir svona þætti?

„Nei þeim fannst það svo gaman. Þau tala um okkur sem víkingana því við erum skandinavíska fyrirtækið sem er koma til Bandaríkjanna. Þeim fannst þau vera að koma inn í annan heim þegar þau koma til Noregs. Þannig þeim fannst bara fínt að við litum öðruvísi út, hávaxin, skeggjuð og ljóshærð og svona,“ segir Jóhannes Haukur sem farið hefur með hlutverk Ólafs Haraldssonar í þáttunumVikings: Valhalla. 

„Það var næs að geta verið í jakkafötum, ekki einhverjum níðþungum leðurbrynjum og einhverju drasli. Það var mjög skemmtileg tilbreyting.“

Jóhannes Haukur segir það næs að fá að leika í …
Jóhannes Haukur segir það næs að fá að leika í jakkafötum en ekki níðþungum leðurkæðum. Ljósmynd/IMDb

Succession fjallar um gríðarlega efnaða fjölskyldu í fjölmiðlaheiminum og eru margar litríkar persónur í þáttunum. Spurður hvernig væri að koma inn í þennan heim og hvort leikararnir væru jafn hrokafullir og á skjánum sagði Jóhannes: „Nei þau eru það alls ekki. Bara alls ekki. Það var líka það sem er gaman. Ég er búinn að horfa á þessa þætti mikið og þetta eru náttúrulega alveg snargeðveikir karakterar sem þau eru að leika. En þau eru öll voða elskuleg og vinaleg. Ekki við öðru að búast.“

Það er nóg að gera hjá leikaranum um þessar mundir en hann er með þetta ár vel skipulagt.

„Ég er núna að fara til Rómar á Ítalíu. Þar fæ ég að vera í jakkafötum. Ég er að fara í bandaríska sjónvarpsseríu sem er tekin upp á Ítalíu og þar fæ ég að vera í '50s-jakkaföt, þannig það verður gaman,“ segir Jóhannes Haukur sem má ekki gefa upp meira um þættina að svo stöddu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert

Spurt og svarað

húðlæknir á Húðlæknastöðinni svarar spurningum lesenda

sálfræðingur á Sálfræðistofunni Sálarlíf svarar spurningum lesenda

einstaklings- og fjölskylduráðgjafi svarar spurningum lesenda

Klínískur félagsráðgjafi hjá Lausninni

hjúkrunar- og kynfræðingur svarar spurningum lesenda

svarar spurningum um lögfræðileg mál