Menn sem eru æstir í að sanna sig

Heimir Hallgrímsson
Heimir Hallgrímsson AFP

Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari íslenska karlalandsliðsins í knattspyrnu var hress að vanda á blaðamannafundi í dag fyrir leik liðsins á morgun gegn Króatíu í undankeppni HM.

Margir af leikmönnum íslenska liðsins eru ekki í mikilli leikæfingu og Heimir var spurður út í það mál á blaðamannafundinum.

Birkir Bjarnason lék síðast knattspyrnuleik 4. mars, Ragnar Sigurðsson hefur aðeins leikið þrjá leiki frá áramótum með Fulham og þeir Jóhann Berg Guðmundsson, Alfreð Finnbogason og Kári Árnason hafa verið talsvert meiddir á tímabilinu.

„Þetta er bæði jákvætt og neikvætt. Það er slæmt ef menn eru ekki búnir að spila mikið en það er líka gott á þessum tímapunkti að vera með leikmenn sem eru frískir, tilbúnir og jafnvel æstir í að sanna sig. Sumir hafa verið að bíða eftir þessum leik,“ sagði Heimir en Ragnar Sigurðsson sagði við mbl.is á dögunum að hann hefði verið búinn að hugsa um þennan leik í nokkra mánuði.

Spurður hvort menn eins og Ragnar og Birkir séu klárir í heilan leik sagði Heimir:

„Við teljum það og þeir telja það. Það verður síðan að koma í ljós eftir 80 mínútur hvort þeir klári síðustu 10 mínúturnar en við höfum ekki tekið vináttuleik og vildum ekki taka vináttuleik. Okkur fannst það ekki klókt að þessu sinni,“ sagði Heimir á blaðamannafundinum.

Leikurinn fer fram kl. 18:45 á Laugardalsvelli annað kvöld og verður að sjálfsögðu gerð ítarleg skil hér á mbl.is sem og í Morgunblaðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert